29.1.2009 | 15:59
Síðasta úrræði fyrir suma
Þeir bara gleyma því að þetta er oft síðasta úrræði sem fólk hefur þegar það getur hreinlega ekki verið heima lengur en kemst ekki að inni á hjúkrunar og elliheimilum. Það er alls ekki auðvelt að fá vistunarmat fyrir fólk í dag, alveg saman hvað amar að þeim eða aðstandendum þeirra. Það á alltaf að reyna á allt fyrst og sama hverju er lofað þá er aldrei staðið við það fullkomlega. Amma er með heilabilun sem gerir það að verkum að minnið er orðið hroðalega gloppótt, hún sér orðið illa og hefur litla tilfinningu í fingrum þannig að taka meðul, sem oft eru voða litlar pillur getur verið erfitt. Þó hún fái reglulegt innlit til sín vegna meðalatöku og annars þá kemur það ansi oft fyrir að við finnum pillurnar hennar á gólfinu, þannig að ekki er þessi hjálpa alltaf að skila sér. Þrekið er farið og jafnvel þó að við hringjum í hana og minnum hana á að fá sér kvöldmat, þá er voðalega oft að hún gleymi því, því minnið gefur sig um leið og eitthvað er sagt við hana.
Á meðan það eru ekki til nægileg rými á elli-og hjúkrunarheimilum til að taka við þeim sem ekki geta lengur verið einir heima hjá sér, þá er ekki sniðugt að loka þeim deildum sem mjög margar fjölskyldur reiða sig á að geta leitað til með ættingja sem þarfnast meiri ummönnunar en þeir geta veitt. Sérstaklega þar sem af eigin reynslu þá veit ég að þessi heimahjúkrun og hjálp er ekki nóg, því þarfir fólks eru oft mismiklar og mismunandi og það mun aldrei vera hægt að koma til móts við þær allar, mannlega væri ekki hægt að ætlast til þess með þeim stuttu innlitum sem eru í gangi.
Einnig í sambandi við ömmu mína þá sérlega, þar sem hún býr ein, þá er hún farin að finna mikið fyrir óöryggi í sambandi við það að vera svona ein og þá sérlega á nóttunni. Er bara allt í lagi að leyfa fólki að húka heima hjá sér skíthrætt við að vera eitt og geta varla sofið, ruglast á meðulum og hvort einhver hefur komið að sinna því eða ekki, eða að vera á stað þar sem fjölskyldumeðlimir ekki síst vita að hún er í öruggu umhverfi þar sem einhver er alltaf á vakt ef eitthvað kemur upp á.
Ég er alveg fylgjandi því að leyfa fólki að vera heima hjá sér eins lengi og það getur, en þegar sá tími kemur að það er ekki lengur hægt, þá verður að vera eitthvað sem tekur við þeim vanda. Ég veit að ef móðir mín væri líkamlega fær um að hugsa um ömmu mína þá væri þetta ekki eins mikið vandamál og hún væri jafnvel búin að færa ömmu heim til okkar, en það er bara ekki möguleiki í stöðunni. (Og áður en ég fæ einhverjar ábendingar af hverju ég geri ekki neitt, þá bendi ég á að ég er stödd í Glasgow og get lítið annað en fylgst með úr fjarlægð og þeim skiptum sem ég er stödd á landinu yfir hátíðir).
Deildum lokað á Landakoti | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.