10.10.2007 | 22:18
Matardiskurinn minn! :(
Buhu, matardiskurinn minn hvarf. Hingað til hefur enginn séð hann og ég veit ekkert hvað hefur orðið af honum. Honum gæti hafa verið rænt en mér hefur ennþá ekki borist lausnarkrafa, þannig að ég er farin að halda að einhver hafi gengið í skrokk á honum og hann hafi lent í ruslinu. Mér þótti vænt um diskinn minn. Og af því að enginn hefur gefið sig fram og getað sagt mér hvað kom fyrir diskinn minn þá hef ég ekki getað haldið minningarathöfn um hann.
En hvað er þá hægt að gera í stöðunni, daginn sem hann hvarf þurfti ég að fá lánaðan annan disk og ég get svarið það að maturinn minn var ekki eins góður, ég var að borða með ókunnugum aðila. Ég veit að það er hroðalega fáránlegt að eiga bara einn disk, en það var bara alveg nóg fyrir mig, hann þjónaði mér vel og gerði það í fjögur ár. Þannig að ég sá mér ekkert annað fært en að fara út að versla nýjan disk. Byrjaði á Byres road til að finna einhvern disk svona til að bjarga mér en fann engann. Þannig að ég beið fram á daginn í dag og skellti mér í Buchanan Galleries og var svo heppin að finna fjölskyldu disksins míns, þannig að ég keytpi bróður hans og tvíbura líka. Ákvað að tefla ekki á tvær hættur og enda uppi diskalaus aftur þannig að nú sitja tveir fínir og sætir diskar í skápnum mínum. Vígði einn þeirra í kvöld og maturinn var ljúffengur.
Keypti mér líka nýjan lampa í dag. Enginn andi í honum þó, nema góður andi sem situr sem fastast og vill ekkert með mig hafa. Ég er rosalega hrifin af þessum. Fyrstu þrjú árin mín hérna var ég með borðlampa sem skaðbrenndi mig í hvert sinn sem ég kom nálægt honum, mér líkaði það ekki. Í fyrra keypti ég mér nýjan og ódýran lampa frá IKEA, sem greinilega var ekki allur þar sem hann var séður. Á um þeim sex mánuðum sem hann hefur verið í notkun hef ég þurft að kaupa fjórar ljósaperur, sem er alls ekki viðunandi. Þannig að ég fór á stúfana eftir nýjum lampa þegar síðasta peran fór. Og núna loksins get ég kveikt á perunni með þessum líka fína "Bankers" lampa sem ég fékk í John Lewis, og hann er meira að segja með spariperu!!!
Kom svo heim og demdi mér beint í lærdóminn sem ég reyndar náði að klára rétt eftir mat. En það þýðir reyndar bara það að ég þarf að fara á bókasafnið og ná í meira efni um það sem ég er að lesa mér til um. Sem sagt; uppruni og saga handrita og hvað við þurfum að hafa í huga þegar við erum að skoða skrift, letur, list og fleira sem kemur handritum við og hvað staðsetning þeirra getur sagt okkur um þjóðfélagið, klaustrin og samfélagið þar sem þau voru rituð og fleira.
Svo fór náttúrulega brunabjallan í gang í nærliggjandi húsi. Ég er orðin svo vön að heyra í þeim klingja allt í kringum mig að ég var ekkert að kippa mér upp við það af því að þetta var ekki hjá mér. Ég bý nefnilega í blokk 6 og ég heyri ef brunabjallan fer af stað í blokk, 4, 5, 7, 8, 9 og 12 og þeim sem eru í Winton Drive rétt fyrir ofan blokk 12. Svo varð forvitnin leitinni yfirsterkari og ég leit út um gluggann, hélt fyrst að þetta væri í blokk 7 eða 8 en það reyndist ekki vera og ekki í blokk 5 né 9. Þá lít ég beint yfir í blokk 12 og sé þar inn um eldhúsgluggann á fyrstu hæð og augun ætluðu út úr hausnum á mér. Þá stóð þar gaur með pönnu á lofti sem var alelda. Jamm, logarnir stóðu þó nokkuð hátt upp frá pönnunni, svo mikið að mér var hætt að lítast á blikuna. En einhvern veginn tókst honum að slökkva í eldinum, sá ekki nógu vel inn til að sjá hvernig en hann dreif sig svo út. Eldhúsið var náttúrulega fullt af reyk og svo var einhver gaurinn svo mikill auli að hann kom inn aftur til að opna gluggana í staðinn fyrir að láta slökkviliðið sem var á leiðinni sjá um það, því hvað veit hann hvað bíður hans þótt að það hafi verið slökkt í. Það getur alltaf gosið upp aftur, en allavegana sem betur fer gerðist það ekki og svo komu slökkvuliðsmennirnir og opnuðu gluggana betur og fóru yfir allt áður en þeir yfirgáfu svæðið. Þannig að það er alltaf fjör hérna og sem betur fer varð ekkert slys eða tjón út af þessu.
Ha! Svo fékk ég fréttir frá ensku deildinni. Þá hafði ég fengið vitlausar upplýsingar um Old English kúrsinn. Hann er ekki byrjaður, þannig að ég þarf að taka ákvörðun, sem ég held að ég sé búin að gera. Þótt það þýði eflaust meiri vinnu fyrir mig á næstu önn, þá er þetta samt eitthvað sem ég er meira tilbúin fyrir. Sem sagt, þau voru loksins að svara mér með fyrirspurninni um Old English og þá kemur í ljós að kúrsinn er ekki byrjaður en mun byrja 15. nóvember og ná fram á næstu önn. Það er einn tími áætlaður í hverri viku á fimmtudögum klukkan tíu og það mun gera mér kleift að bæta mánudegi við þá daga sem ég get ferðast til Dumfries fyrir. Ég er líka tilbúin til að auka álagið á mér á næstu önn til þess að geta sinnt þessu sérfagi nógu vel fyrst ég er að leggja það á mig að ferðast til að læra þetta. Ég sé líka að ég mun hafa miklu meira með Old English að gera heldur en Miðaldar Latínu. Það mesta sem ég gæti komið til með að nota latínuna er fyrir eitt og eitt orð og núna fyrst að ég er komin með þessa fínu bók í latínu þá ætti hún að getað gagnast mér ágætlega fyrir það. Old English er hins vegar eitthvað sem hefur meira við mitt nám að gera og skemmtileg viðbót við Old Irish og Middle Welsh og er líka nógu nördalegt fyrir mig til að fíla í botn.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.