Færsluflokkur: Kvikmyndir

Om Shanti Om

Vá hvað ég er í stuði, eða var það þangað til ég steig upp í leigubílinn sem keyrði mig heim.  En rétt áður en það gerðist var ég alsæl.

Ég skellti mér í bíó í dag, ákvað að gera bara eitthvað alveg ótengt námi og samviskubiti.  Þetta var bollywood mynd, hvað annað gæti komið mér jafn hratt í bíó klukkan hálf eitt um dag en Bollywood mynd og það Bollywood mynd með Shah Rukh Khan ... ahhhhhh.  Ég á erfitt þegar þessi maður er á skjánum og þessi mynd var betri en tíu Chippendale sýningar í einu.  Drool, Elín, drool!

Ég átti svo erfitt með að sitja kjur en varð að gera það svo ég færi nú ekki að leika eftir atriði úr myndinni sem ég var á.  En þeir sem hafa séð mig þar sem Bollywood mynd eða músík (eða leikrit) er í gangi vita að ég á ótrúlega erfitt með að sitja kjur.  Bollywood myndir eru búnar til til að fólk dilli sér við þær.  Æðisleg tónlist sem er í henni.  Þetta er pottþétt mynd sem ég verð að fá.  Ég hló, ég grét, ég grét af hlátri og sorg.  Ég fór hjá mér, ég var reið, mér fannst myndin fáránleg, æðisleg, geggjuð, meiriháttar, ég var frá mér numin, mér fannst hún hreinlega fullkomin.  Liggur við að það sé komin ný uppáhaldsmynd með Shah Rukh Khan á sviðið.  Verst að ég á svo margar.  Hann gerir allt fyrir mig sem Hollywood gaurar eru algjörlega hættir að gera.  Hann hrífur mig með sér, hann heillar mig, hann fær mig til að roðna, til að tísta, til að brosa, skælbrosa og brosa stríðnislega.  Vá hvað ég er heilluð og svo þegar í einu atriðinu, þó nokkrir fleiri heitir aðalgaurar úr Bollywood flórunni birtust á skjánum með honum, með hnyklandi voða og tælandi bros, þá var ég í himnaríki í nokkrar sekúndur.  Ég get varla beðið eftir að komast yfir þessa mynd ... I want it! Svo ég geti horft á hana heima hjá mér og dillað mér á fullu og sungið með og grátið í friði. Om shanti Om, Om shanti Om, Om shanti Om ... la la la la la. 

 Svo gerði ég þau mistök að taka leigubíl heim og fékk ömurlega leiðinlegan leigubílstjóra, sem ætlaði að vera svo sniðugur að hefja samræður við mig.  Flestir sem hafa ferðast með mér í leigubíl hérna úti vita að mér finnst oftast gaman að tala við leigubílstjórana, en þessi var sá versti af öllum.  Fyrir utan fáránlegar spurningar móðgaði hann mig líka rosalega, sem er fáránlega erfitt til að byrja með.  En hann bókstaflega bað mig að útskýra af hverju ég hefði valið að koma til Glasgow / Skotlands til að læra það sem ég er að læra og hvort ég hefði ekki frekar átt að sækjast eftir námi á mínum heimaslóðum, sem sagt Íslandi.  Ég var samt áður búinn að segja honum að ég hefði áhuga á þessu ákveðna námi og þarna var hann bókstalega að biðja mig um að réttlæta fyrir honum hvað ég væri að gera hérna og hvort ég ætti ekki bara að halda mig heima.  Hvort það væri nú ekki bara eitthvað sem ég myndi frekar ráða við ef ég væri heima á Íslandi að læra heldur en hérna í Glasgow.  Þegar það tók mig ÞÓ nokkrar sekúndur til að svara honum, þá spurði hann mig hvort hann hefði móðgað mig.  Vá hvað þetta var bjartur gaur.  Miðað við að ég var í svona fínu skapi þangað til ég hitti hann og hef fengið ýmsikonar spurningar frá öðrum leigubílstjórum, misjafnlega gáfulega spurt, þá gat það ekki farið fram hjá mér hvað hann var að meina.

En ég er hætt að hugsa um leigubílstjórann og ætla að fara að gúggla upp Shah Rukh Khan og myndir úr nýjustu bíómyndinni og fleira.  Hver veit nema ég skelli mér svo aftur í bíó í vikunni á mynd sem heitir Saawariya.  Ég er í Bollywood fílíng, mega mikið núna.

Ég held ég geti ekki hætt við þetta blogg nema að setja inn smá myndband af myndinni líka.  Fengið frá youtube og er trailerinn af myndinni.

 

 


Hvað kom fyrir?

Ég bara veit það ekki, ég er ennþá alveg orðlaus.  Ég, Elín, fór í bíó, það í sjálfu sér er ekki frásögu færandi.  Það er frekar hvaða mynd ég fór að sjá sem er merkilegt nokk.  Ég skellti mér á Astrópíu og það sem er undarlegt við það er ekki að þetta er nörda-mynd dauðans, heldur af því að hún er íslensk.  Mér varð á að segja vinkonu minni frá því að ég væri að fara á myndina í bíó og hún bara hváði: 'hvað kæmi eiginlega til að ég færi á íslenska bíómynd'.  Því það verður bara að segjast að mér hefur fundist hingað til íslenskar bíómyndir ömurlega leiðinlegar og þær hafa farið algerlega ofan garð og neðan hjá mér, því það virðist liggur við vera að næstum hver einasta mynd sem er framleidd af Íslendingum að hún sé drepleiðinleg eða þá að það er verið að gera grín að og gríngera algjöra aumingja og vesælinga og það virðist eins og það sé eini þjóðflokkurinn á Íslandi í dag og að allt þrífist á volæði og veseni.  Það vantaði sko ekki alveg aumingjaskapinn í suma í Astrópíu en nörda-hlutinn hífði þó myndina upp á betra plan.  NÖRDAR ERU COOL.  Það verður bara að segjast og ég hló hátt og dátt á köflum og hafði alveg rosalega gaman af.  Myndin er bara virkilega skemmtileg en auðvitað hjálpar að kunna tungumálið.  Sem betur fer er frekar auðvelt að sjá í hvað er verið að sækja efnið, flest af því sem er notað er Íslensku bíó- og sjónvarpsáhugafólki vel kunnugt, en ég vil ekki kjafta frá þannig að fólk verður bara að fara og sjá sjálft.  En það liggur við að ég bíði í ofvæni eftir að myndin komi út á DVD og þá með enskum texta í það minnsta, því að mig langar svo að sýna hana erlendum vinum mínum.  Ég veit um nokkra sem hefðu gaman af því að sjá myndina.  Vona að fleiri myndir í þessum stíl verði gerðar og þá aðeins meira lagt upp í hljóð og tækni.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband