12.12.2007 | 23:34
Sögu vildi ég segja stutta ... en hún verður löng
Mér fannst bara svo passlegt að uppfæra bloggið með smá fréttum um ykkar einlægu þar sem önnin er að verða búin. Réttara sagt líkur henni hjá mér á morgun, þá fer ég í próf í miðaldar latínu. Hlakka ofboðslega til auðvitað, eða þannig. Catriona og ég verðum alla vegana himinglaðar stúlkur klukkan eitt á morgun. Þá eigum við eflaust eftir að enda í Post-Grad klúbbnum sem er núna orðinn 'officialt' klúbburinn okkar, þar sem bæði Catriona og Sandra eru orðnir meðlimir. En þar eigum við eflaust eftir að gæða okkur á góðum mat á hagstæðu verði fyrir nemendur með lítið milli handanna. Svo að miðað við prófið á morgun, þá hefði ég náttúruleg átt að vera að læra í dag en hey, þið þekkið mig, 'I just wing it'. Við fáum að fara með bókina með inn og það er ekki eins og ég viti þetta ekki allt (eða svona næstum því), þannig að ég er bara að 'chilla' fyrir framan sjónvarpið eins og mér er von og vísa.
Í gær var eflaust æðislegasti dagur sem ég lengi átt. Fór snemma af stað í gær og skilaði inn síðasta latínuverkefninu mínu, skilaði bókum á bókasafnið og fór í átt að post-grad klúbbnumm. Claire (mín kæra vinkona frá Dumfries) var að koma til Glasgow til að eiga með okkur góðan dag áður en við færum allar í sitt hvora áttina yfir jólin og ég ætlaði að hitta hana fyrir utan klúbbinn. Þegar ég kom þangað var hún þegar komin og ég settist hjá henni í góðviðrinu og við fórum að spjalla um heima og geyma. Ég óskaði henni til hamingju með daginn um daginn og fékk henni afmælisgjöfina hennar. Hún sprakk úr hlátri og ég held að ég hafi aldrei séð hana hlæja samfleytt svona lengi en það þýddi bara að ég hafði hitt naglann á höfuðið með gjöfinni. Sko, fyrir nokkrum vikum þegar Catriona, Anne og ég vorum á ferðalaginu frá Edinborg datt okkur svolítið fyndið í hug og Anne 'dared me to do it', og auðvitað var það of fyndið til að ég gæti látið þetta bara liggja dautt. Þannig að ég fór út í bókabúð og keypti ákveðna barnabók, ljósmyndapappír, lím og bókaplast, fór svo heim að föndra. Þegar ég næst hitti Anne gaf ég henni bókina og henni fannst þetta það allra besta sem hún hafði nokkru sinni séð og sagði að ég nauðsynlega þyrfti að búa til svona bók handa Claire. Þannig að ég fór út í 'mass-production' á þessari tilteknu bók. Þannig að ég gaf Clarie eitt eintak og hún algjörlega dýrkaði það og fannst það svo fyndið. (Ég get lítið sagt um þessa bók á netinu, verð að sýna hana, ég á sjálf eintak, ég bara vil helst ekki að ákveðnir einstaklingar viti af tilvist þessarar bókar).
En alla vegana við á endanum komumst inn í klúbbinn og fengum okkur sæti og pöntuðum svo hádegismat og biðum eftir Catrionu. Svo kom hún og þegar við vorum búnar að borða þá fórum við í tímann okkar og hittum Anne þar fyrir utan og smygluðum tveim auka nemendum inn í tímann. Frekar erfitt þar sem við erum bara þrjár í tímanum en bara gaman. Við vorum að tala um Y Gododdin og hvernig ýmsir fræðimenn í gegnum tíðina hafa verið að fitla með textana. Alltaf skrautlegar umræður þegar Kenneth Jackson ber á gaumana, en það er bara gaman. Jæja, eftir tímann sem var verulega stuttur, eflaust af því að þetta var síðasti tíminn fyrir jól og Dauvit Broun er ekki sérfræðingur í Y Gododdin (Thomas Clancy sér venjulega um þetta efni en hann er í rannsóknarleyfi). En semsagt okkur var hleyt út snemma og við fórum yfir í QM til að fá okkur kaffi og kók fyrir fyrirlesturinn í Scottish History Department. Sharon bættist í hópinn en gat ekki verið lengi því að hún var á leiðinni í tíma en það var æðislegt að sjá hana aftur. Fórum svo á fyrirlesturinn en hann var ekkert sérlega góður, gátum fundið ýmislegt að honum eða réttara sagt rannsóknunum á bak við fyrirlesturinn þannig að við vorum ekkert sérlega hrifnar. En eftir þetta vorum við orðnar frekar svangar og enduðum inn á Ashöka á Ashton Lane. Pöntuðum okkur æðislegan mat og frábært Shiraz og sátum endalaust þarna að kjafta og borða. En það var líka rosalega heitt inni á staðnum svo á endanum var þörfin fyrir lofti meiri en góðu víni og röltum við út. Klukkan var þá að verða níu og Anne þurfti að yfirgefa okkur. Ég fór þá með Claire og Catrionu, heim til Catrionu af því að við vildum bara alls ekki slútta kvöldinu of snemma. Catriona býr í þessari líka æðislegu íbúð með vinkonu sinni, rosalega fín íbúð. Claire fékk að gista hjá Catrionu og ég fór heim um ellefu. Enda þurfti ég að fara heim að sofa, því að ég átti að hitta kennarann minn daginn eftir og betra að gera það ekki of þunn!!!
Jæja, ég verð víst að slútta þessu núna, þarf að fara að sofa til að vera vel úthvíld í prófinu. Það eiga eftir að heyra fagnaðaróp klukkan eitt hérna í Glasgow svo ef þið eruð í nágreninu ekki láta ykkur bregða.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.