Úrvinda af þreitu í Glasgow

Já, kellan er bara komin til Glasgow fimmta árið í röð.  Fæ ekki nóg af staðnum, það er alltaf svo svaka gaman hérna (nema þegar maður er svona aleinn).  Vá hvað ég er ekki hrifin af að vakna alltaf svona um fjögur á nóttu til þess að geta farið í skólann.  Reyndar þarf ég ekki að vakna á hverjum morgni klukkan fjögur en þessi flugtími er út í hött.  Mér er búið að líða frekar ömurlega í dag og allan gærdag eiginlega.  Flökurt og ómótt og allt á flegi ferð.  Ég er nefnilega vön að fá svona spennu einkenni fyrir flug en venjulega aldrei fyrr en morguninn sem ég á að fljúga en var svo óheppin að einkennin komu fram í gær líka.  Kom samt ekki í veg fyrir það að ég færi að sjá vinkonu mína dilla sér í magadanskeppni, sem var nú bara svei mér flott og hún stóð sig líka geðveikt vel.  Ég held að ástæðan fyrir því að spennan var svona ágeng á mig núna er sú að ég er búin að vera veik.  Var veik alla þar síðustu vikuna og var heima að megninu til að láta mér batna, en greinilega er ég ekki öll orðin góð ennþá.  Þannig að ég verð bara að fara vel með mig þangað til.

Flugið fór eitthvað örlítið seint af stað en vorum komin til Glasgow fljótlega upp úr níu.  Vá hvað það ringdi, það helli ringdi.  Þetta var geðveiki.  Það var svo fyndið að líta út um gluggann þar sem við biðum eftir að komast í stæði.  Úti fyrir sá ég hreyflana á flugvélinni ennþá á fullu og svo rigning alls staðar í kringum okkur og við þessar aðstæður mynduðust hver á fætur öðrum pinkulitlir hvirfilbylir og maður sá alveg skýstrókana standa af þessum litlu fyrirbærum.  Um leið og einn fauk í burtu kom annar í staðinn, rosalega sniðugt að sjá og sem betur fer voru þeir svona litlir.  En fyrir vikið og rigninguna fékk ég náttúrulega hundblautar töskur í hendurnar eftir að vera búin að bíða í meira en hálftíma eftir þeim.  Dreif mig út í bíl og heim.  Þegar ég kom þangað lá mér eitthvað svo á að koma mér og farteskinu inn um dyrnar að ég keyrði næstum um koll og lenti í fanginu á einum nemenda ásamt fjölskyldu hans.  Töskurnar fóru á flug og önnur þeirra skall í gólfið með þeim afleiðingum að hún fláði mig næstum lifandi, allavegana ca. 3 cm af skinni aftan af vinstri fætinum á mér fyrir ofan hæl.  Ég skarta núna fjórum plástrum þar, af því ég átti ekki almennilegar sáraumbúðir fyrir svona stóra rispu, djö"#$% hvað þetta var sárt.  Aumingja maðurinn sá svoleiðis aumur á mér að hann hjálpaði mér upp með farangurinn minn, ég var rosalega hrifin af því, ekki verra sko, þar sem ég var orðin særð ofan á það að vera svo þreytt að ég var að hníga niður.

Þegar ég kom inn í íbúðina tóku á móti mér tvær dömur, Sara (Skotland) og Nicole (Bandaríkin).  Ég henti töskunum inn í herbergi og fór fram að tala við þær.  Þá fékk ég þær æðislegu fréttir að FRAKKINN ER FLUTTUR ÚT.  Og þá meina ég maður af frönsku þjóðerni en ekki flík.  Og þá meina ég ekki með að ég sé einhver Frakka-hatari, heldur er ég þreytt á að umgangast (ef hægt er að kalla það það) mann í tvö ár sem segir ekki múkk við mann og dettur ekki einu sinni í hug að láta vita að hann ætlar að halda tuttugumanna partí í eldhúsinu sem við hin fjögur erum um og okkur er ekki boðið.  Takk fyrir heimsendingaþjónustu á mat, segi ég bara.  Þannig að ég er óskaplega fegin að þurfa kannski ekki að lifa á örbylgjumat bara af því að einhverjum finnst gaman að elda gourmet máltíð fyrir sig og bara sig þannig að það taki upp undir 2-4 klukkutíma og allar fjórar hellurnar og ef vel til tekst ofninn og örbylgjan líka!  Kannski loksins fæ ég að elda mínar ofureinföldu tuttugumínútu uppskriftir, sem tekur aldrei nema eina hellu / ca 45 mín í ofni og þá kannski líklega 15 mín í örbylgju. 

Skrapp svo í búðir, ekki bara af því að mér finnst það svona gaman heldur af því að það vantaði helling af dóti hérna.  Svo þurfti ég náttúrulega að fá mér að borða, fór í St. Enoch's centre og viti menn, það er bara búið að breyta öllu þarna, það er víst verið að fara út í einhverjar framkvæmdir og viti menn ég bara rataði ekki lengur liggur við.  Það sem getur breyst á bara tveim mánuðum.  Ég entist nú reyndar ekki lengi í verslanarápi því að fæturnir voru að fara að gefa sig og ég var næstum því sofnuð í lyftunni í Marks og Spencer, þannig að ég ákvað að drífa mig bara heim og redda fleiru á morgun.  Kínveskur í kvöld og bara afslöppun enda efa ég að ég vaki lengi frameftir. 

Fer á morgun að hitta Dr. Dauvit Broun um valið mitt fyrir þetta ár.  Jabb, ég veit ekkert hvað ég er að fara út í, veit ekkert hvað er í boði og það sem mig langar að taka veit ég ekki hvort er kennt.  Þannig að þetta verður spennandi.

Þetta lítur meira út eins og dagbókarfærsla en blogg en ég vildi allavegana láta vita af mér.  Ég hef það fínt, það er hlýtt og þurrt inni hjá mér og ég ætla bara að vera löt í kvöld.  Best að taka lífinu með ró.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband