Er að læra

Ég er búin að vera á landinu núna í átta daga og á viku eftir.  Kom heim í smá upplestrarfrí.  Ég fæ víst ekki að vera heima yfir páskana því að ég þarf að fara í próf strax 10.apríl.  Þetta verður strembin prófatörn hjá mér en þetta þýðir líka að ég verð komin heim fyrr en venjulega.  Síðasta og fjórða prófið mitt er 18.apríl. 

Það er alltaf gott að koma heim og fá að lúlla í sínu eigin rúmmi.  Það er líka bara gott að geta hitt og talað við annað fólk.  Er búin að nota tímann til að hitta vini mína, þá sem eru landinu, það er að segja.  Búin að skella mér í bíó á okurverði, verður að segjast en naut þess í botn ekki síður.  Búin að troða mig út af yndislegum íslenskum mat og góðgæti.  Næ víst ekki í neinar fermingarveislur, en það er allt í lagi, mér hefði víst ekki verið boðið í neinar heldur, þetta er allt frekar fjarskylt fólk sem rétt veit kannski að ég er til en ekki mikið meira.  En ég finn það að eftir því sem ég er lengur erlendis því meir langar mig að nýta öll þau tækifæri sem gefast að til að hitta vini og ættingja.

Eitt sem ég hef rekist á og vinkona mín, sem er erlendis líka, hefur rekist á þetta einnig er að við eigum báðar frekar erfitt með að halda hversdagslegar samræður við fólk sem við höfum ekki hitt lengi.  Við erum svo gegnsýrðar af námsefninu og hugur okkar svo upptekinn af því að þýða allt frá einu tungumáli yfir á annað að þegar við stöndum fyrir framan fólk sem við höfum annað hvort ekki séð áður eða í langan tíma þá eigum svo svolítið erfitt með að tala frambærilega.  Meira að segja móðir mín hefur tekið eftir því að stundum finnst henni eins og hún sé að tala við útlending þegar hún er að tala við mig.  Ég nefndi þetta við vini mína í gær og einnig það að ef þetta héldi áfram hjá mér á ég eftir að sækja um að fara á námskeið í íslensku fyrir útlendinga.  En þau sögðust hafa alla trú á mér þannig að ég verð bara að stóla á að vinir og ættingjar hjálpi mér í að aðlagast íslensku samfélagi aftur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband