Glasgow

Jæja, ég er komin til Glasgow aftur og núna klukkutíma á undan veröldinni heima.  Verð að segja það að þótt að ég hafi komið til Skotlands í gær, er ég ennþá á tímanum heima.  En þetta er að koma þótt að ég vakni á vitlausum timum, er svöng á vitlausum tíma, borða á vitlausum tíma og í alla staði 'out of sync' ef svo má að orði komast.  Hef þess vegna farið hægt í lærdóm í dag en er búin að skipuleggja mig út í ystu æsar og gaman byrjar fyrir alvöru á morgun.  Þegar ég var búin að setja þetta svona niður á blað, þá virðist þetta ekki vera neitt svo svakalegt það sem bíður mín, en ég á eflaust eftir að kvarta nóg þegar yfir er staðið.

Þarf svo að vakna eldsnemma á morgun til að vera klædd og komin á ról áður en það verður bankað upp á hjá mér með pakka til mín.  Ég á von á splunku nýjum ipod-spilara á morgun, sem ég var að kaupa mér.  Hlakka svo til, því að minn gamli dó fyrir tveim vikum síðan, eða nákvæmlega þegar ég kom heim.  Bróðir minn hirti þann gamla og ætlar að sjá hvort hann geti náð að skipta um harðadisk í honum, hann er svoddan snillingur og dundari.

Það er búið að vera steikjandi hiti hérna og sól og greinilegt að allir Glasgow-búar ætla að njóta þess í botn.  Fór röltandi niður á Byres Road í dag og labbaði í gegnum Botanic Gardens og það var bara ekki þverfótandi fyrir fólki að njóta veðurblíðunnar.  Það tók mig þó nokkurn tíma að átta mig á því að það var mánudagur í dag, enda ekki vön að sjá svona marga í garðinum á þessum tíma.

En núna þarf ég bara að fara flytja rassinn á mér yfir á eitthvað mýkra en þennan skrifborðsstól, er búin að sitja hérna allt of lengi og verð að skipta um útsýnisstað.  Ætla að fara að planta mér fyrir framan sjónvarpið það sem eftir er kvöldsins.

 Annars verð ég, áður en ég hætti, að koma fram alveg frábærum fréttum.  Ég sótti, fyrir um þremur vikum síðan, um að komsta í M.Litt í Scottish Medieval Studies á næsta ári og ég var að fá svar um það að þeir hafa samþykkt umsóknina mína!!!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband