4.6.2007 | 23:35
Ég er ekki svo dugleg
Ég sé það að ég er ekkert dugleg að blogga. Allavegana ekki undanfarið og þá sérstaklega ekki hérna. Á ennþá eftir að venjast því að vera að blogga svona fyrir alþjóð, hitt bloggið mitt er svo fínt, því þar eru bara vinir og vandamenn að böggast út í mann. Fólk sem þekkir mann inn og út, og jafnvel þeir láta mig að mestu vera í friði. Ég hef verið að skoða ýmislegt á mogga blogginu og verð að segja það að það eru margir hörundsárar sálir hérna tilbúnar til að misskilja, móðgast og atast út í athugasemdir og færslur hjá höfundum. Ég er svoddan aumingi að ég á erfitt með að taka gagnrýni. Það kemur eflaust eitthvað frá föðurfjölskyldunni minni, enda er hún stór furðuleg með meiru. Bara sem dæmi, um að lítast illa á gagnrýni, þá er ég núna að bíða í ofvæni eftir einkunum úr lokaprófunum mínum. Það veltur allt á þeim hvort ég útskrifist núna í lok júní eða ekki. Síðan 1. maí kom hef ég verið á netinu á hverjum einasta degi, meira að segja um helgar, að athuga hvort að einkunnirnar væru nú loksins komnar, en ekkert bólar á þeim ennþá. Og núna þegar júní er skollinn á og ég veit að það fer að styttast enn meira í að ég fái einkunnirnar blessuðu, þá er eiginlega sú tilfinning mest hjá mér að mig langar bara ekkert til að fá einkunnirnar. Þá veit ég hvað ég var að klúðra miklu og ef ég hef ekki staðið mig nógu vel þá tek ég þetta sem gagnrýni á mig, hversu arfa vitlaus og heimsk ég var að ráða ekki við prófið betur en þetta.
En mér finnst gaman að blogga, ekki það. Mér finnst líka gaman af athugasemdum, en ég er bara svo vön að vera að blogga bara um mig og hvað ég er að bralla að ég veit ekki hvernig ég á eftir að pluma mig með að tjá mig um málefni líðandi stundar. Svo er hryllilegt hvað mér finnst erfitt að blogga á íslensku. Ég reyni að vanda mig eftir bestu getu en enskan er eitthvað orðinn svo stór partur af mér að mér reynist þetta örðugt. Samt vil ég eftir megni tala og skrifa góða íslensku. ´
Þess vegna finnst mér leiðinlegt þegar ég er að skoða blogg hjá skemmtilegum bloggurum sem leggja sig í mun við að skrifa góða íslensku og fjalla um íslensk mál, hversu mikið þeir eru gagnrýndir fyrir það einmitt að vilja tala og skrifa fallega og góða íslensku. Það er eins og það sé í tísku að vera illa máli farinn og fyrir suma er það mikið mál, jafnvel jafnréttismál, að þræta fyrir það að það eigi ekkert að vera að gagnrýna aðra eða reyna að fá fólk almennt til að leiðrétta leiðinlegt mál. Það eru ófá tungumál sem ég hef lagt nám á í gegnum tíðina; íslenska, danska, enska, franska, þýska, gelíska (skosk nútímatunga), forn írska og forn welska. Ég hef einstaklega gaman af tungumálum og er sannfærð um að ef þú vilt geta tjáð þig sem best, hvort sem það er á þinni eigin tungu eða öðru framandi máli þá skiptir miklu máli að kunna að nota málið og nota það rétt. Það er ekkert rosalega fallegt eða skemmtilegt að heyra fólk illa talandi á sinni eigin tungu en finnast það bara allt í lagi af einhverjum óskiljanlegum ástæðum. Allavegana hef ég aldrei heyrt góða afsökun eða ástæðu frá þeim sem eru ósáttir við gagnrýni um málfar.
Jæja, ætli það sé ekki komið gott í bili. Ég er búin að rembast eins og rjúpan við staurinn að reyna að koma þessum pistli skilmerkilega til skila. Eflaust á hann eftir að koma illa við einhverja, enda hafa þeir aldri átt erfitt með að tjá sig, sá hópur blogg lesara. En ég er að gefast upp og ætla að fara að hvíla mig á íslenskunni augnablik. Veit að þegar mig er farið að langa að skrifa "kvíla mig" og "mig lángar" á blað þá ætti ég að fara að sofa.
Athugasemdir
heyr heyr, ég er rosalega stolt af Íslenskri tungu og fynst leiðinlegt hvað ég skrifa hana vitlaust og dett niður í vitlausa frasa... Um að gera að leiðrétta mig ef þú sérð eitthvað athugunarvert esssssskan.....
Bryndís Steinunn (IP-tala skráð) 5.6.2007 kl. 10:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.