2.10.2007 | 21:41
Þegar maður er að því kominn að gefast upp ... þá
Síðustu tvær vikurnar hafa verið rosalega erfiðar. Það er ótrúlegt að vita til þess að það er hægt að tegja svona á veseni og halda aftur af því að svara fyrirspurnum sem ætti ekki að taka það langan tíma.
Þetta byrjaði allt áður en ég kom til Glasgow, ég sendi prófessornum mínum tölvupóst og bað um að fá að hitta hann svo við gætum sest niður sem fyrst og rætt saman hvaða fög ég væri að taka í ár og hvað ég þyrfti að hafa í huga. Ég sendi einnig tölvupóst á kennara í ensku deildinni til að forvitnast um kúrs sem er kenndur í þeirri deild. Hún hafði beðið mig í endann á síðasta skólaári að hafa samband við sig þá um hvort það þetta fag, Old Norse / Old Icelandic yrði kennt, því að það færi eftir þátttöku nemenda úr ensku deildinni hvort kúrsinn yrði kenndur. Þannig að ég samviskusamlega hafði samband að fyrra bragði og með góðum tíma.
Daginn eftir að ég kem til Glasgow, mánudaginn 17., setjumst við Dauvit Broun, prófessorinn minn, niður og við förum að velta því fyrir okkur hvað ég sé að fara að gera og komumst svona nokkurn veginn að niðurstöðu. Ég hafði á þessum tíma fengið svör frá ensku deildinni að hún myndi ekki vita hvort kúrsinn yrði kenndur þetta árið fyrr en fólkið í deildinni kæmi saman og ákveddi hvað þau vildu læra. Á þessum tíma vissi ég að önnur stúlka við Scottish Medieval deildina sem ég er í hafði áhuga á að læra Old Norse líka. Á fimmtudaginn fengum við þær fréttir að við fengjum að taka Old Norse en ekki fyrr en á næstu önn, s.s. eftir jól, en þetta voru samt góðar fréttir. En þetta þýddi líka að við þurftum að finna okkur tungumálakúrs fyrir þessa önn. Þar sem ég var búin að taka Old Irish og Middle Welsh, var engin ástæða að taka það aftur, þannig að ég þurfti að finna eitthvað annað. Þess vegna datt mér í hug, Old English, svona til að fullkomna hringinn. Ef ég gerði þetta væri ég með fullt hús af miðaldarmálum Bretlandseyja. Dr. Broun og ég hittumst á þriðjudag aftur, reyndar við öll í introductory class þannig að við töluðum lítið um aðra kúrsa og ákváðum af því að við vorum búin að fá svar um Old Norse að hittast á fimmtudag og vita hvað við myndum gera í málinu. Þannig að á fimmtudag bar ég undir hann að taka Old English sem honum leist mjög vel á, en því miður er vefsíða skólans svo vel upp sett að það finnst ekkert af viti. Þannig að ég hljóp yfir í ensku deildina og reyndi að tala við alla sem ég hitti á en fann enga, dömurnar á skrifstofunni bentu mér að hafa helst samband við ÞESSA ÁKVEÐNU PERSÓNU af því að það væri hún sem væri að kenna Old English. Mjög hjálplegt hélt ég. Ég fór aftur yfir í skosku deildina og bað kennarann minn að hafa samband við þessa persónu til að útskýra svo ekkert færi á milli mála hvað við vorum að leytast eftir fyrir mig. Ég bjóst við fljótu svari, en þetta kennir mér að vera bjartsýn á skipulagshæfni kennara.
Tölvupósturinn er sendur klukkan þrjú á fimmtudegi og ég bjóst við að fá vonandi flótlega svar. Ekkert varð af því, ég komst ekki upp í skólann á föstudag til að tala við neinn og svo kom helgin og ekkert svar barst. Ég dreif mig því mjög snemma (fyrir mig) upp í skóla á mánudagsmorgun til að reyna að hitta á ÞESSA ÁKVEÐNU PERSÓNU SEM ER AÐ KENNA KÚRSINN til að reyna að fá einhverjar mínútur. Ég hef nefnilega lært það á síðustu fjórum árum að það er best að tala við fólkið "face-to-face" því þá kemst það ekki upp með það að fara undan í flæmingi og þykjast ekki skilja mann. Ég hitti á ÞESSA PERSÓNU sem var frekar stuttaraleg við mig og sagði að hún hefði vísað tölvupóstinum á aðra manneskju sem þurfti að gefa leyfi fyrir því að ég tæki kúrsinn. Í fyrsta sinn sem ég heyri að það þurfi, hingað til hefur hver sem er getað tekið hvaða kúrs sem hann vill, jafnvel þótt það sé bara til að sitja inni á honum, svo lengi sem þú hefur borgað skólagjöldin. En allavegana, þá var ég ekki búin að fá svar frá neinum og svo klingir hún út með það að þetta hljóti að vera í fínasta lagi þótt ég mæti og ég ætti bara að skella mér á kúrsinn. Ég var ok með það og spurði hana með hvenær og hvar tíminn væri. "Já, þú getur bara fundið það út á töflunni niðri í gangi" og svo rauk hún í burtu. Ég fór og fann töfluna með tímunum og fann þá út að tíminn er á sama tíma og aðal kúrsinn minn er á þriðjudögum svo þar fór það, ekki get ég mætti á tvo staði á sama tíma. Ég var ekkert smá pirruð út í liðið, af hverju hún gat ekki eytt tveim mínútum í það að segja mér allavegana að það væri önnur manneskja að fara yfir málið fyrir mig svo ég gæti haft beint samband við hana. Af hverju hún gat ekki eytt tveim mínútum í að segja mér nákvæmlega það sama og hún sagði við mig í dag í tölvupósti. Og af hverju hún gat ekki eytt tveim mínútum í að senda mér tölvupóst með upplýsingar um kúrsinn, hvenær og hvar hann væri kenndur. Jú, hahaha, það er af því að það er svo rosalega mikið að gera hjá öllum. Ahahahhaha, já það er eins dæmi. Mér þætti gott að hafa það sem afsökun fyrir að svara ekki kennurum eða skila ritgerðum af því að það er svona rosalega mikið að gera hjá mér. Af hverju er þeirra tími dýrmætari en minn.
Núna stóð ég frammi fyrir því að vita ekkert hvaða kúrs ég var að fara í tungumálum, sem þýddi það að ég vissi ekkert hvaða daga ég myndi þurfa að mæta í skólann sem þýddi það að ég hef núna ekki getað haft samband við kennarann sem ég á að hitta í Dumfries á tveggja vikna fresti um hvaða dagar henta til að ferðast þangað. Því ef ég fer til Dumfries þá er þetta heils dags verkefni út af fyrir sig. Ferðin tekur tvo tíma, fyrsta lestin fer klukkan níu að morgni og ég veit ekkert hvenær ég get hitt á hann yfir daginn þannig að ég veit ekkert hvenær ég kem heim á kvöldin. Er framtíðin ekki björt. Þannig að ég var að því kominn að gefast upp og gefa skít í þetta allt saman. Ég er ekki að borga mörg hundruð þúsund fyrir það að fólk hafi ekki tíma til að svara mér, af því að mín menntun skiptir þau engu máli.
Þetta er sérstaklega vont þar sem margir af kúrsunum eru byrjaðir þar á meðal Old English og fleiri. Eftir að það varð ljóst að ég gæti ekki tekið Old English þá var bara Latínan eftir. Ég hafði þá samband við Dr. Broun, hann var ekki við þegar ég var uppi í skóla, þannig að þegar ég kom heim sendi ég honum enn einn tölvupóstinn og spurði út í Latínuna.
Og þá erum við komin til dagsins í dag. Ég var búin að kíkja á tölvupóstinn minn í gærkvöldi og í morgun og ekkert. Af einhverri ástæðu ákvað ég að kíkja aftur á póstinn um ellefu. Sé þá að ég er búin að fá svar frá honum og byrja að lesa og ég frís. Honum fannst það leitt að þetta skyldi ekki ganga upp með Old English og sagði mér þá að Latínan væri þegar byrjuð og að það væri tími í dag klukkan tólf í Classics department. Þegar ég les þetta er klukkan tíu mínútur yfir ellefu. Ég hleyp til og slekk á tölvunni og er á leiðinni út þegar ég fatta það að ég veit ekkert hvar Classics department er. Þannig að ég kveiki aftur á tölvunni og finn út, Oakfield Avenue, og rýk af stað. Veit nokkurn veginn hvar það er og hringi á leigubíl. Hann skilar mér af rétt hjá skólabókasafninu og ég fer að leita, finn Oakfield Avenue hvergi og bygginginn sem gamla kortið mitt sagði mér að Classics department sé er í viðgerðum. Ég fer inn á bókasafnið og spyr þar í afgreiðslunni og þeir segja mér að Classics department er í aðalbyggingunni, ég efast ekki um það og held þangað af því að varla getur það verið í byggingu sem er búið að rústa fyrir utan útveggina. Þegar ég kem þangað kíki ég á annað kort en það er þá allt annað en var á bókasafninu og ég þarf þá að fara til baka og enda á Accommodation office til að spyrja þau og þau elskulega segja mér hvar Oakfield Avenue er og það meikar miklu meira sens þannig að ég fann þetta fyrir rest þrátt fyrir að vera búin að reika um skólasvæðið í tuttugumínútur. Ég kem inn á skrifstofu þar, kófsveitt og skjálfandi af stressi og þá segir hún mér að það sé enginn tími í dag, heldur er latínan kennd á mánudögum og fimmtudögum. Ég hélt að það myndi líða yfir mig!
Jæja það þýddi ekki að fárast út í það og fékk upplýsingar um námsefnið og bók sem ég á að fjárfesta í og gekk frá því áður en ég hlammaði mér niður í kaffiteríunni og fékk mér að borða og nóg að drekka. Ég var uppgefin, langaði helst bara að fara heim og ekki hugsa neitt um neitt. Var alveg búin að fá upp í kok af óskipulagsleysi og vitleysu og öllu því sem ég er búin að þurfa að standa í síðustu daga og vikur.
En ég er að vona að núna fari hlutirnir að ganga og að þetta fari að komast í réttan farveg því mér líður virkilega illa þegar ég næ ekki að festa svona hluti í farveg sem first. Mér líður illa þegar hlutir eru ókláraðir og vil helst hafa hlutina á sínum stað. Ég er óttalegur sóði en ég er samt skipulögð í óreiðunni og ég geng aldrei út frá því að fólk þurfi ekki að fá svar við spurningum sínum eða fullvissu um að verið sé að vinna í hlutunum og ég er aldrei of sein í að skila einu eða neinu frá mér, hvorki skólabókum, ritgerðum eða leiguspólum. Þess vegna áskil ég mér rétt að vera ógeðslega pirruð út í ÞESSA ÁKVEÐNU PERSÓNU í ófyrirsjáanlega framtíð. Svona hjálp er engin hjálp!
Fyrirgefið langlokuna en þetta bara varð að komast út.
Athugasemdir
Risa knús frá okkur Gumma. Alveg ömurlegt að standa í svona veseni og fá engin skýr svör neinsstaðar. Vonandi fer þetta að smella saman hjá þér og þú getir farið að einbeita þér að náminu
Hrabban (IP-tala skráð) 2.10.2007 kl. 22:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.