5.10.2007 | 23:11
Fimm tímar á barnum
Það er greinilegt að maður er kominn til Glasgow þegar maður eyðir meiri tíma á barnum en yfir lærdómnum. Ég fór í dag að hitta vinkonu mína Claire sem var í bæjarferð frá Dumfries. Ég hitti hana um hádegi og við skelltum okkur á Tennents barinn á Byres Road og fengum okkur hádegismat og sátum þar að kjafta til um þrjúleytið, svo kom að því að við vildum fá eitthvað bitastæðara og skelltum okkur yfir götuna á Vodka Wodka barinn í Asthon Lane og fengum okkur vodka kokteila. En um fimmleytið bankaði raunveruleikinn upp á hjá okkur og hún þurfti að kveðja til að halda heim á leið. Hún Claire mín er algjör gullmoli og ég er svo heppin að eiga vinkonu frá Dumfries því hún gat allavegana sagt mér hvernig og hvenær ég kemst til Dumfries ef af því verður að ég fari að hitta kallinn. Sem fær mig til að muna eftir að segja frá því. Kennarinn í Dumfries er loksins búinn að hafa samband, þið getið ekki ímyndað ykkur hvað mér léttir við það. Hann ætlar að hafa frekara samband við mig á mánudaginn annað hvort um e-mail eða símann. Núna loksins finnst mér eins og skólinn sé að byrja hjá mér.
Er líka búin að vera rosalega dugleg ... fyrir utan daginn í dag. Eyddi öllum gærdeginum í Latínu, miðaldarlatínu og heiti kennslubókin því rosalega skemmtilega heiti A primer of Ecclesicastical Latin, sem þýðir það að í fyrstu þremur köflunum í bókinni er ég búin að læra yfir fjögur orð fyrir synd. Þannig að ef Latínan gengur ekki alveg upp hjá mér, veit ég allavegana hvernig ég get syndgað upp á fjóra máta á Latínu ;)
En af því að ég var svona dugleg í latínunni í gær þá hef ég helgina til að lesa næstu fimm bækur eða svo fyrir þriðjudaginn. Er núna að læra um Pjéttana (the Picts). Rosalega forvitnilegt. Það undarlega við Pjéttana er að það er ekkert rosalega margt vitað um þá. Það hafa samt verið kenndir heilu kúrsarnir um þá (ég hef því miður ekki verið í þeim) en Catriona fór í einn af þeim og hún sagði að það sem ég veit er ekkert mikið minna en það sem hún hefur verið að læra um þá. Ég er einmitt að lesa grein úr bók F.T. Wainwrigt (frá 1955 þannig að margt hefur breyst ... en samt ekki) og það er yndislegt að lesa hann. Hann byrjar venjulega á því að segja að við vitum ekkert sérlega mikið um pjéttana fyrir utan þetta... og hann telur það venjulega upp og rökræðir það af hverju við tengjum þetta við pjéttana frekar en aðra þjóðflokka og svo endar hann venjulega málsgreinina á því að véfengja samt allt sem hann hafði að segja um málið með því að segja að við vitum samt ekkert um þetta fyrir utan þessar nokkrar getgátur sem hann er búinn að leggja fram.
Þannig að þetta er eins og ég hef alltaf sagt, þessi kúrs er og verður eins og heimspeki-kúrs, þú ferð inn með einhverja vissu um að þú munir verða upplýstur um eitthvað en kemur út eins ef ekki meira ringlaður en þegar þú fórst inn. Þetta er það sem fræðin mín snýst um. Algjörar getgátur. En þetta er samt ótrúlega skemmtilegt. Hver veit nema ég eigi einhvern tíman eftir að ráða gátuna um péttneskar steinamyndir? ahahahah, líklegt. (Sorry, smá nörda brandari).
Jæja, ég ætla að fara leggjast í bólið, ætla að vakna einhvern tímann á morgun :) og læra og skella mér aðeins í bæinn líka. Maður verður víst að eiga smá líf innan um lærdóminn.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.