Amma mín

Hefur þú einhvern tíman orðið fyrir því að amma þín hafi staðið í dyrunum á íbúð sinni skelfingu lostin og gráti nær yfir því að þú værir að fara frá henni og að um helgina yrði hún að sjá um sig alein og alls ekki fær um það.

Það eru yfir þrjú ár síðan að amma fór að tala um að eiga erfitt með að muna hluti og það eru yfir þrjú ár síðan að hún var greind með heilabilun sem er ekki ólík því hvernig Alsheimer virkar en á meðan hægt er að sporna við Alsheimer með alls kyns meðulum þá er ekkert hægt að gera fyrir ömmu. Amma býr í þjónustuíbúð, alla daga fór hún niður í matsal með matarmiða sem hún hafði með sér til að greiða fyrir matinn.  Þegar hún fyrst byrjaði að vera veik var hún sífellt að tönglast á hvar matarmiðarnir væru og hvort hún ætti nóg af þeim og þar fram eftir götunni.  Hún var sífellt að færa þetta á milli veskja og budda og kvartaði yfir að sjá þetta ekki þar sem sjónin væri farin að gefa sig líka.  Svona gekk þetta í lengri tíma og varð alltaf verra og verra. Fyrir um tveim árum síðan var það orðið svo slæmt að í samráði við lækna ákváðum við að sækja um hjúkrunarrými fyrir ömmu þar sem hún var hætt að ráða við svo marga hluti og var svo óörugg með allt líka.  Það þurfti að sitja yfir henni til að sjá til þess að hún borðaði og til þess að sjá til þess að hún tæki meðulin sín, því að annars gleymdi hún alveg að sjá um sig þannig.  Vegna þess að hún býr í Þjónustuíbúð fær hún til sín fólk sem hjálpaði henni að taka meðulin og að borða kvöldmat. Fyrir hádegismat þurfti hún að sjá um sig sjálf og fara niður í matsal ein. 

Við fyrstu hjúkrunarrýmis-umsókninni þá fengum við neitun, það átti að virkja betur félagsþjónustuna í Þjónustuíbúðinni hennar áður en nokkuð annað yrði gert fyrir hana.

Félagsþjónustan sem ömmu var boðið er sú að hún fékk að fara í dagvist á staðnum, fékk aðstoð við að baða sig og á kvöldin þegar hún kom heim kom einhver til hennar og sá til þess að hún borðaði og tæki meðulin sín.  En um helgar var konan skilin eftir alein og þurfti enn að sjá um að hún færi með matarmiða með sér niður í matsal til að fá mat.  Á þessum tíma þegar við komum til hennar voru samtöl okkar eins og biluð plata og við vorum endalaust að fara yfir sömu atriði með henni, hún mundi ekkert.  Hún mundi ekki einu sinni hvað hálfs-árs gamalt langömmu barn sitt hét.

Það er fyrir um ári síðan að við fengum fyrst hvíldarinnlögn fyrir hana, og ekki síst fyrir móður mína sem þörf var á þessu.  Amma var mjög sátt og vildi helst ekki fara heim þar sem hún væri ein og þyrfti enn að standa í því að framkvæma hluti sem hún var ófær um en enginn spurði hana hvort hún mögulega gæti það.  Hún bara varð að standa sig. 

 Við pössuðum alltaf að hún ætti nóg að borða og drekka og komum reglulega til að smyrja fyrir hana brauðsneiðar sem voru tilbúnar fyrir kvöldmatinn. Fyrir helgarnar sáum við til þess að í litlu buddunni hennar væru matarmiðar og allt væri á sínum stað svo að hún þyrfti ekki að hafa áhyggjur af matarmálum, fötum eða neinu öðru.  En þegar þú manst ekki mínútu aftur í tímann þá er erfitt að taka burtu áhyggjur af því sem þú þarft að muna og gera.

 Við sóttum um dvalarrými fyrir hana og þá eftir nokkra mánuði fengum við jákvætt svar.  Nema hversu jákvætt er það þegar verið er að fækka fjölbýlum og fjölga hjúkrunarrýmum en éta upp öll dvalarrými á meðan.

Við fengum hvíldarinnlögn fyrir hana aftur í haust og var það mömmu minni mikill léttir, þar sem hún er bæði að berjast við veikindi sín og pabbi var á sjúkrahúsi og búinn að vera þar meira og minna allt sumar.  Á þessum tíma var aftur sótt um hjúkrunarrými en aftur fengum við neitun.  Ástæðan er eiginlega einföld og allt of kaldhæðnisleg til að hægt sé að taka því með góðu.  Hún fær ekki vistunarmat fyrir hjúkrunarrými af því að hún býr í Þjónustuíbúð!

Sama hversu slæm hún er þá fær hún ekki að komast í það öryggi sem fylgir að vera á dvalarstað.  Hún getur ekki lengur klætt sig, hún er algerlega ófær um að komast í matinn um helgar, fær hann sendan til sín en af því að það er enginn hjá henni þá borðar hún hann ekki heldur setur hann pent inn í ísskáp og gleymir honum þar! Hún man varla nöfnin á barnabörnunum sínum eða nánustu aðstandendum. Hún man ekki hvort hún er búin að borða eða fá lyfin sín. Hún bankar upp á hjá nágrönnum sínum til að biðja þá um að sjá og finna hluti fyrir sig. Hún tætir fram buddur í tugavís og færir smápeninga á milli í gríð og erg án þess að vita hvers vegna.

Amma hefur alltaf verið pjattrófa og vís á klæðnað en núna sér hún ekkert og man ekkert hvar hún setti fötin, og þó að fötin séu tekin til fyrir hana þá er hún vís með að fara í allt annað og rugla öllu saman upp á nýtt.  Hún vaknar á nóttunni og veit ekki hvað klukkan er og ráfar um í myrkri að finna út hvað tímanum líði. Hún fer niður í anddyri til næturvarðarins og þráast við því að hafa ekki fengið meðulin sín og þar fram eftir götunum.  Er þetta öryggi og ummönnun sem við viljum að amma okkur búi við.  Nei! En valdið er í höndum vistunarmatsnefndar og við því fáum við engu ráðið.  Sama hvernig ástandið er hjá ömmu, fjölskyldu minni og gegn ráði lækna og annarra sem koma við í ummönnun ömmu þá er svarið alltaf nei!  Af því að hún er í þjónustuíbúð!  Eins og það sé lausnin, en í dag er það ekki lausnin sem amma biður um.  Nei, hún vill frekar deyja heldur en að vera skilin eftir eins og hún er. Það er ekkert hræðilegra en að heyra í ömmu þinni þar sem hún situr á móti þér, algerlega umkomulaus, óskandi þess að Guð taki hana til sín fyrr en seinna þar sem henni finnst hún ekki ráða við lífið lengur og enginn vill hlusta á hana.  Það að búa í þjónustuíbúð getur verið hreint helvíti á jörðu! Það er það fyrir ömmu mína.

 Ps. Ef þið eruð að velta fyrir ykkur hvar við erum í öllu þessu þá gerum við það sem við getum. Móðir mín er ófær um margt í dag sökum ýmissa veikinda undanfarin ár sem hafa verið að ágerast, en hún lætur það ekki stöðva sig. Faðir minn er nýkominn inn á dvalarrými vegna þess að parkinssons veikin hans hefur ágerst herfilega síðan í sumar og hann er ófær um margt. Og ég er erlendis í námi að naga á mér handabökin af áhyggjum út af fjölskyldu minni.


mbl.is Stjórnvöld kanna hvort vistunarmatið sé of strangt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það þarf að endurgera 'Confessions of a Shopaholic'

Hvers vegna er alltaf verið að tönnlast á því að konur séu verslunaróðar.  Lítið í kringum ykkur.  Ég held að það séu karlarnir í stóru fyrirtækjunum sem hafa verið á verslunarfylleríi ef eitthvað er.  Það er alltaf verið að segja að heimurinn væri ekki svona slæmur ef konur fengju meiri völd.  Hmmm, ég held að ef tölur væru lagðar saman um hvað fer í eintómt shjopperí hjá konum (þá meina ég allt sem fellur ekki undir að kaupa matvæli og nauðsynjar), þá held ég að kallarnir fengju verðlaunin!  Og það skammarverðlaun í þetta sinn. 

Þegar við förum út að versla og förum í svokallað 'retail therapy' komum við kannski heim með pils og skó í stíl, en við komum ekki heim með heilu búðina!!!  Já já, Jón Ásgeir og fleiri voru 'að fjárfesta' eða 'festa kaup á' eða 'eignast' verslanir og fyrirtæki út um víðan heim.  Hvernig eignast maður óvart einhverja verslun, jú maður kaupir hana er það ekki?  Tvískinnungur og hræsni einkenna heiminn í dag, konur eru kaupóðar af því að þær koma heim með poka sem í er flík, á meaðn karlinn röltir rólega heim á leið með krítarkort í vasa of finnur ekkert fyrir þyngdinni af Topshop/Miss Selfridge / Oasis (guð það er ekki hægt að nefna neina verslun sem Jón Ásgeir á ekki ... eða átti réttara sagt) sem hann var að kaupa fyrr um daginn.  Hann var að vinna fyrir heimilinu á meðan hún var að spandera peningunum sem hann/hún vann svo mikið fyrir.

Síðan ég byrjaði í námi hérna í Skotlandi hef ég verið að versla við fleiri íslensk fyrirtæki en skosk / ensk.  Hvert sem ég fer ... fyrir utan Boots!!!

Iceland, Lakeland, Bear Factory, Frasers, Hamleys, Miss Selfridge, Topshop, Topman, Oasis, Karen Millen ... listin heldur áfram og nóg var af að taka. (Og ég veit Jón Ásgeir og co áttu ekki allar þessar verslanir (kannski flestar en ekki allar), en þau fyrirtæki nefnd hérna voru í eigu íslenskra eiganda á einum eða öðrum tímapunkti).  Það munaði líka minnstu að Íslendingar eignuðust Woolworth's, það liggur við að ég hefði vonað að svo hefði orðið ef það hefði forðað Woolies frá falli, en aftur á móti var ég fegin að Íslendingar eignuðust hana ekki.  En það er gríðarleg eftirsjá af Woolies.  Núna veit ég ekkert hvert ég á að fara til að shjoppa (fyrir utan matvæli og nauðsynjar!!!).

Góða fréttin í dag var samt að einhvers staðar í Bretlandi (var ekki að fylgjast svo vel með fréttunum) að það er búið að opna eina af gömlu Woolworth's búðunum, undir nýju merki, Wellworth's og nú vona ég bara að það vaxi og dafni og nái upp til Glasgow bráðum.

Þannig að ég legg til að þeir endurgeri myndina 'Confessions of a shopaholic' eða geri svona mocku-mentary / documentary um alsherjar fall efnahagsins í heiminum.  Held að karlarnir væru í aðalhlutverki í þeirri mynd!!!


Ráðstefna í St. Andrews

Ég skellti mér á ráðstefnu um helgina, umfjöllunin var ,Anglo-Saxon Scotland'.  Hugsanlega hefði ég ekki farið nema fyrir tilstillan þess að Háskólinn minn í Glasgow ákvað að borga fyrir okkur brúsann af að fara.  Þannig að ég og Catriona ákváðum að skella okkur til St. Andrews og sáum sko ekki eftir því, þrátt fyrir að vera dauðuppgefnar þegar við komum loksins til Glasgow í gærkvöldi.  Sjálf ráðstefnan var á laugardaginn en kvöldið áður var haldinn hálfgerður opnunar fyrirlestur fyrir sjálfa ráðstefnuna.  Svo að við lögðum af stað snemma á föstudag, til að eiga smá stund til að skoða okkur um í St. Andrews áður en við helguðum okkur ráðstefnunni.

Notuðum tækifærið þegar við komum til St. Andrews í að leika túrista og eftir að hafa fengið okkur að borða héldum við í átt að St. Andrews Cathedral, sem er ein af mínum uppáhalds rústum.

IMG_5074 IMG_5092 IMG_5122 IMG_5100

Þar sáum við einnig St. Andrews sarcophagus og St. Rules (Regulus) tower (c. 11. - 12. öld), sem er einna elsti ferkanntaði klaustur turn í Skotlandi og mjög merkilegur fyrir vikið.  Við klifruðum meira að segja alla leið upp turninn og útsýnið var vægast sagt frábært.

 Fyrsti fyrirlesturinn, The Anderson Memorial Lecture, var haldinn Föstudagskvöldið 20. febrúar, til heiðurs Marjorie Anderson.  Fyrirlesarinn var Professor Nick Higham og var frekar undeildur í umræðu efni sínu.  Ég hafði fengið þær slúðurfréttir fyrir ráðstefnuna að ekki voru allir sem stóðu að sjálfri ráðstefnunni ánægðir með að hann yrði fyrir valinu sem opnunar ræðuhaldari, en eftir á að hyggja tel ég að það hafi verið frekar viturlegt.  Því miður var umræðuefni fyrirlesturs hans frekar úrelt og má með sanni segja að flestir hafi orðið undrandi á því hversu aftarlega á merinni hann var með margt sem fram kom.  Catriona og Dauvit Broun minntust á það seinna að þetta hefði verið eins og að detta þrjátíu ár aftur í tímann og að enginn heilvita maður héldi lengur það sem hann hélt fram í fyrirlestrinum.  Ekki furða að Alex Wolf væri mótfallinn því að fá hann sem fyrirlesara.   Eftir fyrirlesturinn var okkur boðið til smá samsætis.  Boðið var upp á rauðvín, hvítvín og gos, og ekki nóg með það, þá var líka boðið upp á whiskey, þar sem ráðstefnan var í boði Glenmorangie whiskey-framleiðanda.  Þeir voru sko ekki nánasarlegir við skenkingu drykkja þarna og flæddi vínið um glösin, og ekki var það síðra þegar kom að whiskeyinu. 

Daginn eftir byrjaði ráðstefnan stundvíslega klukkan tíu.  Þá var mæting og skráning og einnig gafst kostur á að sjá, skoða og kaupa bækur og rit sem tengdust efni ráðstefnunnar og höfðuðu til okkar.  Þar á meðal komst ég yfir fágætt eintak af ECMS (Early Christian Monuments of Scotland) eftir J. Romilly Allen og Joseph Anderson, og það fyrir fyrirtaks verð.  Hálftíma síðar var okkur smalað inn í fyrirlestrarsalinn og fjörið hófst.  Fyrsti fyrirlesari var Professor Barbara Yorke frá Háskólanum í Winchester og fjallaði hún um 'Scottish Northumbria' as an Anglo-Saxon Province', þar á eftir hélt Dr. David N. Parsons frá Háskólanum í Wales fyrirlestur um 'Place-names of the Southwest revisited' sem var mjög svo áhugavert.  Þetta voru tveir 50 mín langir fyrirlestar og að þeim loknum var komið að hádegisverði. 

Þeir buðu upp á mjög veglegan hádegisverð, samlokur, kjúklingaspjót, kökur og ávaxtaskálar ásamt rauðvíni eða hvítvíni.  Svo var komið að næsta skammti af fyrirlestrum, þar var komin Alice Blackwell frá Museum of Scotland, fyrirlesturinn hennar var 'Reassessing the Anglo-Saxon material culture from Scotland', þetta er í annað sinn sem ég heyri svipaðan fyrirlestur frá henni og ég er alltaf jafn hrifin.  Hún fjallaði um fund á glerperlum, nælum og pinnum og hvert notagildi og menningarlegt gildi þessir fundir hafa.  Virkilega áhugavert.  Á eftir henni kom svo Dr. Nicky Toop, Field Archaeology Specialist frá York, og verð ég að viðurkenna að ég var ekki hrifin af fyrirlestri hennar um 'Northumbrian Monuments in Southern Scotland: carving a Christian territory', fannst hún stóla um of á verk annarra án þess að virðast hafa mikið vit á því sem hún fjallaði um sérlega sjálf.  Fyrir vikið virkaði þessi fyrirlestur eins og hálf illa klárað verk.  En nú var komið að kaffihléi.

Það var heldur ekki hægt að setja neitt út á vel útbúið kaffihlaðborðið sem þeir buðu okkur uppá.  Te og kaffi var á boðstólnum en fyrir aðra var einnig aðgengi að sjálfsölum sem buðu upp á gos og safa.  Þarna var hægt að fá alls kyns kökur, rískökur, svampkökur, og fleira og ekki nóg með það, það var líka boðið upp á skonsur með rjóma og sultu!  En núna var farið að líða á ráðstefnuna og næstu fyrirlesarar voru ekki af síðri endanum.  Fyrstur var sjálfu Alex Wolf frá Univeristy of St. Andrews og hélt hann stuttan fyrirlestur um 'The Saints of Anglo-Saxon Scotland', ég er alltaf til í að hlust á fyrirlestra um dýrlinga og það var hrein unun að heyra hann fara með línur úr Anglo-Saxon ljóðinu 'Sæfarinn'.

Hwilum ylfete song
dyde ic me to gomene,      ganetes hleoþor
ond huilpan sweg      fore hleahtor wera,
mæw singende      fore medodrince.
Stormas þær stanclifu beotan,      þær him stearn oncwæð
isigfeþera;      ful oft þæt earn bigeal,
urigfeþra;      ne ænig hleomæga
feasceaftig ferð      frefran meahte.
Forþon him gelyfeð lyt,      se þe ah lifes wyn
gebiden in burgum,      bealosiþa hwon,
wlonc ond wingal,      hu ic werig oft
in brimlade      bidan sceolde.

 Þar á eftir kom Erlend Hindmarch fornleifafræðingur frá AOC og fjallaði um 'New Discoveries from Auldhame' þar sem þeir höfðu unnið við fornleifafræði rannsóknir á grafreit sem var aldursgreindur seint um 8. öld en var í notkun vel fram yfir 15. öld.  Þegar hér var komið sögu var ráðstefnan að lokum komin og féll það í skaut Dr. Dauvit Broun frá University of Glasgow (og prófessorinn minn meðal annars) að flytja lokaorðin, þakka fyrir og kveðja.  Nú er bara að bíða eftir árinu 2011 þegar næsta ráðstefna er plönuð. Allt í allt var þetta afbragðs ráðstefna og skemmtum við okkur mjög svo vel.

 


Síðasta úrræði fyrir suma

Þeir bara gleyma því að þetta er oft síðasta úrræði sem fólk hefur þegar það getur hreinlega ekki verið heima lengur en kemst ekki að inni á hjúkrunar og elliheimilum.  Það er alls ekki auðvelt að fá vistunarmat fyrir fólk í dag, alveg saman hvað amar að þeim eða aðstandendum þeirra.  Það á alltaf að reyna á allt fyrst og sama hverju er lofað þá er aldrei staðið við það fullkomlega.  Amma er með heilabilun sem gerir það að verkum að minnið er orðið hroðalega gloppótt, hún sér orðið illa og hefur litla tilfinningu í fingrum þannig að taka meðul, sem oft eru voða litlar pillur getur verið erfitt.  Þó hún fái reglulegt innlit til sín vegna meðalatöku og annars þá kemur það ansi oft fyrir að við finnum pillurnar hennar á gólfinu, þannig að ekki er þessi hjálpa alltaf að skila sér.  Þrekið er farið og jafnvel þó að við hringjum í hana og minnum hana á að fá sér kvöldmat, þá er voðalega oft að hún gleymi því, því minnið gefur sig um leið og eitthvað er sagt við hana.

 Á meðan það eru ekki til nægileg rými á elli-og hjúkrunarheimilum til að taka við þeim sem ekki geta lengur verið einir heima hjá sér, þá er ekki sniðugt að loka þeim deildum sem mjög margar fjölskyldur reiða sig á að geta leitað til með ættingja sem þarfnast meiri ummönnunar en þeir geta veitt.  Sérstaklega þar sem af eigin reynslu þá veit ég að þessi heimahjúkrun og hjálp er ekki nóg, því þarfir fólks eru oft mismiklar og mismunandi og það mun aldrei vera hægt að koma til móts við þær allar, mannlega væri ekki hægt að ætlast til þess með þeim stuttu innlitum sem eru í gangi. 

Einnig í sambandi við ömmu mína þá sérlega, þar sem hún býr ein, þá er hún farin að finna mikið fyrir óöryggi í sambandi við það að vera svona ein og þá sérlega á nóttunni.  Er bara allt í lagi að leyfa fólki að húka heima hjá sér skíthrætt við að vera eitt og geta varla sofið, ruglast á meðulum og hvort einhver hefur komið að sinna því eða ekki, eða að vera á stað þar sem fjölskyldumeðlimir ekki síst vita að hún er í öruggu umhverfi þar sem einhver er alltaf á vakt ef eitthvað kemur upp á. 

Ég er alveg fylgjandi því að leyfa fólki að vera heima hjá sér eins lengi og það getur, en þegar sá tími kemur að það er ekki lengur hægt, þá verður að vera eitthvað sem tekur við þeim vanda.  Ég veit að ef móðir mín væri líkamlega fær um að hugsa um ömmu mína þá væri þetta ekki eins mikið vandamál og hún væri jafnvel búin að færa ömmu heim til okkar, en það er bara ekki möguleiki í stöðunni.  (Og áður en ég fæ einhverjar ábendingar af hverju ég geri ekki neitt, þá bendi ég á að ég er stödd í Glasgow og get lítið annað en fylgst með úr fjarlægð og þeim skiptum sem ég er stödd á landinu yfir hátíðir).


mbl.is Deildum lokað á Landakoti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vonandi stendur hún undir væntingum!

Er einmitt búin að vera að horfa á A-Team seríuna og skemmti mér konunglega yfir henni.  Þetta eru þættir með afbragðshúmor og ég algjörlega elska 'Howling Mad' Murdoch.  Star Trek aðdáendur ættu að þekkja hann einmitt sem Lt. Barkley úr Next Generation of Voyager seríunum.

Þetta eru auðvitað frekar gamaldags þættir og snúast helst um að bjarga 'dömum úr klípu'.  Ef einhver hefur verið að fylgjast með nýjum seríum á bandaríkjamarkað má líkja þessum þáttum við Leverage.  Efast ekki um að A-Team þættirnir voru fyrirmyndin.

 Ein uppáhalds setningin mín úr þessum þáttum: er þegar B.A. er að missa sig yfir látalætunum í Murdoch

B.A. 'You're nuts, Murdoch'!

Murdoch: 'No, I'm condiments.  I've been promoted!'


mbl.is Ridley Scott hyggst endurgera A-Team
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Keltar eða ekki Keltar, Víkingur eða ekki Víkingur?

Kannski er ég búin að koma mér í klandur og kannski ekki, það kemur í ljós á þriðjudag.  Ég er nefnilega búin að ganga til liðs við lestarhóp í skoskum miðaldarfræðum og það á eflaust eftir að reynast áhugavert.  Fyrsti fundurinn er á þriðjudag og var ég núna áðan að ljúka við að lesa greinina sem sett var fyrir.  'Ethnicity and the Writing of Medieval Scottish history' eftir Matthew H. Hammond.  Virkilega vel skrifuð grein í alla staði og er verulega yfirgripsmikil og nær að fjalla ítarlega um efnið án þess að teygja lopann of. 

Hann byrjar umfjöllunina um hvernig sagnfræðingur og aðrir áhugamenn litu á og fjölluðu um miðaldir í skrifum sínum frá um 1880 og heldur áfram allt til dagsins í dag.  Það er óhætt að segja að margt hefur breyst á þessum 130 árum.  

Það sem hún fjallar þó sérlega um og er rauði þráðurinn í gegnum alla greinina er hvernig við getum 'flokkað' eitt eða neitt sem Kelta eða keltneskt.  Þetta er viðkæmt mál fyrir marga sagnfræðinga, sérstaklega þar sem orðið Kelti (eða Celt) er orðið svo vinsælt í 'fræðum' sem eiga lítt skylt við sagnfræðina.  Við lestur á þessari grein kemur óneytanlega upp í huga mínum orðið Víkingur og má með sanni segja að ég stend í glímu um einmitt sama hugtak þar.  Alveg eins og með Keltana og hugtakið Kelti þá er hvernig minnst á hugtakið Víkingur, heldur er það nútíma uppfinning.  Hugtak sem komst í tísku þegar sagnfræði snérist um að 'flokka' kynkvíslir og ættflokka Evrópu.  Nokkuð sem ég er sannfærð um að hafi komist í tísku vegna áhrifa af bók Charles Darwin 'Origin of species' það er allavegana nokkuð ljóst að nokkrir sagnfræðinganna sem minnst er á í þessari bók hafi komist í tæri við þá kenningu og seinna meir orðið fyrir meiri áhrifum af skrifum Francis Galton, frænda Charles Darwin, um eugenics

En svo ég skipti aftur yfir til hugtaksins Víkingar þá er ég ein af þeim sem er ekki sátt við notkunin á þessu hugtaki.  Orðið Víkingur eða Víkingar er komið af sögninni 'að fara í víking' og lýsir athöfn sem fæstir 'Víkingar' tóku þátt í.  Það hefur verið sýnt fram á og sannað af ótal færum sagnfræðingum og viðhorf sem er sífellt að færast í fang með.  Þess vegna hefur mér funndist þessi 'flokkun' ekki viðeigandi og væri kannski tími til kominn að endurskoða þetta hugtak eða hvers vegna okkur finnst nauðsynlegt að 'flokka' ákveðna hópa undir einhverju heiti sem virðist lítið hafa með þá að gera.

Þó ég fari ekki lengra með umræðuna hérna núna, þá er ég alls ekki hætt að fjalla um hvorug tveggja.  Kannski eftir Þriðjudagsfundinn hef ég eitthvað fleira fram að færa í sambandi við þessar hugrenningar mínar og/eða greinina sjálfa. 


Af hverju ESB, frekar bara ÍSB

Disclaimer:  ég er brjálæðislega veik og ekkert endilega að meika mikið sens, þannig að takið eftirfarandi pistli með fyrirvara.

Ég vil alls ekki að Ísland gangi í ESB PUNKTUR OG BASTA.  Og þetta er ekki eins og þegar ég sagði að ég vildi aldrei fara til Ameríku og aldrei aldrei til Flórída og var svo farin þangað tæplega ári síðar.  Þetta meina ég heilshugar.  En þar sem það er svona mikil umræða um þetta þá ákvað ég að henda mér út í djúpulaugina og koma með nokkrar órökstuddar en framúrstefnulegar hugmyndir.  Í staðinn fyrir ESB af hverju ekki bara að ganga í ÍSB?

Hvað er ÍSB?  Sko, það á bara eftir að stofna það en það væri bara nokkuð sniðugt í staðinn fyrir að ganga í klúbb gamalla kalla í Brussel.  ÍslendingaSamBandið!!!  Jamm, við gætum boðið Færeyingum, þeir eru náttúrulega vinir okkar síðan þeir lánuðu okkur pening fyrir bíóferð.  Grænlendingar væru eflaust til líka, þeir vilja losna við Danmörku, við erum nærri þannig að við gætum verið eins og svona millibils ástand fyrir þá þangað til þeir afvatnast.  Svo þegar Skotland verður orðið sjálfstætt væri eflaust hægt að bjóða þeim í klúbbinn okkar.  Svo er England að reyna að losna úr viðjum óttans ... uuu, ESB og þar sem við eigum um helminginn af Englandi, fótbóltaklúbbana, matvöruverslanirnar og 'tískuvöruverslanirnar' (set það innan gæsalappa, ekki mikil tíska í gangi þar) þá er lítið eftir.  Það erfiðasta væri að fá þá til að taka upp krónuna en held að á endanum þá væri það bara samningsatriði.  Þeir fengju að halda drotningunni á enska krónuseðlinum en annars réði fiskurinn!!!  Ég geri mér nefnilega alveg grein fyrir að það á eftir að vera mjög erfitt fyrir þá þegar þeir loksins losna við gömlu kellinguna að skipta öllu þessu út fyrir nýtt fés, gjaldmiðill, frímerki, klósettpappír og fleira.  Það getur verið erfitt að segja bless við fortíðina og óþarfi að gera þeim erfiðara fyrir.  Annars er ekki mikill munur á drotningunni og þorskinum, nema þú sért svo heppinn að vera með gleraugu.

 Ef þið haldið að þjóðir eigi eftir að hafa litla trú á þessu ÍSB og vilja ekki ganga til liðs við okkur þá segjum við þeim bara að 'fara til ESB!' (nýjasta blótsyrðið í staðinn fyrir að segja 'farðu til fjandans').  Við gætum lagt norður Evrópu undir okkur og kynnt Bretum fyrir góðum mat!!!  Slegið tvær flugur í einu höggi.  Af hverju hefur engum dottið þetta snjallræði í hug.  Og á meðan þá gætum við kynnt Bretum fyrir alvöru húsum líka ekki bara pappakössum.  Blessaðir Bretarnir hafa alveg gleymt öllu sem heitir framför síðan 1944.  Þeir kunna ekki að byggja almennileg hús, þeir kunna ekki að elda, skrifræðið hér er verra en í Rússlandi. 

Veit ekki alveg hvað við gætum boðið Færeyingum upp á, hef bara heyrt að þeir séu svolítið 'lige glad' svo ég er ekkert að hafa allt of miklar áhyggjur af þeim.  Veit að þeir eru sniðugir líka og vilja losna við Danmörku.  Ekki furða að Danmörk er í nöp við okkur, fyrst fórum við og nú eru Grænland og Færeyjar að ybba sig við þá.  Svona væri þetta ef við færum í ESB, 'seen but not heard'!!!

Í ÍSB væru allar þjóðir sjálfstæðar, með sín eigin stjórnmál og völd, þeir hefðu bara einhvern góðan stað til að hittast á og halda fundi og skrallast með vínið fram á nótt.  Enhver af færeysku eyjunum kæmi eflaust til greina, þeir eiga nóg af þeim.  Svo geta þeir farið til Grænlands til að 'chilla' heheheh.  En það mætti skvísa inn nokkrum fyrirlestrum um ýmis málefni, mér finnst svo gaman á fyrirlestrum.  Það er alveg hægt að ánetjast þeim. 

Svo væri hægt að slaka á innflutningsgjöldum frá og til þessara landa, sem þýddi kannski ódýrara ísbjarnarkjöt frá Grænlandi (eða Íslandi eftir því hvernig viðrar), lambakjöti, vatni og sælgæti frá Íslandi, uuuu eitthvað frá Færeyjum, viskí frá Skotlandi og ... ... ... uuuu ... ... ... ... Jaffa Cakes !!! frá Englandi (guð hvað það var eitthvað djúpt á þessu).

Svona er hægt að halda áfram en ég ætla bara að bíða róleg eftir að hringt verði í mig um frekari viðræður um þetta samband.  Ég á eftir að útfæra þetta betur en það lítur vel út á pappír, sérstaklega bleikum.  Jæja, ég er farin að taka fleiri meðul.


Enginn bloggleiði bara leti

og ef það nægir ekki til að afsaka hversu sjaldan ég skrifa hérna þá er ágætt að kenna Facebook um.  Það er eins og alltaf nóg að gera hérna í Glasgow og mun seint lygna.  Bestu fréttirnar eru þær að eftir 13 daga mun ég útskrifast með M.Litt í Medieval Scottish Studies og þá komin með tvo mastera undir handlegginn.  Nú er það doktorsnámið sem á hug minn allann.  Er á kafi í forn írskum bókmenntum eins og venjulega, er að skoða texta sem er kallaður Bórama (borið fram Bórava) og fjallar um reikningsskil milli tveggja konungsríkja.  Deilan er nokkuð langrækin og liggur við að hún slái Íslendingasögunum við, þar sem þessi byrjar ca. 1. öld eftir Krist og stendur í um 6-700 ár.  Þetta er löng og ströng frásögn og af ýmsu að taka og ég á enn eftir að ákveða hvað ég mun helga næstu tvö og hált árið í að skoða ítarlega. 

Næst besta fréttin er svo að Jólamarkaðurinn fer að koma, byrjar núna á föstudaginn.  Þá er gaman að vera í Glasgow.  Ég og Catriona erum búnar að mæla okkur mót á morgun til að byrja gleðitímann.  Ég er búin að skipuleggja þetta allt saman.  Byrja á að fá sér grillað svínakjöt með kokteilsósu, salati og kartöflugratíni að hætti Þjóðverja.  Mulled wine til að fagna eða fanga jólaandann, hehehe og svo í eftirrétt súkkulaði húðaður banani á stöng!!!  Veislumatur!!!!  Svo fer maður á rölt um básana og skoðar flottar ... og ljótar vörur sem verið er að reyna að pranga upp á mann, svo finnur maður alltaf einhvern einn bás sem maður liggur á næstu vikurnar, svoleiðis að fólkið er farið að þekkja mann og bjóða manni alls konar góð kjör!!!  Þeir þekkja sko að margæfð verslunarkona er á ferðinni þarna.  Ég þarf að fara að bjóða út hæfni mína sem persónulegur verslunar-leiðsögustjóri hérna í Glasgow, er komin með þó nokkuð mörg meðmæli, þau síðustu í dag frá Catrionu.

 Þriðja besta fréttin er svo að ég kem heim á klakann 7. desember!!  Kem heim með mömmu og pabba sem eru að fljúga út til að vera við útskriftarathöfnina.  Og bara af því að það er ég og ég er svo merkileg dama, ef þið eruð forvitin um útskriftina þá verður hægt að horfa á hana beint (eða eftir þennan merkilega atburð) á vefsíðu skólans University of Glasgow.  Annars er ekki svo gaman að segja frá því að Icelandair eru ömurlega leiðinlegir við okkur.  Ekki nóg með það að þeir hættu að fljúga frá Janúar til Mars þá hættu þeir að fljúga í Desember líka, ég held þeir séu að reyna að fara á hausinn!  Og áður en einhver heldur því fram að ég sé siðspillt dekurdrós, þá eru fleiri á sama máli og ég að þetta er fáránleg ákvörðun.  Þar á meðal ræðismaður Íslendinga í Skotland! Af hverju ekki að reyna að fá Skotana til að koma í verslunarferðir til Íslands fyrir jól, sérstaklega þar sem Íslendingar hafa verið gestir Skota síðan .. hvað 1980 í verslunarferðum og þá sérstaklega fyrir jól.  Eftir allt sem er í gangi heima og hvernig það hefur haft áhrif á samskipti Íslands og Bretlands (þekki það þó ekki nógu vel, ég er í Skotlandi en ekki Englandi) þá skynja ég allt annað viðmót hérn en maður hefur heyrt um.  Og ef einhver er viðskotaillur hérna í Skotlandi þá er viðkomandi oftast frá Englandi eða það sem maður kallar Láglendingur.  Glasgow er oft kölluð höfuðborg hálandana (fyrir utan Iverness) en það stemmir aðallega vegna þess að ítök gelískunnar eru furðanlega sterk hérna miðað við að vera jafn stór borg og Glasgow er og hefur alltaf verið.  En vegna þessara ákvörðunar Icelandair þá þurfum við að fljúga í gegnum London.  Og það kom ekki til greina að ég léti mömmu og pabba fara þá ferð ein svo ég skelli mér snemma heim í ár. 

Fjórðu bestu fréttirnar og eiga samt eiginlega vel við fyrstu fréttina er að Sandra kemur frá Wales til að vera við útskriftina.  'The Three M.Litt Girls' aftur saman.  Held að við séum endalaust búin að vera að hafa truflandi áhrif á fólk sem er að hitta okkur núna og það vantar alltaf eina í klíkuna.  Hún kemur næsta laugardag og þá ætlum við að skemmta okkur og hafa gaman heima hjá Catrionu.  En þetta þýðir líka að ég er ekki fyrst í röðinni til að vera slegin á hausinn með púðanum af skólastjóranum í útskriftinni.  Bara gaman.

Jæja, raunveruleikinn kallar, þarf að reyna að lesa meira í dag svo ég geti réttlætt það að fara út á morgun að leika mér. 


Ys og þys út um austurströndina

Fór til Edinborgar í gær, þurfti að rífa mig upp klukkan átta og vera mætt á lestarstöðina klukkan níu, sem er ekki frásögu færandi en ég er ennþá svolítill veiklingur síðan í síðustu viku og morgnarnir eru vestir.  Lét mig þó hafa það, átti von á að þetta yrði áhugaverður og ekki síst skemmtilegur dagur.  Þegar ég kom niður á brautarstöð rétt fyrir níu var Catriona þegar mætt og gengum við þá snarlega frá kaupum á miðum til Edinborgar og til baka aftur.  Við vorum að fara á málþing sem Þjóðskjalasafn Skotlands (National Archives of Scotland) stóð fyrir í sambandi við gagnasöfn víðsvegar í Skotlandi.  Hefði kannski ekki farið miðað við ástandið á mér nema fyrir það að Háskólinn í Glasgow borgaði fyrir okkur farið til Edinborgar sem og aðgangseyri að málþinginu (og hver færi að neita þessu boði sérstaklega þar sem var meira að segja boðið upp á hádegisverð og kaffi).  Málþingið var virkilega áhugavert og spennandi að sjá hvað það eru margt í boði.  Það var þó nokkuð yfirþyrmandi hvað það eru mörg gagnasöfn í gangi og á mismunandi stöðum og boðið upp á mismunandi og mismikið af upplýsingum.  Sem betur fer erum við þó með góðan grunn til að byrja á og margar af þessum stofnunum eru með upplýsingar um hin ýmsu önnur gagnasöfn.  En svona upp á framtíðina getur verið rosalega gott að vita hvert á að leita í sambandi við ýmisleg rannsóknarstörf og ekki síst hvað maður getur búist við að finna og við hverja á að tala. 

Málþingið byrjaði rétt upp úr hálf ellefu og lauk klukkan fjögur.  Í endalokin vorum við ansi fegnar því að við vorum báðar orðnar aumar eftir að hafa setið á frekar óþægilegum stólum nærri allan daginn.  En endalokin á málþinginu boðaði líka það að við vorum að fara í verslunarleiðangur.  Byrjuðum á að fara á Princess Street og ganga frá innkaupum sem Catriona var búin að skrifa niður hjá sér og svo byrjaði nýtt ævintýri.  Við stukkum upp í strætó í Edinborg og vonuðum hið besta, allavegana þá vonuðum við að við værum á leiðinni í rétta átt.  Var á leiðinni í Ocean Terminal shoppingcentre og ég vissi ekkert hvar hún væri.  Var búin að finna á korti að hún væri einhvers staðar í Leith, sem sagt rétt fyrir utan Edinborg en strætó gekk þangað samt sem áður.  Það tók um og yfir tuttugumínútur í strætó að komast þangað og við vorum ekkert smá fegnar þegar við loksins sáum risa stóra upplýsta stafi sem sagði að við værum komnar á leiðarenda.  Hlupum nærri því inn því að ég átti ekki margar mínútur til stefnu.  Búðin sem ferð minni var heitið í var nefnilega einungis opin til sex (margar aðrar á staðnum opnar til átta), en ég náði þangað og eftir að hafa veltst í vöngum yfir úrvalinu þá var ákvörðun tekin og var Catriona alveg sammála mér að þetta væri rétt ákvörðun hjá mér og út við fórum.  En já ég mun ekkert fara frekar í hvað þetta var sem ég var að versla þarna því að þetta er jólagjöf!!! svo það þýðir ekkert að spyrja mig út í þetta.  Eftir þetta ævintýri athuguðum við hvort það væri eitthvað ætilegt þarna en leist ekkert á neitt og ákváðum bara að taka lestina til baka til Glasgow of fá okkur eitthvað í svanginn á Fridays í staðinn.  Stukkum aftur um borð í strætó og eftir tuttugumínútur vorum við komnar niður í bæ á Princess Street aftur og tókum lestina í bæinn.  Við vorum svo þreyttar að við ætluðum að lognast út af en af einhverjum ástæðum náðum við ekkert að hvíla okkur í lestinni. 

Þegar við vorum að bíða eftir strætó fyrir utan Ocean Terminal sáum við bjarman og nokkra flugelda skjótast upp í himinhvolfið frá einhverjum leikvangi í Endinborg.  Skotar voru nefnilega að halda upp á Guy Fawkes Night eða Bonfire Night.  Við höfðum verið að velta því fyrir okkur hvort við ættum að fara og sjá flugeldasýninguna í Edinborg fyrst við værum á staðnum.  Catriona var því sett í það að reyna að finna út hvar og hvenær hún yrði.  Þegar hún sagði mér svo fréttirnar sprakk ég af hlátri.  Það er sko nokkuð víst að ég var stödd í Edinborg!  Jújú flugeldasýningin yrði klukkan um 6:30 á leikvangi í Edinborg en brandarinn var sá að það var rukkað inn á hana!!!!!! Hahahahah!  Rukka inn á flugeldasýningu á leikvangi.  Mér datt helst í hug að þetta væri svona flugeldasýning eins og þeir voru að tala um á Ólympíuleikunum ... digitally remastered, ahahahah.  Ekki nóg með það að rukkað væri 5pund fyrir aðgang að sýningunni þá gastu víst einungis gengið frá miðakaupum á netinu sem þýddi að þú þyrftir líka að borga bókunargjald og svo einnig sendingakostnað fyri að fá miðana senda heim til þín.  Ofan á þetta bentu þeir fólki vinsamlegast á að það kostaði á bílaplanið! Hvar annars staðar en í Edinborg ... Flugeldarnir í Glasgow eru þó allavegana ókeypis aðgangur.  Það er líka bara í Edinborg þar sem þegar maður fer á klósettið þá er ekki venjulega klósettrúllu á standi að finna heldur færðu eitt og eitt bréf úr skammtara.  Það kemur alltaf bros hjá mér þegar ég er í Edinborg, þeir eru alveg jafn nískir og brandararnir gefa þá út fyrir að vera.

Jæja komum loksins til Glasgow og var klukkan að verða átta þegar þangað var komið.  Höfðum verið að velta því fyrir okkur að fara á Glasgow Green og fylgjast með ÓKEYPIS flugeldasýningunni þar en sáum að ef sýningin byrjaði 7:30 og það tæki okkur allavegana tuttugu mínútur að komast út á Glasgow Green frá lestarstöðinni ákváðum við frekar að fá okkur að borða, því það hefði einungis verið um tíu mínútur eftir af klukkustundarsýningunni þegar við kæmumst á leiðarenda.  Þegar við komum á Fridays vissum við alveg hvað við ætluðum að fá okkur og það kom enginn smá undarlegur svipur á þjónustustúlkuna þegar hún tók við pöntuninni, en við fengum okkar fram hehehe.  Ég fékk mér forrétt ... kjúklingastrimla í Jack Daniels gljáa með sesam- og chilifræum (nú slefar Hrabba) og Catriona fékk sér eftirrétt, triple layer chocolate fudge cake.  Og loksins kom að því, við erum núna búin að finna súkkulaðiköku sem Catriona réð ekki við, ég reyndi að hjálpa eftir minn vel útilátna forrétt en réði ekki við neitt heldur og 1/6 var skilinn eftir, shjokkerandi.  Catriona fór svo heim í strætó en þar sem ég veit ennþá ekki hvernig ég kæmist heim í strætó þá tók ég leigubíl sem var alveg ágætt því að þá heyrði ég þá fréttir að flugeldasýningunni sem átti að vera um kvöldið hefði verið frestað til morgundagsins af því að það var í gangi fótboltaleikur milli Celtic og Manchester (einhvers) og lögreglan hafði í nóg að snúast.  Þetta var gert til að koma í veg fyrir árekstra á milli fótboltaáhugamanna og flugeldaáhugamanna eða hreinskilnislega sagt, að reyna að forðast það að einhver yrði drepinn!!!  Alltaf fjör í Glasgow.


Þeir bara geta ekki annað en gert mér lífið leitt!!!!

Ég held ég hafi aldrei orðið eins fjúkandi reið út í neitt fyrirtæki og Icelandair ákkúrat núna.  Það liggur við að ég ætti ekki að vera að eyða orðum í þetta ákkúrat núna, svo reið er ég að ég næ varla að hugsa skýrt.  Þetta fj""## fyrirtæki ætlar að fara að halda fólki hér (í Glasgow) og heima í gíslingu nema að það láti sig hafa það að ferðast langar leiðir og leggja fyrir sig alls kyns peningabrölt sem það áður hefur ekki þurft til að komast heim til sín.  Ekki nóg með að það er alls enga þjónustu að fá frá þeim, síðan ég byrjaði í skóla hérna 2003, þá hafa þeir gert sitt í gera lífið leitt.  Fækka ferðum, bjóða upp á óætar samlokur, bjóða upp á samlokur með rækjusalati eða laxi ... sniðugt, en ég er með ofnæmi fyrir fiski!  Fækka enn fleiri ferðum, ennþá boðið upp á hræðilegan mat og þeir vilja ekkert skilja af hverju þeir fá meira en helminginn af þessum andskotans skinkuhornum þeirra til baka til að henda enda eru þeir ennþá að reyna að þröngva þessu upp á mann.  Ég er sko búin að læra það að taka með mér nesti og afþreyingu fyrir mig sjálfa þegar ég flýg með þeim.  Þeir eru búnir að gera allt sem þeir geta til að ég hætti að vera viðskiptavinur þeirra.

Mér finnst þetta æðisleg frétt, sérstaklega þar sem ég á nógu erfitt með að vera hérna í námi eins og er.  Hálf fjölskylda mín er í frekar slæmum málum heilsufarslega séð og hef ég reytt mig á að geta hlaupið út á völl og upp í flugvél ef á þarf að halda.  Takk kærlega fyrir Icelandair að ýta undir andlega vanlíðan mína og hehehe já einmitt, létt pyngju mína ennþá meira á tilstandinu að þurfa að fljúga eða fara með lest til London, gista eða dvelja þar tímunum saman á meðan beðið er eftir að geta komist leiðar sinnar, það var ekki eins Icelandair fengi greitt fyrir það þegar ég var að fljúga með þeim, minnst 10 sinnum á ÁRI!!!

Ef þeir halda að þeir hafi svona lítið út úr þeim sem eru að fljúga hérna á milli og að þeir skipti þá svona litlu máli, þá geta þeir átt sig.  Frekar fer ég með árabát á milli núna en Icelandair.


mbl.is Undrandi á framkomu Icelandair
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband