Færsluflokkur: Menning og listir
22.2.2008 | 10:24
Fjársjóðskista
fsalega var ég heppin á Þriðjudaginn! Ég var svo sniðug að skrá mig á fyrirlestur hjá Professor Rosamond McKitterick (University of Cambridge) í sambandi við meðhöndlun á handritum og vinnu við þau. Vá, hvað ég datt ofan í fjársjóðskistu þar. Fyrirlesturinn var einungis opinn fyrir 15 til að skrá sig og var ég svo heppin að komast að og svo skemmtilega vildi til að Catriona vinkona komst líka. Þetta var einungis tveggja tíma fyrirlestur og það var bara alls ekki nóg, hefði velj verið hægt að skilja mig eftir þarna inni bara.
Okkur var komið fyrir í handritasafnsdeildinni með blað og blýant og svo byrjaði ballið. Hún kallaði upp einhver 15 handrit, en fékk nokkur fleiri í viðbót sem var ekki verra. Þetta voru allt skinn handrit frá 12. - 16. öld hvaðanaf úr heiminum og þau voru öll alveg rosalega gullfalleg.
Fyrsta handritið sem hún sýndi okkur var 12.aldar Biblía, alls ekki stór og letrið var ennþá smærra. Hún var öll rituð á latínu en letrið var svo smátt að við gátum varla greint orð frá orði en samt var rithöndin rosalega vel greinileg, með greinileg T og I úr vísi-gotneskum ritstíl. Það fór ekki mikið af teikningum í bókinni en þar sem þær voru, þá voru þær vel gerðar og mjög ríkuglega skreyttar með bláu (lapis lazuli) pigmenti, sem næst á eftir gulli var dýrast. Skinnið sem var notað var í rosalega góðum gæðum og var spurningin um hvort að skinnið sem hefði verið notað væri kanínuskinn þar sem folio-in sem voru í henni væru öll svo rosalega vönduð og keimlík, hvergi göt neins staðar og engar leifar af hárum á folio-unum heldur.
Svo sýndi hún okkur bók sem var full af lyfjajurtum og ráðum, mjög ódýr bók, skinnið af lélegum gæðum, fullt af götum og líka ormagöt, en samt rosalega skemmtilegt að sjá hana og sjá muninn á milli þessara bókar og Biblíunnar. Höfuðstafir voru litaðir en þá með rauðum og grænum litum sem voru þeir ódýrustu sem hægt var að fá en það voru alls ekki allir höfuðstafirnir litaðir, sem gaf til kynna að annaðhvort hefði verið hætt við að skreyta bókina, eða sá sem stóð að gerð bókarinnar átti ekki meiri pening milli handanna til að borga fyrir restina.
Það voru svo nokkrar aðra bækur sem hún sýndi okkur sem bar merki um eitt og annað merkilegt í sambandi við meðhöndlun og vinnslu á gömlum handritum. Eitt handritið var þakið 'gold leafing' þar sem gulli er bókstaflega spreðað yfir folio-in í bókinni í alls konar skrautmyndun. Og ekki nóg með gullið þá var eitt handrit, frá fyrri hluta 16. aldar (en samt skinnhandrit), sem fjallaði um sögu Alexanders mikla, þar sem fyrsta folio-ið var myndskreytt með gylltu og bláu pigmenti og það svo rosalega fallega að ég vildi að ég gæti fundið mynd af síðunni til að sýna ykkur.
En Catriona og ég vorum held ég mest hrifnastar af að komast nálægt 12. aldar handriti af bók Bede (sem var uppi á fyrri hluta 8. aldar) en handritið var unnið í Durham klaustrinu og svo skemmtilega vill til að á spássíu bókarinnar víðs vegar er að finna punkta sem ritaðir eru af ábóta klaustursins. Okkur fannst þetta mjög merkilegt. Bókin er eins og almanak þess tíma, þar sem Bede var að reikna út hvenær Páskarnir væru og var þetta allt sett upp í svakalega flottum dálkum. Og þar við hliðina voru punktarnir eftir ábótann, þar sem hann noteraði það sem merkilegt hafði gerst á árinu. Þarna var líka að finna dagatal sem taldi upp dýrlinga hvers dags til að auðvelda fólki að fara eftir því svo og ýmislegt annað. Ég og Catriona biðum í um fimmtán mínútur eftir að komast yfir bókina að fá að skoða, það voru tveir einstaklingar sem voru svo leiðinlegir að algjörlega einoka þetta ákveðna handrit frá okkur. Nákvæmlega það eina sem við algjörlega ætluðum ekki að missa af. Ég þrjóskaðist við og á síðustu mínútunni þá náði ég taki á henni og fékk að fletta nokkrum blöðum áður en við þurftum að hætta. Eins og ég segi þá var alls ekki nægur tími fyrir okkur að handfjatla þessi dýrmæti.
Ég var algjörlega með nefið ofan í bókunum og hafði svo gaman af. Af því að við vorum svona mörg var mælst til að við notuðum hanska við að skoða handritin en það er samt ekkert óvenjulegt að fólk fái að flettast í þeim með berum höndum, enda er það oft betra heldur en hanskarnir, þá sérstaklega bómullar handskarnir. En við fengum FJÓLUBLÁA TOLLARAHANSKA, mér fannst það æði. Þar sem ég er fyrst og fremst nörd og vel umfram það sem venjulega telst, þá var ég svo skrítin að ég tók handskana með mér heim til minningar. Enda ekki oft sem maður fær svona tækifæri.
Ef þið viljið sjá nasasjón af því sem ég fékk að sjá og handfjatla þá getið þið farið á handritasíðu háskólans hérna: http://special.lib.gla.ac.uk/manuscripts/ Þarna getið þið valið handrita safn og fengið upplýsingar um þau og einnig þegar þið hafið valið safn til að skoða, þá er oft neðst á síðunni linkur á Handrit mánaðarins og þar getið þið fengið upplýsingar um ákveðin handrit og oftar en ekki eru einmitt myndir af þeim líka oft vel þess virði að kíkja á. Hérna er linkurinn á bókina hans Bede, en þið finnið hana undir Hunter safninu, handrit mánaðarins Janúar 2001: http://special.lib.gla.ac.uk/exhibns/month/jan2001.html
10.11.2007 | 16:59
Om Shanti Om
Vá hvað ég er í stuði, eða var það þangað til ég steig upp í leigubílinn sem keyrði mig heim. En rétt áður en það gerðist var ég alsæl.
Ég skellti mér í bíó í dag, ákvað að gera bara eitthvað alveg ótengt námi og samviskubiti. Þetta var bollywood mynd, hvað annað gæti komið mér jafn hratt í bíó klukkan hálf eitt um dag en Bollywood mynd og það Bollywood mynd með Shah Rukh Khan ... ahhhhhh. Ég á erfitt þegar þessi maður er á skjánum og þessi mynd var betri en tíu Chippendale sýningar í einu. Drool, Elín, drool!
Ég átti svo erfitt með að sitja kjur en varð að gera það svo ég færi nú ekki að leika eftir atriði úr myndinni sem ég var á. En þeir sem hafa séð mig þar sem Bollywood mynd eða músík (eða leikrit) er í gangi vita að ég á ótrúlega erfitt með að sitja kjur. Bollywood myndir eru búnar til til að fólk dilli sér við þær. Æðisleg tónlist sem er í henni. Þetta er pottþétt mynd sem ég verð að fá. Ég hló, ég grét, ég grét af hlátri og sorg. Ég fór hjá mér, ég var reið, mér fannst myndin fáránleg, æðisleg, geggjuð, meiriháttar, ég var frá mér numin, mér fannst hún hreinlega fullkomin. Liggur við að það sé komin ný uppáhaldsmynd með Shah Rukh Khan á sviðið. Verst að ég á svo margar. Hann gerir allt fyrir mig sem Hollywood gaurar eru algjörlega hættir að gera. Hann hrífur mig með sér, hann heillar mig, hann fær mig til að roðna, til að tísta, til að brosa, skælbrosa og brosa stríðnislega. Vá hvað ég er heilluð og svo þegar í einu atriðinu, þó nokkrir fleiri heitir aðalgaurar úr Bollywood flórunni birtust á skjánum með honum, með hnyklandi voða og tælandi bros, þá var ég í himnaríki í nokkrar sekúndur. Ég get varla beðið eftir að komast yfir þessa mynd ... I want it! Svo ég geti horft á hana heima hjá mér og dillað mér á fullu og sungið með og grátið í friði. Om shanti Om, Om shanti Om, Om shanti Om ... la la la la la.
Svo gerði ég þau mistök að taka leigubíl heim og fékk ömurlega leiðinlegan leigubílstjóra, sem ætlaði að vera svo sniðugur að hefja samræður við mig. Flestir sem hafa ferðast með mér í leigubíl hérna úti vita að mér finnst oftast gaman að tala við leigubílstjórana, en þessi var sá versti af öllum. Fyrir utan fáránlegar spurningar móðgaði hann mig líka rosalega, sem er fáránlega erfitt til að byrja með. En hann bókstaflega bað mig að útskýra af hverju ég hefði valið að koma til Glasgow / Skotlands til að læra það sem ég er að læra og hvort ég hefði ekki frekar átt að sækjast eftir námi á mínum heimaslóðum, sem sagt Íslandi. Ég var samt áður búinn að segja honum að ég hefði áhuga á þessu ákveðna námi og þarna var hann bókstalega að biðja mig um að réttlæta fyrir honum hvað ég væri að gera hérna og hvort ég ætti ekki bara að halda mig heima. Hvort það væri nú ekki bara eitthvað sem ég myndi frekar ráða við ef ég væri heima á Íslandi að læra heldur en hérna í Glasgow. Þegar það tók mig ÞÓ nokkrar sekúndur til að svara honum, þá spurði hann mig hvort hann hefði móðgað mig. Vá hvað þetta var bjartur gaur. Miðað við að ég var í svona fínu skapi þangað til ég hitti hann og hef fengið ýmsikonar spurningar frá öðrum leigubílstjórum, misjafnlega gáfulega spurt, þá gat það ekki farið fram hjá mér hvað hann var að meina.
En ég er hætt að hugsa um leigubílstjórann og ætla að fara að gúggla upp Shah Rukh Khan og myndir úr nýjustu bíómyndinni og fleira. Hver veit nema ég skelli mér svo aftur í bíó í vikunni á mynd sem heitir Saawariya. Ég er í Bollywood fílíng, mega mikið núna.
Ég held ég geti ekki hætt við þetta blogg nema að setja inn smá myndband af myndinni líka. Fengið frá youtube og er trailerinn af myndinni.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 17:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
23.9.2007 | 16:37
Nú er ég öskureið
Íslenskan sem einangrunartæki!
Deili ekki þeim ótta sumra að íslensk þjóð sé eins og barnið í baðvatninu. Sé tungunni hent fari þjóðin. Þegar öllu er á botninn hvolft skiptir mestu hvað er hugsað á Íslandi, um hvað er talað, hvernig fólkið er innréttað. Hvernig manneskjur þetta eru sem hér búa.
Málið er samskiptatæki en getur einnig verið kúgunartæki þar innifalið tæki til að einangra og útiloka.
Ég sé ekki betur en að Írum vegni bærilega þó þeir tali ensku. Óvíða hef ég kynnst meiri þjóðerniskennd en í Úkraínu. Minni hluti Úkraínumanna talar þó úkraínsku, meirihlutinn rússnesku. Í bæjum og þorpum nálægt landamærum eru þorp þar sem eingöngu er notast við tungumál nágrannaríkja.
Almenn rökvísi segir manni að betra sé að tilheyra stórum málhópi en smáum.
Óheppilegt er að eyða lífi sínu innan veggja tungumáls sem fáir botna í. Maður á möguleika að skilja fleiri og fleiri átta sig á tali manns í réttu hlutfalli við stærð málhólfs.
Aðgangur að bókmenntum og listum eykst í réttu hlutfalli við stærð málsvæðis.
Sé maður vís er gott að sem flestir heyri. Sé maður fávís hefur maður gott af að heyra sem flest.
Það rífur skörð í veggina að læra tungumál síðar á æfinni en brýtur þá sjaldnast.
Nú er ég ekki að mæla með því að íslenskunni sé kastað. Jafnvel þó hún sé fremur stirt mál eins og reglan er með tungumál sem eru notuð af fáum. En þegar alið er á þeim ótta að íslenskan glatist þegar fólk af erlendum uppruna er ráðið á barnaheimili ...þegar alið er á sama ótta þegar stungið er upp á því að enska verði einnig notuð í viðskiptum.........þegar alið er á sama ótta þegar færð eru rök fyrir því að tvítyngd væri þjóðin betur á vegi stödd.....
Þá fnnst mér að farið sé að nota íslenskuna sem einangrunartæki.
Eftirmáli: Las það að tvítyngdu fólki væri síður hætt við elliglöpum og Alzheimer. Umhugsunarvert.
(http://baldurkr.blog.is/blog/baldurkr/entry/318889/)
Ég get ekki annað gert en brugðist við svona bloggi, enda er ég öskureið ákkúrat núna. Ég verð að segja að ég er algjörlega ósammála Baldri Kristjánssyni í þessu. Ég efast um að hann hafi fyllilega gert sér grein fyrir hvað hann er að segja með þessari grein og vil ég gjarnan vona að ég hafi verið að misskilja hann stórlega. Hvort sem um ræðir grein til fjörlegrar umræðu eða annað. Mér er ill skiljanlegt að nokkur geti haft slík viðhorf gagnvart þjóð sinni, tungu og menningu.
Það sem ég les út úr þessari grein er að honum finnst óskiljanlegt af hverju við Íslendingar erum að halda í tungu sem svo fáir tala, en er íslenskan þá eitthvað minna gild en önnur tungumál eða bara gagnvart enskunni. Um leið og við förum að tala um það að íslenskan meini okkur aðgang eða auðveldi ekki fyrir samskiptum um viðskipti erum við í vondum málum og mig hryllir við þessari þróun sem virðist vera að spretta upp. Og ég skal segja þér af hverju.
Þú talar um að Írar hafi það bærilegt þótt þeir tali ensku, en hefurðu einhverja hugmynd um af hverju þeir tala ensku en ekki írsku. Hefurðu einhverja hugmynd um hvernig það kom til að þeir skiptu yfir frá írsku yfir til ensku. Og hvað með Skotland, af hverju tala þeir ensku, eða Walesbúar, eða þeir sem eru búsettir á Bretaníuskaganum. Því nú verð ég reið. Hvernig heldurðu að þér myndi líða ef að þú værir barinn og lítilvirtur fyrir það að tala á því móðurmáli sem þú varst alinn upp við. Og hvernig heldurðu að fólk sem alið er upp við slíkar aðstæður fari að lýta móðurmál sitt. Það lítur á það sem eitthvað slæmt, ekki til að vera stolt af. Það hættir að segja börnum sínum sögur sem þau lærðu sem börn sjálf. Þau meina börnum sínum að apa eftir sér orðin, þau segja þeim að þau eigi að læra ensku því að það er engin framtíð í gelísku. Þau sem töluðu gelísku voru álitin heimsk og illaþenkjandi minna en þegn í þjóðfélagi. Er þetta hugsun þín til íslenskunnar að í nálægri framtíð verður það skömm okkar að tala íslensku. Í Wales, þar sem meirihluti byggðar var samblanda af þeim sem voru welskir og töluðu welsku og þeir sem voru af enskum uppruna og töluðu ensku. Stjórnvöld fengu nágranna að njósna um nágranna sína og segja til þeirra ef þeir dirfðust að tala welsku innan veggja heimilis síns. Þessi tungumál voru barin úr fólki á sem ógeðfelldasta hátt og þér finnst skrítið að ég taki svona grein inn á mig með þessum hætti.
Þú talar um að Írar hafi það fínt með ensku en menningarheimurinn hefur það ekki. Forn írska er að mörgu leyti flókið tungumál og vegna þess eru enn mörg skjöl og handrit ennþó óþýdd, þarna er menning að gleymast og ef við náum ekki að mennta fólk í þessu forna tungumáli þá gleymast og týnast ómetanleg menningarverðmæti.
'There is no tracing ancient nations but by language and therefore I'm always sorry when language is lost because languages are the pedigree of nations.' Samuel Johnson 1766)
Írska er í dag viðurkennt tungumál hjá Sameinuðu þjóðunum, og Írland er búið að berjast fyrir því lengi að tungumál þeirra sé viðurkennt sem tungumál. Írska er opinbert tungumál Írlands. Welska er opinbert tungumál Wales. En Skotland er á mörkum þess að tína alfarið tungumáli sínu gelískunni. Í dag eru ekki nema um 62þúsund manns sem tala gelísku sem fyrsta tungumál. Veistu við hvaða mörk tungumál er í útrýmningarhættu. Það er við 50þúsund!!!
Hugsaðu því aðeins áður en þú talar, það er ekki langt bilið á milli ca 330 000 og 50 000. Ég verð að segja það að ég hef virkileg óbeit á fólki sem skilur ekki hvað það er að gera þegar það talar um að leggja tungumál til hliðar af því að það hentar ekki íslensku efnahagskerfi eða viðskiptum eða hvað sem er. Þetta er sama hugsunin og var hjá fólkinu sem sló og barði og þvingaði fólk inn á enskuna í Skotlandi á sínum tíma. Ég var um stund í tölvunarfræði við Háskólann í Reykjavík. Bækurnar voru á ensku og forritunarmálið var og er á ensku en viti menn kennslan fór fram á íslensku. Af hverju? Sumir leggja það ekki fyrir sig að vera tvítyngdir og það er gott, og það er mun skynsamlegra heldur en að úthýsa einu tungumáli í staðinn fyrir annað af því að það hentar einhverri skrifstofublók sem sér ekki haginn í því að halda í eitthvað sem hann hefur ekki not á þegar hann fer til útlanda í viðskiptaferð, guð má vita hvaða tungumál hann notar til að tala við fjölskyldu sína.
Ég hef lagt stund á þó nokkur tungumál (þar á meðal ÍSLENSKU, dönsku, ensku, frönsku, þýsku, gelísku, forn írsku og miðaldar welsku) og ekki geri ég upp á milii neinna þeirra. Öll þessi tungumál eiga sinn rétt á tilveru ekki bara af því að það þjónar nokkrum einstaklingum að tala annað umfram eitt. Það er eitt orðatiltæki til sem mér finnst henta ansi vel núna og er það: OFT VELTIR LÍTIL ÞÚFA ÞUNGU HLASSI og um leið og við förum að tala um að losa okkur við tungumál okkar úr einum eða öðrum geira þá finnst mér hræsnin vera að kollríða samfélaginu. Ef við erum svona tilbúin til að losa okkur við íslenskuna af hverju eru þá þeir sömu sem minnast á þetta í sömu andrá að tala með fyrirlitningu um útlendingana sem eru búnir að koma sér fyrir á Íslandi en eru ekki orðnir altalandi á íslensku eftir fyrstu þrjá mánuðina!
Við eigum að halda í íslenskuna okkar eins lengi og eins fast og við getum og aldrei að gefa hana upp viljandi og í sömu andrá eigum við að vera framarlega í því að temja okkur eins mörg tungumál og við getum, því jú, með aukinni menntun bæði á tungumálum og öðru höldum við mörgum líkamlegum og andlegum sjúkdómum í skefjum.
'A people without a language of it's own is only half a nation'
(Thomas Davis)
Að tilheyra stórum málhópi er hægt að gera á fleiri vegu en að eyða öðrum málhópi því það gerir ekkert fyrir menningu eða menntun. Það minnkar hana heldur til muna og ef hann heldur því fram að Íslendingasögurnar séu alveg eins þegar er búið að þýða þær yfir á ensku hefur hann ekki hugmynd um hvað það fellst í takast á við að þýða bókmenntaverk. Ekki nóg með það að bókmenntir eru rosalega samfélagsbundnar þá eru þær líka rosalega brothættar. Ef Englendingur með enga vitneskju um Ísland, íslenska sögu eða annað tengt íslandi fer og les Íslendingasögurnar þá já í besta falli finnst honum þær skemmtilegar og öðruvísi en hann mun aldrei koma til með að skilja þær fullkomlega því að hann þekkir alls ekkert inn á þjóðfélagið og tímann sem þær gerast á. Heldurðu virkilega að það sé hægt að taka eina sögu og staðsegja hana annars staðar og allt hafi sömu merkingu í því menningarsamfélagi góurinn. Og það er ekki hægt að fara fram á góða þýðingu (og þá þýðingu sem kemst næst því að flytja menningu úr einni tungu yfir í aðra) nema hafa góðan skilning á þeim tungumálum sem verið er að þýða úr og þýða yfir í.
Segðu mér ef þú finnur fyrir sorg þegar eftir 200 ár eða svo að sá síðasti sem hafði íslensku að móðurmáli deyr, hvort þú ert ennþá á sama máli með að íslenskan er einangrunartæki. Þú talar um að ég sé hrædd í sambandi við svona umræðu og ég svara því alfarið játandi. Ég er skíthærdd. Því ég hef séð með eigin augum hvað það getur gert þjóð þegar hún hættir að líta á tungumál sitt með stolti og telur hana standa í vegi fyrir sér á alþjóðavetvangi í staðinn yfir að sjá hana sem verðmæti sem fáir aðrir í heiminum eiga.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 16:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
12.9.2007 | 23:09
Hvað kom fyrir?
22.8.2007 | 17:08
Bollywood
Oh, hvað það væri æðislegt ef Bollywood myndir færu að vera auðfáanlegar og/eða aðgengilegar á Íslandi. Ég er nefnilega forfallinn Bollywood aðdáandi og nú vel yfir 35 myndir. Ég kynntist þessum myndum fyrir rúmlega þremur árum síðan og hef ekki snúið aftur og finnst geðveikt gaman af þeim. Gerðist meira að segja svo fræg að fara í bíó að sjá hetjuna mína á stóra tjaldinu í Glasgow. Eins gott að það voru fáir þarna enda var ég farin að dilla mér í takt við tónlistina þegar hún byrjaði á fullu. Það er svo skemmtilegt að ef maður lendir á góðri Bollywood mynd (að mínum smekk) sem er svo barnslega einlæg og skemmtileg að hún getur ekki annað en hríft þig með í dillandi takta tónlistarinnar. Ég fann náttúrulega brot úr einni af mínum uppáhaldsmyndum sem heitir Kabhi Khushi Kabhie Gham ... (Through Smiles, through tears).
Þetta er fjölskyldumynd sem er góður byrjunarreitur fyrir þá sem ekki þekkja mikið til indverkst samfélags, þar sést vel hvernig fjölskyldan byggist upp með einlægri virðingu gegn þeim sem eldri eru og hvað það getur þýtt þegar kynslóðir fara á mis í skilning. Smá spoiler, en myndin byggist á því að eldri bróðurnum sinnast á við föðurinn og fer í burtu, seinna fer yngri bróðirinn að leita að honum og í þessu broti er sá yngri búinn að finna þann eldri, en sá eldri þekkir hann ekki enda er hann búinn að breytast mikið frá því hann var lítill. Lagi heitir Bole Chudiyan sem þýðir lauslega "Talið armbönd", en þarna er stúlkan búin að telja yngri bróðirinn á það að segja bróður sínum hver hann er sem hann gerir en undir rós þannig að hægt er að túlka það á hvern vegu, á sama hátt er hann búinn að mana hana upp í að segja hvernig henni er innanbrjósts gagnvart honum. Og hún svarar í sömu mynt um að armböndin tali máli sínu fyrir sig svo hún sleppur við að segja honum það opinberlega eins og hann gerði.
Lög í Bollywood myndum eru notuð til þess að útskýra og sýna hugarheima persónanna í myndunum. Oft það sem gerist eða kemur fram í lögunum er ekki að gerast í alvöru og það gerist þegar foreldrar bræðranna birtast þarna í endann. Of er einnig skipt um umhverfi í lögunum, þannig að á meðan myndin gerist á Indlandi er ekkert óalgengt að þegar persónurnar byrja að syngja fullum hálsi að við séum allt í einu komin í Egypsku pýramídana eða Frösnku alpana.
Það er náttúrulega nauðsynlegt þegar er byrjað að horfa á Bollywood mynd er að gera sér ekki neinar vonir og væntingar. Ég var svo heppin að hafa hjá mér aðila sem þekktu inn á indverska menningu og gátu útskýrt hlutina fyrir mér svo það er margt sem ég er ennþá að læra og nema í sambandi við Bollywood myndir og menningu. En ekki vera neinkvæð/ur þótt margt skiljist ekki í fyrstu, þetta er annar menningarheimur en þess vegna þeim mun skemmtilegra er að horfa á myndirnar, því það er alltaf gaman að læra og sjá eitthvað nýtt.
Svo, af því að ég hef nú unun af þessari mynd þá langar mig líka að setja inn eitt myndband í viðbót sem gerist í giftingarveislu, þar sem eldri bróðirinn í myndinni er að gera hosur sínar grænar fyrir elskunni sinni.
Í byrjuninni á atriðinu er hún að syngja við lag úr annarri Bollywood mynd og er það mjög vinsælt að koma með atriði þar sem vísað er í einhverjar aðrar þekktar Bollywood mynd.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 17:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
15.6.2007 | 20:03
Gelísk ljóð
Ég er loksins búin að setja inn lagalista á síðuna, en hún er með svolítið örðu sniði en margir aðrir lagalistar. Hérna setti ég inn 2 ljóð á gelísku með enskri útgáfu líka, svo hægt er að fá að heyra bæði gelísku og svo hvað í ósköpunum ljóðin fjalla um. Þessi ljóð eru rosalega falleg að mínu mati og með mínum uppáhalds. Fyrra ljóðið Cisteachan-laige (eða Líkkistur) og fjalla um dreng sem sér afa sinn vinna við trésmíðar, en seinna í ljóðinu breytist myndin aðeins. Þetta ljóð fallar á einstaklega fallegan hátt um hvernig ljóðskáldið Ruaraidh MacThómais (Derrick Thomson) upplifir það að tungumálið hans gelíska er að fjara út. An Tobar (eða Brunnurinn) fjallar um hvernig litlu staðirnir úti á landi oft á tíðum sýna fram á hvernig tíminn týnir því sem áður var. Rosalega fallegt og gæsahúðin hríslast um mig í hvert sinn sem ég hlusta á þessi ljóð.
Ég vona að hver sá sem er svo hugrakkur að hlusta á ljóðin á frummálinu út í gegn og svo á ensku kunni að meta þau líka. Þau gefa líka góða innsýn í það af hverju ég brjálaðist út í þetta nám. Tungumál eru svo rosalega dýrmæt en brothætt samt sem áður og það er algjörlega þess virði að leggja það á sig að læra önnur tungumál sem heyrast sjaldan. Ég eiginlega bara vona það að fleiri Íslendingar fari að leggja leið sína til Skotland, Írlands eða Wales í nám í þessum tungumálum. Því eins og okkur þykir vænt um íslenskuna, þá megum við gjarnan hjálpa öðrum þjóðum við að halda í tungu sína. Það væri synd að slík menning muni týnast, bara af því að það er ekki í tísku að tala ákveðið tungumál.
Menning og listir | Breytt 16.6.2007 kl. 00:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
8.6.2007 | 17:38
Bókmenntir fyrir alla
Ekki get ég að því gert að fólk kunni ekki að lesa eða gefist upp á bloggskriftum mínum. Bókmenntir eru fyrir alla. Aftur á móti er mögulegt að þetta er ekki ein sú auðveldasta saga til lesningar ef verið er að leita að dýpri merkingum. Ekki ætlaðist ég nú til þess að setja fólk í sálarþröng við lesturinn. Einungis til skemmtunar ef hún fyndist og einnig til fróðleiks fyrir landann. Það eru ekki ýkja margar sögurnar sem við höfum frá miðöldum Írlands og er það skömm hvað við þekkjum lítið til nágranna okkar í Skotlandi, Írlandi og Wales.
Sagan um Liadan og Cuirithir er með þeim stystu sem ég þekki og fannst tilvalið að byrja á henni. Hún er ekki þýdd af mér á sem þýðastan hátt enda er ekki ætlunin til þess. Heldur að fylgja upprunalegum texta sögunnar sem best málfarslega séð. Þegar laggst er í þýðingar á svona sögu þarf að hafa í huga að um er að ræða þýðingu úr tungumáli sem ekki er lengur talað og þess vegna eru ýmis orð sem bæði geta verið óræðin í merkingu og óútskýrð. Þess vegna er að mörgu leyti erfitt að lesa sum ljóðanna. Ef ég gæfi mér tíma í að útskýra söguna og kafaði dýpra í merkingu sögunnar og orðanna á bak við, þá hafa lesendur þessarar bloggsíðu virkilega undan einhverju að kvarta enda væri það ritgerð upp á nokkrar blaðsíður. En ég get líka lofað að það mun einhvern tíman birtast á prenti eftir mig þar sem ég er þegar byrjuð að vinna í þýðingum á fleiri sögum.
Þessi saga er að mínu mati mjög falleg og einlæg. Það eru kaflar í henni sem ekki eru aðskildir, hvort sem maður er lærður í efninu eða ekki. Í textanum er að finna fullt af vísun í lagatexta og hver staða bæði Liadan og Cuirithir er í samfélaginu á þeim tíma sem saga gerist skiptir máli fyrir söguþráðinn. Það er kannski ekki auðvelt að lesa sögu og skilja lítið hvað er í gangi en það gerir ekkert til að reyna og læra kannski eitthvað í leiðinni og hugsanlega að vekja upp áhuga á að læra meira og skilja meira.
Endilega kíkið á textann og ekki hafa áhyggjur af að hann sér torskilinn, það er víst. En það ætti samt ekki að vera erfitt að lesa sig í gegnum hana og skilja einlægnina og gamansemina í sögunni.
6.6.2007 | 19:02
Liadan og Cuirithir; írsk ástarsaga frá 9.öld
Ég snaraði þessari sögu á íslensku frá ensku í gærkvöldi og kláraði hana í dag. Ég er bara nokkuð stolt af mér, þrátt fyrir að þetta er stutt saga. Ég þýddi hana frá ensku, því það tekur styttri tíma fyrir mig en ef ég hefði ráðist á frummálið. Sem betur fer veit ég að sá sem þýddi þessa sögu, Kuno Meyer, fór nokkuð vel eftir upprunalegu handriti þegar hann vann við þýðinguna (árið 1902) og get því verið nokkuð viss um að fylgja sögunni réttilega eftir. Aftur á móti veit ég að þessi þýðing væri mun betri ef ég hefði hellt mér í frummálið strax. En það verður að bíða betri tíma. Þetta er önnur útgáfa af sögunni en ég þekki, t.d. þetta er yngri útgáfa, en er þó álíka. Þetta virðist vera mjög langt en vegna þess að það eru ljóð út um allt í sögunni þá er þetta frekar fljót lesning.
Liadan frá Corco Dubne, skáldkona, fór í heimsókn til Connaught. Þar var Cuirithir sonur Doborchú (otur), frá Connaught. Hann var sjálfur skáld og útbjó hann veislu handa henni.
Af hverju ættum við ekki að gefast hvort öðru, Liadan? sagði Cuirithir. Sonur okkar yrði frægur.
Við skulum ekki gera það, sagði hún, það myndi eyðileggja heimsókn mína hingað. Ef þú kemur til mín, þegar ég er heima, þá skal ég fara með þér.
Þannig varð það. Hann fór suður, og einungis einn þjónn á eftir honum með skálda-skikkjununa í poka á baki hans, á meðan var Cuirithir sjálfur klæddur tötrum. Og að auki voru spjótsoddar í pokanum. Hann hélt áfram þangað til hann kom að brunni nálægt hirð Liadan. Þar sveipaði hann fagur rauðri skikkjunni um sig, og voru oddarnir settir á spjótin og hann brá þeim fyrir sig.
Þá sá hann Mac Da Cherda nálgast, fíflið, sonur Maelochtraig, sonur Dinertach frá Dessi í Munster. Hann fór þurrfóta jafnt sem yfir sjó og lönd. Hann var höfuð skáld og fífl alls Írlands. Hann fór til Cuiritihir. Gaman að hittast hérna, sagði Mac Da Cherda.
Það er það, sagði Cuirithir.
Er þetta hirðin þín?
Ekki mín, sagði Cuirithir; hvaðan ertu sjálfur?
Ég er vesalings fíflið frá Dessi, Mac Da Cherda er nafn mitt.
Við höfum heyrt af þér, sagði Cuirithir. Er þú á leið til hirðarinnar?
Það er ég, sagði hann.
Gerðu mér greiða, sagði Cuiritir. Hávaxna konan sem þar er, segðu henni með viti þínu, að koma hingað að þessum brunni.
Hvað heitir hún?
Liadan.
Hvert er þitt?
,Cuirither Doborchú (Oturssonur).
Allt í lagi, mælti hann.
Hann fór inn í húsið. Hún var þar fyrir í svefnherbergi sínu ásamt fjórum öðrum konum. Hann settist en enginn tók eftir honum. Það var þá sem hann sagði:
1)
Höfðingjasetrið
Sem máttarstólparnir styðja -
Ef einhver hefur mælt sér mót,
Boðið stendur til sólseturs.
2)
Tímanlega ættuð þér að mæta,
Ó, brunnur sem ert fyrir utan húsið,
Umhverfis er lævirkinn
Fagur, hikandi (?), hefjandi flug.
3)
Myrkur fellur á augu mín,
Ég gef ekkert merki (enga vísbendingu)
Þess vegna kalla ég Liadan (Gráa lafðin / konan)
Allar konur sem ég þekki ekki.
4)
Ó, fótfráa kona
Líka þinn til mikillar frægðar hef ég ekki fundið:
Undir hulu nunnu mun ekki þekkjast
Kona vitrari.
5)
Sonur dýrsins
Sem dvelur á kvöldum í laugum
Bíður þín,
Ljós-gráir fætur með hvössum oddum styðja hann.
Eftir þetta fer hún með Cuirithir, og gengust undir andlega leiðsögn Cummine hins hávaxna, son Fiachna. Gott, sagði Cummine. Það eru margir bitarnir mínir sem í boði eru. Máttur sálufélaga er ykkar. Hvort sem það er fyrir ykkur að horfa, eða tala saman?
Samtal fyrir okkur! sagði Cuirithir. Það mun leiða af sér betri hluti. Við erum búin að horfa á hvort annað.
Þannig að í hvert sinn sem hann fór hjá legsteinum dýrlinganna, þá var klefa hennar lokað. Á sama hátt var klefa hans lokað þegar hún fór um. Það var þá sem hún sagði:
[Liadan]
1)
Cuirithir, einu sinni skáld,
Ég elskaði; ávinningur þess hefur ekki borist mér:
Kæri herra tveggja grárra fóta
Það mun vera því miður að vera án þeirra félagsskapar að eilífu.
2)
Syðri hellusteinninn við bænahúsið
Þar á sem hann áður var skáld,
Þangað fer ég á hverjum degi,
Að kvöldi, eftir að bænin sigrar.
3)
Hann skal ekki fá kú
Né kvígu né kálf,
Aldrei skal maki vera
Á hægri hönd þess sem einu sinni var skáld.
[Cuirithir segir:]
4)
Ástkær er röddin sem ég heyri
Ég þori ekki að fagna henni!
Þetta eina segi ég:
Ástkær er þessi kæra rödd!
Mælir konan þá:
5)
Röddin sem berst mér gegnum vegginn úr tágafléttum
Það er rétt af henni að álasa mér:
Það sem röddin gerir mér, er
Hún leyfir mér ekki að sofa.
[Hún ráðfærir sig við Cummine og er sök af sjálfri sér].
6)
Þú maður, illt er það sem þú gjörir
Að nefna mig við Cuirithir:
Hann frá brún Lough Seng,
Ég frá Kil-Corchinn.
Sofið saman í nótt! sagði Cummine, og látið prest lærling sofa á milli ykkar svo að þið fremjið engin heimskupör. Það var þá sem Cuirithir sagði:
1)
Ef það er ein nótt eins og þú segir
Sem ég á að sofa hjá Liadan
Leikmaður sem mun sofa þá nótt
Myndi gera mikið úr því ef hann hefði ekki gleypt við því.
Það var þá sem Liadan sagði:
1)
Ef það er ein nótt eins og þú segir
Sem ég á að sofa hjá Cuirithir
Þó að við gæfum því ár
Þá munu vera samræður á milli okkar.
Þau sofa saman þá nótt. Um morguninn var ungi drengurinn færður til Cummine til að athuga ástand sálar hans og samvisku.
Þú mátt ekki leyna neinu, sagði Cummine; Ég mun annars drepa þig.
Honum stendur á saman þótt hann deyi: - Ég mun drepa þig ef þú kjaftar.
Eftir þetta er Cuirithir sendur til annarrar kirkju. Það var þá sem hann sagði:
1)
Undanfarið
Síðan ég varð viðskilja við Liadan
Langur sem mánuður er einn dagur
Langt sem ár er einn mánuður.
Liadan mælir:
2)
Ef Cuirithir er í dag
Farinn til fræðimannanna,
Vei því viti sem hann mun deila
Með hverjum þeim sem ekkert veit!
Cummine mælir:
3)
Það sem þú mælir er ekki gott
Liadan, eiginkona Cuirithir
Cuirithir var hér, hann var ekki vitlaus
Frekar en hann var áður en hann kom.
[Liadan vísar á bug orðinu eiginkona.]
4)
Þann föstudagur
Það voru engar búðir í beitarlandi af hunangi,
Á reyfi míns hvíta fleti
Milli armanna á Cuirithir.
Hann fór samt sem áður í pílagrímsför þangað til hann kom til Kil-Letrech í landi Dessi. Hún leitaði hann uppi og sagði:
1)
Dapurt
Það kjarakaup sem ég hef gert!
Hjarta þess sem ég elskaði ég kramdi
2)
Það var brjálæði
Að vilja ekki nautn hans
Væri það ekki af ótta við Konung himnanna.
3)
Til hans, vegurinn, sem hann óskaði
Var mikill ávinningur
Að fara framhjá pínu helvítis inn í Paradís.
4)
Þetta var lítilræði
Sem kramdi hjarta Cuirithir að mér:
Blíða mín til hans var mikil.
5)
Ég er Liadan
Sem elskaði Cuirithir
Það er satt sem þeir segja.
6)
Í stuttan tíma ég var
Cuirithir til samlætis
Innilegt samband mitt við hann.
7)
Tónlist skógarins
Söng til mín þegar ég var með Cuirithir
Saman með rödd rauða hafsins.
8)
Æskilegt væri
Að hvað sem ég gæti gert
Myndi ekki kremja hjarta Cuirithir að mér!
9)
Leynið því ekki!
Hann var ást hjarta míns,
Ef ég elskaði annan hvern.
10)
Öskrandi logi
Leysti upp þetta hjarta mitt
Hvað sem því líður, áreiðanlega mun það hætta að slá.
En hvað hún hafði kramið hjarta hans í flýti sínu að gerast nunna. Þegar hann heyrði að hún var að koma að vestan, þá fór hann um borð í bát út á sjó, og fór til framandi landa og pílagrímsför, svo að hún sá hann aldrei framar. Hann er farinn núna! sagði hún.
Hún dvaldi á hellusteininum sem hann var vanur að biðja á, þangað til hún lést. Sál hennar fór til himna. Og hellusteinninn var lagður yfir andlit hennar.
Svona fór um stefnumót Liadan og Cuirithir.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 19:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)