23.2.2009 | 00:52
Ráðstefna í St. Andrews
Ég skellti mér á ráðstefnu um helgina, umfjöllunin var ,Anglo-Saxon Scotland'. Hugsanlega hefði ég ekki farið nema fyrir tilstillan þess að Háskólinn minn í Glasgow ákvað að borga fyrir okkur brúsann af að fara. Þannig að ég og Catriona ákváðum að skella okkur til St. Andrews og sáum sko ekki eftir því, þrátt fyrir að vera dauðuppgefnar þegar við komum loksins til Glasgow í gærkvöldi. Sjálf ráðstefnan var á laugardaginn en kvöldið áður var haldinn hálfgerður opnunar fyrirlestur fyrir sjálfa ráðstefnuna. Svo að við lögðum af stað snemma á föstudag, til að eiga smá stund til að skoða okkur um í St. Andrews áður en við helguðum okkur ráðstefnunni.
Notuðum tækifærið þegar við komum til St. Andrews í að leika túrista og eftir að hafa fengið okkur að borða héldum við í átt að St. Andrews Cathedral, sem er ein af mínum uppáhalds rústum.
Þar sáum við einnig St. Andrews sarcophagus og St. Rules (Regulus) tower (c. 11. - 12. öld), sem er einna elsti ferkanntaði klaustur turn í Skotlandi og mjög merkilegur fyrir vikið. Við klifruðum meira að segja alla leið upp turninn og útsýnið var vægast sagt frábært.
Fyrsti fyrirlesturinn, The Anderson Memorial Lecture, var haldinn Föstudagskvöldið 20. febrúar, til heiðurs Marjorie Anderson. Fyrirlesarinn var Professor Nick Higham og var frekar undeildur í umræðu efni sínu. Ég hafði fengið þær slúðurfréttir fyrir ráðstefnuna að ekki voru allir sem stóðu að sjálfri ráðstefnunni ánægðir með að hann yrði fyrir valinu sem opnunar ræðuhaldari, en eftir á að hyggja tel ég að það hafi verið frekar viturlegt. Því miður var umræðuefni fyrirlesturs hans frekar úrelt og má með sanni segja að flestir hafi orðið undrandi á því hversu aftarlega á merinni hann var með margt sem fram kom. Catriona og Dauvit Broun minntust á það seinna að þetta hefði verið eins og að detta þrjátíu ár aftur í tímann og að enginn heilvita maður héldi lengur það sem hann hélt fram í fyrirlestrinum. Ekki furða að Alex Wolf væri mótfallinn því að fá hann sem fyrirlesara. Eftir fyrirlesturinn var okkur boðið til smá samsætis. Boðið var upp á rauðvín, hvítvín og gos, og ekki nóg með það, þá var líka boðið upp á whiskey, þar sem ráðstefnan var í boði Glenmorangie whiskey-framleiðanda. Þeir voru sko ekki nánasarlegir við skenkingu drykkja þarna og flæddi vínið um glösin, og ekki var það síðra þegar kom að whiskeyinu.
Daginn eftir byrjaði ráðstefnan stundvíslega klukkan tíu. Þá var mæting og skráning og einnig gafst kostur á að sjá, skoða og kaupa bækur og rit sem tengdust efni ráðstefnunnar og höfðuðu til okkar. Þar á meðal komst ég yfir fágætt eintak af ECMS (Early Christian Monuments of Scotland) eftir J. Romilly Allen og Joseph Anderson, og það fyrir fyrirtaks verð. Hálftíma síðar var okkur smalað inn í fyrirlestrarsalinn og fjörið hófst. Fyrsti fyrirlesari var Professor Barbara Yorke frá Háskólanum í Winchester og fjallaði hún um 'Scottish Northumbria' as an Anglo-Saxon Province', þar á eftir hélt Dr. David N. Parsons frá Háskólanum í Wales fyrirlestur um 'Place-names of the Southwest revisited' sem var mjög svo áhugavert. Þetta voru tveir 50 mín langir fyrirlestar og að þeim loknum var komið að hádegisverði.
Þeir buðu upp á mjög veglegan hádegisverð, samlokur, kjúklingaspjót, kökur og ávaxtaskálar ásamt rauðvíni eða hvítvíni. Svo var komið að næsta skammti af fyrirlestrum, þar var komin Alice Blackwell frá Museum of Scotland, fyrirlesturinn hennar var 'Reassessing the Anglo-Saxon material culture from Scotland', þetta er í annað sinn sem ég heyri svipaðan fyrirlestur frá henni og ég er alltaf jafn hrifin. Hún fjallaði um fund á glerperlum, nælum og pinnum og hvert notagildi og menningarlegt gildi þessir fundir hafa. Virkilega áhugavert. Á eftir henni kom svo Dr. Nicky Toop, Field Archaeology Specialist frá York, og verð ég að viðurkenna að ég var ekki hrifin af fyrirlestri hennar um 'Northumbrian Monuments in Southern Scotland: carving a Christian territory', fannst hún stóla um of á verk annarra án þess að virðast hafa mikið vit á því sem hún fjallaði um sérlega sjálf. Fyrir vikið virkaði þessi fyrirlestur eins og hálf illa klárað verk. En nú var komið að kaffihléi.
Það var heldur ekki hægt að setja neitt út á vel útbúið kaffihlaðborðið sem þeir buðu okkur uppá. Te og kaffi var á boðstólnum en fyrir aðra var einnig aðgengi að sjálfsölum sem buðu upp á gos og safa. Þarna var hægt að fá alls kyns kökur, rískökur, svampkökur, og fleira og ekki nóg með það, það var líka boðið upp á skonsur með rjóma og sultu! En núna var farið að líða á ráðstefnuna og næstu fyrirlesarar voru ekki af síðri endanum. Fyrstur var sjálfu Alex Wolf frá Univeristy of St. Andrews og hélt hann stuttan fyrirlestur um 'The Saints of Anglo-Saxon Scotland', ég er alltaf til í að hlust á fyrirlestra um dýrlinga og það var hrein unun að heyra hann fara með línur úr Anglo-Saxon ljóðinu 'Sæfarinn'.
Hwilum ylfete song
dyde ic me to gomene, ganetes hleoþor
ond huilpan sweg fore hleahtor wera,
mæw singende fore medodrince.
Stormas þær stanclifu beotan, þær him stearn oncwæð
isigfeþera; ful oft þæt earn bigeal,
urigfeþra; ne ænig hleomæga
feasceaftig ferð frefran meahte.
Forþon him gelyfeð lyt, se þe ah lifes wyn
gebiden in burgum, bealosiþa hwon,
wlonc ond wingal, hu ic werig oft
in brimlade bidan sceolde.
Þar á eftir kom Erlend Hindmarch fornleifafræðingur frá AOC og fjallaði um 'New Discoveries from Auldhame' þar sem þeir höfðu unnið við fornleifafræði rannsóknir á grafreit sem var aldursgreindur seint um 8. öld en var í notkun vel fram yfir 15. öld. Þegar hér var komið sögu var ráðstefnan að lokum komin og féll það í skaut Dr. Dauvit Broun frá University of Glasgow (og prófessorinn minn meðal annars) að flytja lokaorðin, þakka fyrir og kveðja. Nú er bara að bíða eftir árinu 2011 þegar næsta ráðstefna er plönuð. Allt í allt var þetta afbragðs ráðstefna og skemmtum við okkur mjög svo vel.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.