Bliadhna mhath úr

Hversu seint er eiginlega of seint til að óska fólki Gleðilegs nýrs árs?  Það er allavegana ekki kominn febrúar þannig að ég ákvað bara að drífa í þessu.  Gleðilegt Nýtt ár öll sömul og takk fyrir gömlu árin. 

Ég er algjörlega búin að hundsa þessa síðu síðan vel fyrir jól og ekkert nent að hafa fyrir því að láta vita af mér hér.  Nú er svo komið að ég er komin aftur til Glasgow og á náttúrulega að vera á kafi í að vinna í fyrirlestrunum sem ég á að halda á næstu dögum, svo ekki sé minnst á prófið í Old English, en einhvern veginn er ég bara að hanga hérna í mestu makindum að ná mér eftir jólatörnina. 

Ég mætli mér mót við stelpurnar uppi í skóla í gær og var þar svo sannarlega fagnaðarfundir með okkur.  Við vorum allar komnar með svakaleg fráhvarfseinkenni yfir að hittast ekki og fá okkar kaffi og köku stund.  Næstu fjóru klukkutímarnir fóru í það að kjafta um hvað hefði drifið á dag okkar heima og um jólin, svo var líka farið í að reyna að starta lærdómsheilanum, því að hann er búinn að vera í fríi í nokkrar vikur.  Vorum mikið að velt því fyrir okkur hvort og hvenær og hvar tímarnir okkar byrjuðu og annað í þeim dúr, og enduðum á að taka ákvarðanir algjörlega út í bláinn, létum þar við sitja og héldum áfram að tala um hvað á daga okkur hefði drifið.

Stóri fyrirlestrar dagurinn er 18. janúar og erum við búnar að panta áfallahjálp og mat hjá Anne um kvöldið.  Ég ætla að taka með mér spil sem ég fékk í jólagjöf og heitir Scottish Quest, veit að þetta er eitthvað sem við getum tekið skemmtilega á, spurningar um allt milli himins og jarðar um Skotland, bæði landafræði sem ég er ömurleg í, sagnfræði sem ég er eitthvað skárri í, nútíðar dæmi sem ég get kannski eitthvað í og svoleiðis fram eftir götunum.  Allavegana voru stelpurnar spenntar fyrir þessu.  Þetta verður bara rosalega gaman.

Ég vona að ég eigi eftir að henda inn einhverjum skemmtilegum, gagnlegum og kannski jafnvel bara fræðandi bloggum hingað inn á árinu sem er að byrja.  Veit ekki hvað ég verð dugleg við það núna á næstunni, en það er aldrei að vita nema ég þurfi að finna ástæðu til að vera ekki að læra.  Þá er nefnilega mjög líklegt að ég kíki inn hérna eða á ensku síðuna mína.

Nýárskveðja

Lafðin

 ps. ég er ekkert að setja saman útekt á árinu 2007, minnið er svo lélegt að ekkert myndi standast á í tímaröð og ég stiklaði svo sem á því stærsta á bloggunum mínum!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband