9.10.2007 | 20:57
Búin að vera að nördast í allan dag
Mætti tímanlega í skólann í dag og fékk mér að borða áður en ég fór í tímann. Í dag vorum við að ræða um Pjéttana og vandamál tengd þeim. Og þetta var bara ágætlega fínn tími, það var á tíma sem okkur stelpunum fannst eins og við værum boðflennur þegar prófessorarnir fóru að tala um eitthvað ákveðið sem við höfðum ekki ennþá lesið um eða fengið að vita af fyrir tíma. En það getur alltaf komið fyrir í þessari grein. Prófessorinn okkar í dag var maður sem er sérfræðingur í Pjéttneskum konungslistum og annað og vorum við á fullu að henda fram hugmyndum og ræða vandamálin sem séru að útskýra Pjéttana og hvernig þeir pössuðu inn í hugmyndir manna um þjóðfélag þeirra og af hverju það er svona lítið vitað um þá, þrátt fyrir að hafa verið "til" fram í tíma sagnfræðilegra heimilda. Einnig vorum við að velta því fyrir okkur hvernig Pjéttar hafa verið athugaðir út frá heimildum nágrannaríkjanna eins og Írlands og Wales og hvernig og hvort það sé minnst á þá í fleiri en einni tegund heimilda, þá sérstaklega sögur og þjóðtrú.
Eftir tímann skelltum við okkur á kaffibarinn í Queen Margaret Union, við vorum búnar að sættast á það að fara saman á fyrirlestur sem skoska sagnfræðideildin sá um, sá fyrsti í seríu af fyrirlestrum um skoska sagnfræði. Okkur fannst við knúnar til þess að mæta, sérstaklega af því að við erum bara þrjár og við erum komnar þetta langt í náminu að okkur fannst það fylgja að þurfa að þykjast vera fullorðnar. Þetta var reyndar mjög fínn fyrirlestur sem Matthew Strickland hélt um royal violence í sambandi við Edward I í Englandi í viðskiptum hans við Skota og þá sérstaklega Robert Bruce árið 1306. Og það var ekkert smá hvað hann gat verið nasty. Reyndar það skemmtilegasta við fyrirlestur var þegar hann var búinn, ekki það að hann var leiðinlegur heldur af því að þá byrjuðu gömlu krúttlegu gráhærðu sagnfræði áhuga mennirnir fóru að varpa fram tilgátum og öðrum rökum fyrir því sem fyrirlesarinn hélt fram. Mjög áhugavert og sem betur fer kom ekki til neinna átaka á milli þeirra.
Þannig að næstu þriðjudaga mun ég alltaf vera eitthvað frameftir í skólanum til að mæta á þessa fyrirlestra. Næst verður fjallað um Írsku og svo þar næst held ég eitthvað um áletranir í Northumbria, ef mig minnir rétt, en allavegana áhugavert. Svo er ég líka að mæta af annarri ástæðu en hún er sú að ég er að vona að ég eigi eftir að sjá afföll af fólki sem mætir á þessa fyrirlestra því að.... dadarada. Í maí næstkomandi mun ég, hehehe Elín, jamm, ég sjálf þurfa að halda fyrirlestur fyrir framan þetta fólk um eitthvað sem ég kem til með að velja mér að fjalla um. Sem betur fer þarf fyrirlesturinn ekki að vera heill klukkutími eins og hann var í dag af því að við verðum þrjár sem þurfum að flytja fyrirlesturinn þá en ó guð hvað mig kvíður fyrir. Ég fæ víst að æfa mig samt með öðrum fyrirlestri sem ég þarf að halda í janúar en hann er einungis fyrir kennarana innan deildarinnar og ekki fyrir annað áhugafólk en nógu taugatrekkjandi það maður.
Jæja, heilinn er farinn heim til sín að sofa þannig að ég ætla að fara að leika grænmeti fyrir framan sjónvarpið, segið svo að ég lifi ekki heilsusamlegu lífi!
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.