Hef eitthvað alveg rosalega lítið að segja

En ákvað að láta vita af mér.  Það verður að segjast að ég hef það bara nokkuð ágætt eins og er.  Fyrir utan smá "riðuveiki" kast á síðasta mánudag þar sem ég endaði hjá heimilislækni.  Fyrir þá sem ekki vita þá fékk ég fyrir um ellefu - tólf vikum síðan það sem kallast Benign Positional Vertigo, og engin ástæða vituð af hverju.  En þetta þýðir að ég upplifa svimaköst, þar sem það skiptir litlu máli hvort ég eða umhverfið erum bæði still og kjur þá er allt á fleygiferð og ég næ ekki að ná neinum föstum punkti til að einblína á til að kjurra mig.  Þetta var verst fyrstu dagana þá mátti ég varla standa upp, leggjast út af eða annað og hvað þá að ferðast með bíl, þá fór ég í þessar litlu "flugferðir" sem gátu staðið í þó nokkrar mínútur og þegar verst lá við í nokkra klukkutíma eða heila daginn.  En upp á síðkastið eða síðan ég kom heim frá Glasgow hafa þessar litlu flugferðir látið mig í friði, þangað til á mánudaginn.  Svo slæmt að ég fór ekki í vinnuna og þótt ég næði að sofna aftur þá var ég ennþá með svima þegar ég vaknaði, svo að mamma dreif mig upp á heilsugæslu þegar tími losnaði.  Ég var nokkuð á því að það væri ekkert hægt að gera og þetta væri bara ennþá í gangi og lítið við því að gera en mamma þrjóskaðist samt við og hafði sínu fram og sendi mig inn til læknisins.  Hann leit yfir "riðuveiki-ferilsskránna" mína og fór svo að skoða mig í bak og fyrir.  Svo ákvað hann að athuga hvort að þetta væri nú ekki örugglega BPV, þannig að hann tók um hausinn á mér og hreyfði hann í þrjár mjög snöggar hreyfingar og svo átti ég að fókusa, en þetta hafði þau áhrif að mér fannst ég vera farþegi í þvottavél og það lá við að ég kastaði upp á aumingja lækninn.  Hann var ekki aldeilis ánægður með hversu svæsin viðbrögðin voru eftir svona langan tíma og ráðlagði mér að hafa samband við háls-nef-og eyrnalækni sem sérhæfir sig í svona svimatilfellum, þannig að nú þarf ég bara að bíða fram í lok ágúst til að komast til hans.  Það er vona að hann geti einmitt gert svipað og heimilislæknirinn gerði með snöggum hreyfingum til að framkalla svimann, til að stöðva hann fyrir fullt og allt eða til að sporna við því að ég fái fleiri köst.  En þessar snöggu hreyfingar eru meðal þeirra lækninga sem notuð eru við svona stöðusvima eins og það heitir á íslensku.

Það einkennilega er að miðað við að ég hef ekki verið að fá riðuveiki undanfarið þá fékk ég sem sagt þetta á síðasta mánudag og svo annað núna í gær (mánudag), ef ég vissi ekki betur héldi ég að ég væri með mánudagsveiki (nema fyrir þær ástæður að ég hef ekkert verið að drekka yfir helgina).  Ég bara vona endilega að ég fari að koma inn til lendingar og hætti þessum flugferðum.  Ég er að fara í flug í september og hef eiginlega ekki neina löngun í að fá tvær flugferðir á verði einnar þótt það væri góð tilbreyting á íslenskum viðskiptaháttum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Brynjar Jóhannsson

Hvað með að fara þá á hugmyndaflug í staðin ... ef þér langar að ferðast eitthvað...farðu þá bara með GOOGLE EARTH :d

Brynjar Jóhannsson, 31.7.2007 kl. 23:28

2 Smámynd: Lady Elín

Ef ég reyndi það fengi ég örugglega ímyndunarveiki ofan á allt annað.  En hver veit, kannski hrekkur þetta af mér ef hugurinn fer á flug.  Ég þarf alveg áreiðanlega að taka til í hausnum á mér hvort eð er áður en ég fer aftur út í nám.

Lady Elín, 1.8.2007 kl. 14:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband