Færsluflokkur: Vísindi og fræði
22.2.2008 | 10:24
Fjársjóðskista
fsalega var ég heppin á Þriðjudaginn! Ég var svo sniðug að skrá mig á fyrirlestur hjá Professor Rosamond McKitterick (University of Cambridge) í sambandi við meðhöndlun á handritum og vinnu við þau. Vá, hvað ég datt ofan í fjársjóðskistu þar. Fyrirlesturinn var einungis opinn fyrir 15 til að skrá sig og var ég svo heppin að komast að og svo skemmtilega vildi til að Catriona vinkona komst líka. Þetta var einungis tveggja tíma fyrirlestur og það var bara alls ekki nóg, hefði velj verið hægt að skilja mig eftir þarna inni bara.
Okkur var komið fyrir í handritasafnsdeildinni með blað og blýant og svo byrjaði ballið. Hún kallaði upp einhver 15 handrit, en fékk nokkur fleiri í viðbót sem var ekki verra. Þetta voru allt skinn handrit frá 12. - 16. öld hvaðanaf úr heiminum og þau voru öll alveg rosalega gullfalleg.
Fyrsta handritið sem hún sýndi okkur var 12.aldar Biblía, alls ekki stór og letrið var ennþá smærra. Hún var öll rituð á latínu en letrið var svo smátt að við gátum varla greint orð frá orði en samt var rithöndin rosalega vel greinileg, með greinileg T og I úr vísi-gotneskum ritstíl. Það fór ekki mikið af teikningum í bókinni en þar sem þær voru, þá voru þær vel gerðar og mjög ríkuglega skreyttar með bláu (lapis lazuli) pigmenti, sem næst á eftir gulli var dýrast. Skinnið sem var notað var í rosalega góðum gæðum og var spurningin um hvort að skinnið sem hefði verið notað væri kanínuskinn þar sem folio-in sem voru í henni væru öll svo rosalega vönduð og keimlík, hvergi göt neins staðar og engar leifar af hárum á folio-unum heldur.
Svo sýndi hún okkur bók sem var full af lyfjajurtum og ráðum, mjög ódýr bók, skinnið af lélegum gæðum, fullt af götum og líka ormagöt, en samt rosalega skemmtilegt að sjá hana og sjá muninn á milli þessara bókar og Biblíunnar. Höfuðstafir voru litaðir en þá með rauðum og grænum litum sem voru þeir ódýrustu sem hægt var að fá en það voru alls ekki allir höfuðstafirnir litaðir, sem gaf til kynna að annaðhvort hefði verið hætt við að skreyta bókina, eða sá sem stóð að gerð bókarinnar átti ekki meiri pening milli handanna til að borga fyrir restina.
Það voru svo nokkrar aðra bækur sem hún sýndi okkur sem bar merki um eitt og annað merkilegt í sambandi við meðhöndlun og vinnslu á gömlum handritum. Eitt handritið var þakið 'gold leafing' þar sem gulli er bókstaflega spreðað yfir folio-in í bókinni í alls konar skrautmyndun. Og ekki nóg með gullið þá var eitt handrit, frá fyrri hluta 16. aldar (en samt skinnhandrit), sem fjallaði um sögu Alexanders mikla, þar sem fyrsta folio-ið var myndskreytt með gylltu og bláu pigmenti og það svo rosalega fallega að ég vildi að ég gæti fundið mynd af síðunni til að sýna ykkur.
En Catriona og ég vorum held ég mest hrifnastar af að komast nálægt 12. aldar handriti af bók Bede (sem var uppi á fyrri hluta 8. aldar) en handritið var unnið í Durham klaustrinu og svo skemmtilega vill til að á spássíu bókarinnar víðs vegar er að finna punkta sem ritaðir eru af ábóta klaustursins. Okkur fannst þetta mjög merkilegt. Bókin er eins og almanak þess tíma, þar sem Bede var að reikna út hvenær Páskarnir væru og var þetta allt sett upp í svakalega flottum dálkum. Og þar við hliðina voru punktarnir eftir ábótann, þar sem hann noteraði það sem merkilegt hafði gerst á árinu. Þarna var líka að finna dagatal sem taldi upp dýrlinga hvers dags til að auðvelda fólki að fara eftir því svo og ýmislegt annað. Ég og Catriona biðum í um fimmtán mínútur eftir að komast yfir bókina að fá að skoða, það voru tveir einstaklingar sem voru svo leiðinlegir að algjörlega einoka þetta ákveðna handrit frá okkur. Nákvæmlega það eina sem við algjörlega ætluðum ekki að missa af. Ég þrjóskaðist við og á síðustu mínútunni þá náði ég taki á henni og fékk að fletta nokkrum blöðum áður en við þurftum að hætta. Eins og ég segi þá var alls ekki nægur tími fyrir okkur að handfjatla þessi dýrmæti.
Ég var algjörlega með nefið ofan í bókunum og hafði svo gaman af. Af því að við vorum svona mörg var mælst til að við notuðum hanska við að skoða handritin en það er samt ekkert óvenjulegt að fólk fái að flettast í þeim með berum höndum, enda er það oft betra heldur en hanskarnir, þá sérstaklega bómullar handskarnir. En við fengum FJÓLUBLÁA TOLLARAHANSKA, mér fannst það æði. Þar sem ég er fyrst og fremst nörd og vel umfram það sem venjulega telst, þá var ég svo skrítin að ég tók handskana með mér heim til minningar. Enda ekki oft sem maður fær svona tækifæri.
Ef þið viljið sjá nasasjón af því sem ég fékk að sjá og handfjatla þá getið þið farið á handritasíðu háskólans hérna: http://special.lib.gla.ac.uk/manuscripts/ Þarna getið þið valið handrita safn og fengið upplýsingar um þau og einnig þegar þið hafið valið safn til að skoða, þá er oft neðst á síðunni linkur á Handrit mánaðarins og þar getið þið fengið upplýsingar um ákveðin handrit og oftar en ekki eru einmitt myndir af þeim líka oft vel þess virði að kíkja á. Hérna er linkurinn á bókina hans Bede, en þið finnið hana undir Hunter safninu, handrit mánaðarins Janúar 2001: http://special.lib.gla.ac.uk/exhibns/month/jan2001.html