Færsluflokkur: Bloggar
7.4.2007 | 21:56
Alba gu bráth!
Ég er búin að búa í Skotland í tæp fjögur ár og hef verið að leggja stund á nám í Keltneskum fræðum, þá sérstaklega menningu og tungumálum. Reyndar er áhugasvið mitt bundið við tímabilið frá 700 1200 en það hefur ekki komið í veg fyrir að ég hafi sankað að mér þekkingu og skilning úr öðrum fögum þessu tengdu og öðrum tímabilum mennaringarsögu Skotlands. Allur þessi lærdómur hefur veitt mér sérstaka innsýn í skoska menningarsögu í gegnum tíðina.
Nú standa yfir kosningar í Stóra Bretlandi og það kemur náttúrulega Skotlandi einnig við. 3. Maí munu þeir ganga til kosninga um framtíð Stóra Bretlands sem og Skotlands. Undanfarið hef ég verið að sjá auglýsingar frá framboðsflokkunum og áróður þeirra á móti öðrum flokkum í landinu er mikill.
Fyrir nokkru sá ég þátt sem heitir Mock the Week, þar sem þeir félagar voru að gera gys að leiðtogum landsins Tony Blair og Gordon Brown. Það er mikið búið að tala um það að Gordon Brown muni taka við sem forsætisráðherra Bretlands þegar Tony Blair hættir og margir bíða eftir því með óþregju. Þess vegna var það frekar fyndið þegar einn stakk upp á það síðasta sem Tony Blair myndi gera, bara til að fara í taugarnar á Gordon Brown væri að gefa Skotlandi sjálfstæði og gera þannig út um möguleika Gordon Browns til að verða forsætisráðherra. Gordon Brown er frá Skotlandi og ef Skotland yrði sjálfstætt ríki væri Gordon Brown ekki lengur gjaldgengur sem stjórnmálaleiðtogi í Englandi! Öllu gamni fylgir nokkur alvara.
16.Janúar 2007, héldu Englendingar og Skotar upp á 300 ára afmæli Act of Union. Í tilefni þess var skrifuð grein í The Independent um hvað myndi gerast ef Skotland myndi ná sjálfstæði? Þær gróu sögur hafa lengi gengið að Skotland gæti aldrei þrifist sem sjálfstæð þjóð innan um allar hinar þjóðirnar í kring. Þetta er einn sá grófasti áróður sem ég hef heyrt og er til þess gerður einungis til að halda þjóðinni niðri. Þetta viðgengst enn í dag og ekki engöngu skorðaður við England, heldur hefur Danmörk notað þessi rök líka fyrir sjálfstæði Færeyja. Ef Íslendingar hefðu ekki staðið fyrir sínu og hrifið til sín sjálfstæði 1944 værum við ennþá að glíma við Danmörku. Því hvað erum við ef ekki agnarsmátt ríki í miðju Atlantshafi, og samgöngulega séð, mun verr statt en Skotland gagnvart Englandi og öðrum Evrópuríkjum.
Þetta er ekkert nema lygar, tilkomnar af því að England vill ekki missa Skotland, bæði gagnvart auðlindum og mannskap. Í greininni sem ég minntist á hér að ofan eru tiltekin þau mál sem mest kæmu í veg fyrir að Skotland gæti staðið á eigin fótum í efnahagsheiminum. Álitið á Skotum er lítið ef litið er til Englands og jafnvel Skotlands sjálfs. Í Skotlandi er mest tíðni örorku- og atvinnuleysisbót, þá sérstaklega í Glasgow, Skotar eru heilsuverstir af þeim sem teljast til Stóra Bretlands og því fylgir auðvitað útgjöld. Álitið er því það að Skotar eru engu verri en hver önnur sníkjudýr sem lifa á vinnu annarra. Það er bara alls ekki rétt. Það er ekkert sem segir að allur peningurinn sem fer í hin ýmsu störf og bætur í Skotlandi komi allur frá Englandi, Skotar standa vel undir sér í dag og þótt að ef til skilnaðar kæmi og mögur ár yrðu frammundan til að byrja með, þá hefur Skotland alla þá burði til að standa sig með sóma gagnvart þegnum sínum þegar á tindinn væri komið. Skotland hefur líka sitt að segja í pólitísku umhverfi Evrópu og á meðan Skotland er bundið við England hafa þeir lítil völd til að koma sínum málum á framfæri. Þeir sem eru á móti aðskilnaði Skotlands og England þræta fyrir að ef til þess kæmi þá myndi Skotland ekki fá aðganga að Evrópusambandinu eða Myntbandalanginu en þessi rök eiga alveg eins við sjálfstætt England og við sjálfstætt Skotland. Það er mergur málsins! Það sem gæti snert sjálfstætt Skotland mun einnig hafa áhrif á England. Skotland er á móti vopna aukningu landsins (s.s. Trident kjarnokrukafbátnum sem auk þess mun vera í höndum Bandaríkjastjórnar að stýra en ekki Stóra Bretlands). Það sem myndi gerast við aðskilnað þessara tveggja ríkja er að England mun missa mikilvægan stuðning og mannskap í stríðinu við Írak og Afganistan og England mun tapa efnahagslega af innkomu frá auðlindum Skotlands. Skotland er þegar með sitt eigið þing og þegar vel í stakk búið við að taka við frekari ábyrgð fyrir þegna sína.
Ef Skotland fær tækifæri til að sanna sig á alþjóða markaði gagnvar öðrum þjóðum mun það hvergi standa þeim langt að baki. Skotland er vel í stakk búið til að mæta þeim vandamálum sem upp gætu komið við aðskilnað en þegar á heildina er litið mun Skotland vera mun betur sett sem sjálfstætt ríki heldur en að halda áfram sem nyrsti garður Breska samveldisins. Þótt Skotland fái sjálfstæði mun það samt sem áður teljast til aðildaríkja Stóra Bretlands, drotningin mun ennþá vera drottning þeirra sem og annarra fyrrverandi ríkja heimsveldis Breta. Sendiráð vítt og breitt um heim er mörg í samstarfi við önnur ríki og það ætti ekki að vera neitt vandamál hjá þeim að halda áfram samstarfi við Skotland í þeim efnum.
En England er hrætt. Ef Skotland fær sjálfstæði, þá eiga Norður Írland og Wales eftir að heimta sjálfstæði líka. Það er það sem gæti kostað Englendinga mest, að missa þessi þrjú ríki. Efnahagur Englands myndi verða verst úti í aðskilanði þessara ríkja, en það er ekkert sem segir að þegar til lengri tíma er litið að England sem og Skotland, Norður Írland og Wales gætu ekki staðið sig vel á alþjóða markaði sem verðugir andstæðingar í atvinnu- og tækni þróun. Þessar þjóðir gætu þess vegna staðið sig mun betur á þessum sviðum ef ekki væri fyrir kúgun hræddra Englendinga að missa stöðu sína sem stórveldi í Evrópu og heiminum.
Það er kominn tími til að Skotland fái viðurkenningu sem ríki, vandamálið hefur alltaf verið að Skotland hefur aldrei verið viðurkennt ríki og í gegnum söguna hefur enginn getað sagt fyrir vissu hvar og hvernig Skotland skiptist, en það vandamál á við um mörg ríki Evrópu í dag sem eru að berjast fyrir viðurkenningu. Hvenær á ríki rétt á sér og hvenær ekki. Ef Ísland væri ekki eyríki værum við í sömu vandræðum með að vera viðurkennt ríki innan um önnur. Hver á að segja til um hvar landamæri eigi að vera og hvar ekki. Talaðu við Skotana úti á götu, allir eru þeir skoskir og þeir tilheyra Stóra Bretlandi en fyrir alla muni, kallaðu þá aldrei Englendinga.
ps. skoðið þessi tvö myndbönd. Í fyrstu sýnast þau eins en fljótlega sést munurinn.
Myndband 1;
Myndband 2;
Og bara til að bæta við, þá er ég algjörlega fyrir sjálfstæði Skotlands.
Alba gu bráth > Skotland að eilífu!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
2.4.2007 | 21:27
Glasgow
Jæja, ég er komin til Glasgow aftur og núna klukkutíma á undan veröldinni heima. Verð að segja það að þótt að ég hafi komið til Skotlands í gær, er ég ennþá á tímanum heima. En þetta er að koma þótt að ég vakni á vitlausum timum, er svöng á vitlausum tíma, borða á vitlausum tíma og í alla staði 'out of sync' ef svo má að orði komast. Hef þess vegna farið hægt í lærdóm í dag en er búin að skipuleggja mig út í ystu æsar og gaman byrjar fyrir alvöru á morgun. Þegar ég var búin að setja þetta svona niður á blað, þá virðist þetta ekki vera neitt svo svakalegt það sem bíður mín, en ég á eflaust eftir að kvarta nóg þegar yfir er staðið.
Þarf svo að vakna eldsnemma á morgun til að vera klædd og komin á ról áður en það verður bankað upp á hjá mér með pakka til mín. Ég á von á splunku nýjum ipod-spilara á morgun, sem ég var að kaupa mér. Hlakka svo til, því að minn gamli dó fyrir tveim vikum síðan, eða nákvæmlega þegar ég kom heim. Bróðir minn hirti þann gamla og ætlar að sjá hvort hann geti náð að skipta um harðadisk í honum, hann er svoddan snillingur og dundari.
Það er búið að vera steikjandi hiti hérna og sól og greinilegt að allir Glasgow-búar ætla að njóta þess í botn. Fór röltandi niður á Byres Road í dag og labbaði í gegnum Botanic Gardens og það var bara ekki þverfótandi fyrir fólki að njóta veðurblíðunnar. Það tók mig þó nokkurn tíma að átta mig á því að það var mánudagur í dag, enda ekki vön að sjá svona marga í garðinum á þessum tíma.
En núna þarf ég bara að fara flytja rassinn á mér yfir á eitthvað mýkra en þennan skrifborðsstól, er búin að sitja hérna allt of lengi og verð að skipta um útsýnisstað. Ætla að fara að planta mér fyrir framan sjónvarpið það sem eftir er kvöldsins.
Annars verð ég, áður en ég hætti, að koma fram alveg frábærum fréttum. Ég sótti, fyrir um þremur vikum síðan, um að komsta í M.Litt í Scottish Medieval Studies á næsta ári og ég var að fá svar um það að þeir hafa samþykkt umsóknina mína!!!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.3.2007 | 22:09
Er að læra
Ég er búin að vera á landinu núna í átta daga og á viku eftir. Kom heim í smá upplestrarfrí. Ég fæ víst ekki að vera heima yfir páskana því að ég þarf að fara í próf strax 10.apríl. Þetta verður strembin prófatörn hjá mér en þetta þýðir líka að ég verð komin heim fyrr en venjulega. Síðasta og fjórða prófið mitt er 18.apríl.
Það er alltaf gott að koma heim og fá að lúlla í sínu eigin rúmmi. Það er líka bara gott að geta hitt og talað við annað fólk. Er búin að nota tímann til að hitta vini mína, þá sem eru landinu, það er að segja. Búin að skella mér í bíó á okurverði, verður að segjast en naut þess í botn ekki síður. Búin að troða mig út af yndislegum íslenskum mat og góðgæti. Næ víst ekki í neinar fermingarveislur, en það er allt í lagi, mér hefði víst ekki verið boðið í neinar heldur, þetta er allt frekar fjarskylt fólk sem rétt veit kannski að ég er til en ekki mikið meira. En ég finn það að eftir því sem ég er lengur erlendis því meir langar mig að nýta öll þau tækifæri sem gefast að til að hitta vini og ættingja.
Eitt sem ég hef rekist á og vinkona mín, sem er erlendis líka, hefur rekist á þetta einnig er að við eigum báðar frekar erfitt með að halda hversdagslegar samræður við fólk sem við höfum ekki hitt lengi. Við erum svo gegnsýrðar af námsefninu og hugur okkar svo upptekinn af því að þýða allt frá einu tungumáli yfir á annað að þegar við stöndum fyrir framan fólk sem við höfum annað hvort ekki séð áður eða í langan tíma þá eigum svo svolítið erfitt með að tala frambærilega. Meira að segja móðir mín hefur tekið eftir því að stundum finnst henni eins og hún sé að tala við útlending þegar hún er að tala við mig. Ég nefndi þetta við vini mína í gær og einnig það að ef þetta héldi áfram hjá mér á ég eftir að sækja um að fara á námskeið í íslensku fyrir útlendinga. En þau sögðust hafa alla trú á mér þannig að ég verð bara að stóla á að vinir og ættingjar hjálpi mér í að aðlagast íslensku samfélagi aftur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.3.2007 | 00:30
Tíminn líður
Það eru innan við tvær vikur þangað til ég kem heim í páskafrí. Það er reyndar erfitt að skilgreina þetta sem frí, þar sem ég mun vera að læra fyrir vor prófin. Verð að segja að ég bæði hlakka til og ekki. Það verður enginn smá léttir þegar 14. mars rennur loks upp. Þá verð ég (eða þá á ég að vera) búin með öll fyrirliggjandi verkefni. Er einmitt búin að vera að strita yfir þriðju og síðustu ritgerð annarinnar og ég náði líka að klára þýðinguna fyrir skila verkefni fyrir Velsku í kvöld. Ég er að vonast eftir að klára ritgerðina á morgun. Það þýðir að á þremur helgum er ég búin að ná að framleiða 3 x 2000 orða ritgerðir. Ekki slæmt það. En ég á enn þá eftir að fara yfir hinar tvær til að gera þær tilbúnar fyrir skil og svo þarf ég að fara yfir textann sem ég var að þýða í velsku og undirstrika, sagnir, ákveðnar stökkbreytingar sem verða á samhljóðum (initial mutation), forsetningar og fornafns viðskeyti (infixed pronouns). En það tekur engan tíma sem betur fer. En það verður gott þegar þessi törn er búin en þá tekur bara sú næsta við í staðinn. Enhvern veginn hlakka ég ekki til þess að fara að læra fyrir Old Irish prófið, það er svona álíka ánæguleg hugsun og að vita að ég þurfi að fara til tannlæknis í rótarfyllingu (sem ég reyndar þarf ekki), það væri bara tvöföld (ó)ánægja.
Þarf samt að fara að reyna að drífa þetta af svo ég hafi tækifæri til að hitta eitthvert fólk áður en ég fer heim. Hef verið að vanrækja Sharon, Lewis og Lauru allan tímann eiginlega. Er ekki sátt, en hvað á maður að gera þegar skólinn hefur slíkt tangarhald á manni. Vonandi bara að þetta sé þess virði að eiga ekkert félagslíf.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.2.2007 | 14:17
Stressið að fara með mann
Ég sit hérna í herberginu mínu í Glasgow að farast úr stressi. Það kemur venjulega þegar álagið er að fara með mig. Ég byggi upp einhvern ósýnilegan hjalla af verkefnum sem mér finnst ég ekki geta náð að vinna úr nógu hratt. Ég er alls ekkert að falla á tíma, en mér finnst ég vera að falla á tíma með að vinna úr hlutunum á þægilegum tíma. Ef þetta meikar eitthvað sense?
Á föstudag eyddi ég þremur klukkutímum í verkefni fyrir Welsh Poetry sem ég þarf að skila í þessari viku. Ég náði að klára verkefnið að mestu leyti en það er eitt og annað sem ég þarf að skoða betur áður en ég skila. Ætla að reyna að klára það í kvöld. En einmitt núna er ég að einbeita mér að ritgerð fyrir Old Irish. Er að skrifa um 'the rhetoric' eða orðagjálfur í sögunum Fingal Rónáin og Orgain Denna Ríg, og ég verð að viðurkenna það að ég er orðin rangeygð af tilraunum til að koma mínu orðagjálfri niður á blað.
Þegar ég klára þessa ritgerð verð ég að demba mér strax í það að skrifa næstu ritgerð í Middle Welsh, þar sem ég tala einmitt aftur um orðanotkun og tungumál í velsku sögunni Pwyll Pendeuic Dyuet. Og eftir það bíður mín sú skemmtilega ritgerð fyrir Welsh Poetry að skrifa um ljóð Y Dref Wenn (The white town), ljóð sem ég valdi sjálf og hvort ljóðið sýni 'anti-millitarist rethoric in the englyn cycles of the Cynfeirdd period'? Þetta verð ég að játa er eina ritgerðin sem mig hlakkar til að skrifa um, en þangað til er ég að farast úr stressi. Sérstaklega þar sem ég þarf að vera búin að öllu þessu helst fyrir 9.mars og ofan á það þá veit ég af allavegana einni þýðingu til að skila inn í velsku áður en páskafríið byrjar. Og kannski á ég von á að skila inn þýðing úr Orgain Denna Ríg.
En það nú nördatal, verð að segja það á svona stundum held ég að ég hafi lagt út í þetta af því að mér finnst gaman að þjást. En aftur á móti, þegar ég er búin að skila inn verkefnum, þá líður mér svo vel og ég er svo stollt af mér að ég veit að ég valdi þetta af því að þetta veitir mér ánægju.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.2.2007 | 20:22
Tekur enginn annar eftir þessu
Hvernig í ósköpunum á ég að skilja að Díana prinsessa komi þessari grein nokkuð við. Eru fréttamenn á mbl.is orðnir það gegnsýrðir af vestrænu slúðri að það gerir sér ekki lengur grein fyrir því að það eru til fleiri prinsessur í heiminum en Díana? Það er ekki einu sinni skiljanlegt að þeir ruglist á nöfnunum, því þetta eru svo ólík nöfn.
Undanfarið ár hef ég verið að taka eftir auknum stafsetningavillum á síðum mbl.is og ekki síður í Morgunblaðinu sjálfu, en þetta slær öllu við. Eru fréttamenn algjörlega hættir að lesa yfir það sem þeir skrifa? Eru engir ritstjórar lengur við störf hjá fjölmiðlum? Ekki ætla ég að þykjast vera manna best í íslensku, en mér finnst það vera fyrir neðan virðingu fjölmiðils að láta svona hluti frá sér fara og birta opinberlega, án þess að lesa greinar yfir til að koma í veg fyrir slík mistök.
Það er eitt, fyrir þá sem það skiptir máli, að berjast gegn slanguryrðum og enskuslettum í íslensku máli. En þá finnst mér einnig það skipta máli að kenna fólki að nota íslenskuna rétt og koma henni vel frá sér. Einmitt þá, þegar fólk veit hvað það er að nota og hvernig, þá er því fært að nota íslenskuna ásamt öðrum tungumálum til að skreyta mál sitt með snilld og hæfni og þá er ekkert hægt að gagnrýna það. Það sýnir fyrst og fremst virðingu fyrir tungumáli sínu sem og annarra.
Japanir ósáttir við austurlenska útgáfu af sögu Díönu prinsessu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
2.2.2007 | 09:53
Bandaríkjamenn alltaf svo vel upplýstir!
Þetta er snilldarlega vel orðað af Bandaríkjamönnum. Einungis þeir gætu kallar loftlagsbreytingarnar "mjög líklega" til komnar af mannavöldum. Þetta er eins og ef Vatíkanið væri í dag að koma fram með þá tilgátu að jörðin "er líklega" kringlótt en ekki flöt!
Af hverju er Bandaríkin ennþá talin sem stórþjóð þegar hún hagar sér eins og miðaldarþjóðfélag sem er ekki meira þróaðra en það að þjóðin stendur ennþá í trúarstríðum sem Evrópa sagði skilið við fyrir nærri sjöhundruð árum síðan (e.g. krossfarirnar)? Af hverju eru Bandaríkin talin sem stórþjóð þegar enginn nennir að hlusta á þá lengur? Það sem þeir eru að koma með að alþjóða samningaborðum sýnir að þeir eru mörgum áratugum á eftir í alþjóðamálum. Af hverju eru Bandaríkin talin sem stórþjóð þegar flest öll lönd og íbúar þeirra eru búin að missa alla virðingu fyrir Bandaríkjunum bæði sem þjóð og sem fólki miðað við framkomu þeirra á heimsvísu.
Bandaríkjamenn fagna skýrslu um loftslagbreytingar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
29.1.2007 | 22:04
hmmmm
Einhvern veginn fannst mér sniðugt að fá mér nýtt blogg. Svona almennilegt Elínar-blogg á íslensku. Hef alltaf verið að skrifa á ensku. En ég er algjörlega andlaus núna. Hef ekki orku í að röfla um eitt eða neitt. Það er kannski allt í lagi að síðan byrji svona brösótt.
Hef samt frá ýmsu að segja svo sem. T.d. ég skilaði dissertation (fræði-) ritgerðinni minni í dag. Skilafresturinn er til 1.feb en ég sá fram á að ég myndi ekki gera neitt meira með ritgerðina þannig að ég skilaði henni bara. Lét binda hana inn og alles. Þarf víst að vera fín og flott. Skrifstofustýran varð bara heldur betur hlessa þegar ég skilaði ritgerðinni inn svona snemma. Það er víst ekki alvanalegt.
Umm, látum þetta nægja í bili. Ég á eflaust eftir að venjast þessu umhverfi smátt og smátt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)