11.1.2010 | 09:57
Amma mín
Hefur þú einhvern tíman orðið fyrir því að amma þín hafi staðið í dyrunum á íbúð sinni skelfingu lostin og gráti nær yfir því að þú værir að fara frá henni og að um helgina yrði hún að sjá um sig alein og alls ekki fær um það.
Það eru yfir þrjú ár síðan að amma fór að tala um að eiga erfitt með að muna hluti og það eru yfir þrjú ár síðan að hún var greind með heilabilun sem er ekki ólík því hvernig Alsheimer virkar en á meðan hægt er að sporna við Alsheimer með alls kyns meðulum þá er ekkert hægt að gera fyrir ömmu. Amma býr í þjónustuíbúð, alla daga fór hún niður í matsal með matarmiða sem hún hafði með sér til að greiða fyrir matinn. Þegar hún fyrst byrjaði að vera veik var hún sífellt að tönglast á hvar matarmiðarnir væru og hvort hún ætti nóg af þeim og þar fram eftir götunni. Hún var sífellt að færa þetta á milli veskja og budda og kvartaði yfir að sjá þetta ekki þar sem sjónin væri farin að gefa sig líka. Svona gekk þetta í lengri tíma og varð alltaf verra og verra. Fyrir um tveim árum síðan var það orðið svo slæmt að í samráði við lækna ákváðum við að sækja um hjúkrunarrými fyrir ömmu þar sem hún var hætt að ráða við svo marga hluti og var svo óörugg með allt líka. Það þurfti að sitja yfir henni til að sjá til þess að hún borðaði og til þess að sjá til þess að hún tæki meðulin sín, því að annars gleymdi hún alveg að sjá um sig þannig. Vegna þess að hún býr í Þjónustuíbúð fær hún til sín fólk sem hjálpaði henni að taka meðulin og að borða kvöldmat. Fyrir hádegismat þurfti hún að sjá um sig sjálf og fara niður í matsal ein.
Við fyrstu hjúkrunarrýmis-umsókninni þá fengum við neitun, það átti að virkja betur félagsþjónustuna í Þjónustuíbúðinni hennar áður en nokkuð annað yrði gert fyrir hana.
Félagsþjónustan sem ömmu var boðið er sú að hún fékk að fara í dagvist á staðnum, fékk aðstoð við að baða sig og á kvöldin þegar hún kom heim kom einhver til hennar og sá til þess að hún borðaði og tæki meðulin sín. En um helgar var konan skilin eftir alein og þurfti enn að sjá um að hún færi með matarmiða með sér niður í matsal til að fá mat. Á þessum tíma þegar við komum til hennar voru samtöl okkar eins og biluð plata og við vorum endalaust að fara yfir sömu atriði með henni, hún mundi ekkert. Hún mundi ekki einu sinni hvað hálfs-árs gamalt langömmu barn sitt hét.
Það er fyrir um ári síðan að við fengum fyrst hvíldarinnlögn fyrir hana, og ekki síst fyrir móður mína sem þörf var á þessu. Amma var mjög sátt og vildi helst ekki fara heim þar sem hún væri ein og þyrfti enn að standa í því að framkvæma hluti sem hún var ófær um en enginn spurði hana hvort hún mögulega gæti það. Hún bara varð að standa sig.
Við pössuðum alltaf að hún ætti nóg að borða og drekka og komum reglulega til að smyrja fyrir hana brauðsneiðar sem voru tilbúnar fyrir kvöldmatinn. Fyrir helgarnar sáum við til þess að í litlu buddunni hennar væru matarmiðar og allt væri á sínum stað svo að hún þyrfti ekki að hafa áhyggjur af matarmálum, fötum eða neinu öðru. En þegar þú manst ekki mínútu aftur í tímann þá er erfitt að taka burtu áhyggjur af því sem þú þarft að muna og gera.
Við sóttum um dvalarrými fyrir hana og þá eftir nokkra mánuði fengum við jákvætt svar. Nema hversu jákvætt er það þegar verið er að fækka fjölbýlum og fjölga hjúkrunarrýmum en éta upp öll dvalarrými á meðan.
Við fengum hvíldarinnlögn fyrir hana aftur í haust og var það mömmu minni mikill léttir, þar sem hún er bæði að berjast við veikindi sín og pabbi var á sjúkrahúsi og búinn að vera þar meira og minna allt sumar. Á þessum tíma var aftur sótt um hjúkrunarrými en aftur fengum við neitun. Ástæðan er eiginlega einföld og allt of kaldhæðnisleg til að hægt sé að taka því með góðu. Hún fær ekki vistunarmat fyrir hjúkrunarrými af því að hún býr í Þjónustuíbúð!
Sama hversu slæm hún er þá fær hún ekki að komast í það öryggi sem fylgir að vera á dvalarstað. Hún getur ekki lengur klætt sig, hún er algerlega ófær um að komast í matinn um helgar, fær hann sendan til sín en af því að það er enginn hjá henni þá borðar hún hann ekki heldur setur hann pent inn í ísskáp og gleymir honum þar! Hún man varla nöfnin á barnabörnunum sínum eða nánustu aðstandendum. Hún man ekki hvort hún er búin að borða eða fá lyfin sín. Hún bankar upp á hjá nágrönnum sínum til að biðja þá um að sjá og finna hluti fyrir sig. Hún tætir fram buddur í tugavís og færir smápeninga á milli í gríð og erg án þess að vita hvers vegna.
Amma hefur alltaf verið pjattrófa og vís á klæðnað en núna sér hún ekkert og man ekkert hvar hún setti fötin, og þó að fötin séu tekin til fyrir hana þá er hún vís með að fara í allt annað og rugla öllu saman upp á nýtt. Hún vaknar á nóttunni og veit ekki hvað klukkan er og ráfar um í myrkri að finna út hvað tímanum líði. Hún fer niður í anddyri til næturvarðarins og þráast við því að hafa ekki fengið meðulin sín og þar fram eftir götunum. Er þetta öryggi og ummönnun sem við viljum að amma okkur búi við. Nei! En valdið er í höndum vistunarmatsnefndar og við því fáum við engu ráðið. Sama hvernig ástandið er hjá ömmu, fjölskyldu minni og gegn ráði lækna og annarra sem koma við í ummönnun ömmu þá er svarið alltaf nei! Af því að hún er í þjónustuíbúð! Eins og það sé lausnin, en í dag er það ekki lausnin sem amma biður um. Nei, hún vill frekar deyja heldur en að vera skilin eftir eins og hún er. Það er ekkert hræðilegra en að heyra í ömmu þinni þar sem hún situr á móti þér, algerlega umkomulaus, óskandi þess að Guð taki hana til sín fyrr en seinna þar sem henni finnst hún ekki ráða við lífið lengur og enginn vill hlusta á hana. Það að búa í þjónustuíbúð getur verið hreint helvíti á jörðu! Það er það fyrir ömmu mína.
Ps. Ef þið eruð að velta fyrir ykkur hvar við erum í öllu þessu þá gerum við það sem við getum. Móðir mín er ófær um margt í dag sökum ýmissa veikinda undanfarin ár sem hafa verið að ágerast, en hún lætur það ekki stöðva sig. Faðir minn er nýkominn inn á dvalarrými vegna þess að parkinssons veikin hans hefur ágerst herfilega síðan í sumar og hann er ófær um margt. Og ég er erlendis í námi að naga á mér handabökin af áhyggjum út af fjölskyldu minni.
Stjórnvöld kanna hvort vistunarmatið sé of strangt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Góður pistill og þarfur. Þessi vistunarmál eru nú komin í þann farveg að það væri átæða til að ræða þau með blikkílátum á Austurvelli. Reyndar er þetta ekki nýlunda en ekki er langt síðan við tókum heiminn með trompi. Við keyptum öll þau fyrirtæki erlendis sem föl voru og buðum svo í hin þar til við náðum þeim. Stjórnvöld kepptust við að leita uppi nýjar leiðir í diplómatíunni til að koma þar fyrir á kostnað ríkisins vinum sínum og gömlum frænkum.
Allt, Allt var gert nema aðeins það lítilræði sem máli skipti. Þau mál voru öll í nefndum og eru þar enn.
Nefndirnar vinna hinsvegar ekki næstum allar, hirða bara nefndarlaunin og þegar við þær er rætt á opnum fundum eru þær ekki mönnum sinnandi af áhyggjum vegna skjólstæðinga sinna.
Árni Gunnarsson, 14.1.2010 kl. 17:35
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.