11.6.2008 | 20:03
Fyrirlesturinn mikli, flutningar og Orkney
Jæja, komin tími á smá uppfærslu. Það er nefnilega alveg ástæða fyrir því að ég hef ekki litið hérna inn í há herrans tíð. Það er vegna þess að ég er búin að standa á haus. Síðast þegar ég lét heyra í mér voru tvö tölvuvesen búin að poppa upp hjá mér. Liggur við að deginum eftir dundi á þriðja áfallið í sambandi við tölvuna og verður að segjast að það er of grátlegt að fara í það hér. Ég get þó sagt að það reddaðist á endanum og ég tapaði ekki ritgerðinni minni. Bara til að koma í veg fyrir misskilning, þá var ég búin að gera backup af ritgerðinni, en þar sem ég var að vinna í henni þegar ósköpin dundu yfir og var þá ekki búin að backup nýjasta fælinn þá var mér ekki skemmt. Eigum við ekki bara að segja það að ég er alveg óskaplega heppin þegar kemur að fjölskyldu og bróðir minn er hinn mesti kraftaverkasmiður sem ég veit. Þannig að þetta blessaðist á endanum og ég gat skilað ritgerðinni, fjórum dögum eftir upprunalegan skilafrest en kennarinn sklildi vel vandann sem ég hafði lent í og ofan á að standa í öllu þessu tölvuveseni þá var ég orðin veik í þokkabót. Hvað meira gat farið úrskeðis.
Þegar ég var búin að skila ritgerðinni tók fyrirlesturinn mikli við og þeytti ég fram úr erminni 20 mínútna fyrirlestri á fjórum dögum og næstu þrír dagarnir fóru í að æfa og æfa og æfa. Við vorum að æfa fyrirlesturinn, æfa power-point sýninguna, æfa tímann og að snurfsa og fixa textann þar sem við átti og mátti. Svo rann dagurinn sjálfur upp í gær. Við stelpurnar hittumst uppi í skóla klukkan tólf og fórum einn gang í æfingu og fórum svo og fengum okkur að borða, komum svo aftur og fórum í gegnum allt aftur. Klukkan þrjú fórum við og hittum Anne til að róa okkur niður og það var æðislegt að hitta hana aftur og við höfðum það rosalega fínt á meðan við biðum eftir að stundin rynni upp. Þegar klukkan var að ganga fimm hröðuðum við okkur yfir í 9 University Gardens til að koma okkur fyrir og ganga frá handouts fyrir fólkið. Þá dundu ósköpin yfir og aumingja Anne var send á harðaspani upp í bókasafn að ljósrita þar sem ljósritunarvélin hjá þeim bilaði náttúrulega á besta tíma. Þangað til korter yfir fimm voru fáir mættir og ég var bara orðin vongóð að enginn myndi mæta. En nei nei, það var sko ekki. Sextán mínútum yfir fimm þá kom bara öll hersingin eins og hún lagði sig liggur við. Reyndar vorum við svo heppnar að nokkrir sáu sér ekki fært að koma en þeir voru líka svo elskulegir að láta okkur vita. En okkur leið samt eins og verið væri að færa okkur í gapastokkinn og þaðan yfir að gálganum, en við því var ekkert að gera. Við fengum okkur sæti í þeirri röð sem við mundum flytja fyrirlestrana. Catriona fyrst, næst ég og svo Sandra síðust. Það mættu um tuttugu manns, þar af tveir kennara sem voru að meta okkur. Flestir sem mættu voru sérfræðingar á einhverju af því sviði sem við vorum að fjalla um, nema reyndar var Sandra heppnust því að hvorki Steven Driscoll eða Kathryn Forsyth mættu og eru þau sem vita mest á hennar sviði í sambandi við rúnalestur (bæði ogham (írsk) og futþark (norsk)). Catriona var að fjalla um St. Serf og kirkju sambönd (bæði í sambandi við kraftaverkasögur og staðarnöfn) og hafði mestar áhyggjur af hvers konar spurningar hún fengi, sérstaklega þar sem Dauvit Broun er sérfræðingur í charters og svo er kirkju sambönd og staðarnöfn áhugamál hjá Thomas Clancy. Svo var það ég, ég var að bera saman Írsk og Íslensk miðaldarlög og þar þurfti ég að passa mig á Bronagh Ní Chonaill og Thomas Clancy og fleirum sem hafa lagt stund á írsk miðaldarfræði. En þetta gekk sem betur fer allt saman vel og við lifðum þetta af. Flestir voru með mjög svo þægilegar spurningar og alls ekki nasty, sem við höfðum verið hvað mest hræddar um.
Við þurftum svo að blanda geði við fólk eftir allt saman og fórum yfir í post-grad klúbbinn og komum okkur fyrir á einu borðinu þar og settumst niður. Okkur var boðið drykkur og annað og fengum við okkur ýmsit te eða vín eða hvað annað sem okkur langaði í. Svo fengum við okkur líka að borða sem er allt af mjög gott þegar maður er búinn að leggja hart að sér. Nokkrir af kennurunum okkar og aðrir sem höfðu komið á fyrirlesturinn komu með okkur yfir og fengu sér snarl með okkur á meðan við kjöftuðum saman um dagin og veginn og það sem fram kom í fyrirlestrunum okkar. Ég kom ekki heim fyrr en um tíu um kvöldið og ég get alveg sagt það að ég átti í mestu vandræðum meira að segja að tjá mig á íslensku. Þannig að ég var fegin þegar ég loksins sofnaði.
Jamm, en sagan er ekki búin ennþá. Í dag var svo flutningurinn mikli. Það er verið að flytja mig um íbúð í sumar af því að þeir eru að fara að gera þessa blokk upp, reyndar er ég viss um það að það verður lítið gert, því að þótt að Bretar segi að þeir ætli að gera eitthvað á tilteknum tíma, gengur það venjulega ekki upp. En þar sem ég er að fara til Orkneyja á morgun þá varð ég bókstaflega að flytja í dag. Fyrst í morgun þurfti ég nú reyndar að kvarta við húsnæðisskrifstofuna þar sem að baðgólfið var allt svart í myglu og sturtuhengið er viðjóður. Þannig að það fyrsta sem ég þarf að gera þegar ég kem heim frá Orkney er að þrífa! Viðbjóður. Talaði við þau og þau sendu fólk til að þrífa betur og það er aðeins skárra en samt ekki og ég mun þurfa að þrífa. Samt hálf ömurlegt að þetta sé ekki gert betur og að halda að fólk láti bjóða sér svona.f
Ég þurfti reyndar líka að mæta í tíma í dag og þegar við vorum búin þar þá fórum við Catriona heim til mín til að pakka og færa hlutina yfir í nýja herbergið. Stuttu seinna kom Sandra svo og við héldum áfram, vorum beinlínis þrjár að pakka og færa hlutina yfir í herbergið mitt í fimm tíma. Við pöntuðum svo indverskan mat og eftir það fóru þær frá mér dauð uppgefnar og eiga sjálfar enn eftir að pakka fyrir Orkney.
En já góðu fréttirnar eru að við erum á leiðinni til Orkney í fyrramálið. Slæmu fréttirnar eru að við erum að leggja af stað klukkan hálf átta frá mér, sem þýðir að ég þarf að vakna fyrir klukkan sjö til að ganga frá síðusta dótinu mínu hérna. En okkur hlakkar rosalega til ferðarinnar og eigum eftir að eiga æðislega skemmtilegar stundir framundar. Þannig að ekki búast endilega við neinum færslum næstu tíu dagana, ef ég get mun ég reyna að henda inn einhverju áhugaverðu. Þetta verður nefnilega nördarferð dauðans, þar sem við ætlum bókstaflega að stoppa og skoða næstum hvaða rústir sem eru og verða á vegi okkar. So fun. En ég ætla að fara að klára að gera mig tilbúna fyrir ferðina á morgun og ganga frá herberginu. Langar svo virkilega ekki að fara úr mínu fína og fallega herbergi yfir í þetta ljóta dót þarna hinu megin, langar helst að gráta bara. Herbergið mitt er nefnilega hreint!!!!! Og ég er búin að vera hérna í fimm ár og búin að eiga heima hérna líka. Þannig að ég er bara ekki sátt. En er hætt að hugsa um það í bili vð sjáum hvernig gengur.
Athugasemdir
Það hefur aldeilis gengið á hjá þér undanfarið. Fall er fararheill er sagt, svo þú hlýtur að fá góða einkunn fyrir ritgerðina/fyrirlesturinn. Skemmtu þér rosalega vel í ferðinni og okkur hérna heima hlakkar til að sjá myndir af óðalsetrinu
Hrabban (IP-tala skráð) 15.6.2008 kl. 23:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.