29.4.2008 | 21:41
Þór Þrumuguð ekki dauður úr öllum æðum enn
Þetta er lyginni líkast segi ég bara. Um helgina var ég svo heppin að eyða tíma með góðum vinkonum. Mæðgum sem ég hafði verið að vinna með hjá Íslandspósti. Þær ákváðu að skreppa sér til Glasgó og af því að ég var nú hérna réð ég mig bara sem leiðsögumann til þeirra. Þær komu á fimmudag en ég hitti þær reyndar ekki fyrr en á föstudaginn. Nú af því að þetta var nú Íslandspósturinn og hann stendur við sitt þá komu þær til skila pakka sem mamma sendi þær með handa mér. Í honum voru nokkur skjöl og svona sem mig vantaði og hafði gleymt að endurnýja þegar ég var heima og svo sumargjöf. Jamm, mamma er ennþá að dreka við dekurrófuna sína þótt hún sé orðin svona gömul. Hvað haldiði að hún hafi sent mér, steypta eftirlíkingu af Þórshamrinum sem ég er búin að vera að slefa yfir í Íslandíu í lengri tíma. Hún er æði, ég þorði nú ekki að setja hann upp þegar ég fékk hann í hendurnar enda mikils metinn gripur en svo í dag ákvað ég nú að setja hann upp. Veðrið var svo fínt og ég var á leiðinni út að hitta vinkonu mína í hádegismat.
Úti var um tíu stiga hiti og sól og ég bara labbaði til hennar á Byres Road, komum okkur fyrir á fíneríis kaffíhúsi og nutum þess að borða góðan hádegismat áður en leiðir okkar skildust. Ég þurfti að erindréttast aðeins niðri í bæ og tók því neðanjarðarlestina niður á Cowcaddens þar sem ég fór út og fór í nokkrar búðir sem eru nálægt þeirri stoppistöð. Þegar ég var búin þar, hoppaði ég aftur upp í lestina og fór upp í skóla. Kom mér fyrir í QM Union og beið eftir að stelpurnar kæmu að hitta mig fyrir fyrirlesturinn, þessi venjulegi þriðjudags fyrirlestur sem við, Catriona, Sandra og ég erum vanar að fara á. Og hvað haldiði að þá hafi gerst!!!
Korter í fjögur heyrist fyrsta þruman. Ég verð svolítið spennt enda er ég rosalega hrifin af þrumuveðrum, versta er að þegar það er þrumuveður hérna varir það aldrei nema í svona eins og einn bloss og svo tvær þrjár þrumur, þannig að ég var ekkert að gera mér upp neinar vonir eða væntingar. Svo nokkrum mínútum síðar sé ég blossa og svo kemur svaka þruma eins og algjör sprenging. Jæja, þá gat ég ekki setið á litla mínum lengur og tek til dótið mitt og þýt út og undir skyggni, enda var hellirigning. Svo byrja þessi þvílíku læti og ég eins og hálfviti fer að telja hversu margar þetta séu. Ég stend þarna úti í yfir 45 mínútur og það gengur yfir meira en 35 eldingar og þrumur, ég var svo hrifin af þessu. Alveg gat ekki hamið mig. Fannst skemmtilegast þegar ég sá fólkið skutlast á milli bygginga með regnhlífarnar spenntar. Ég get svarið að ég var farin að bíða eftir Kentucky Fried Chicken á labbi þarna, hehehehe. (gassalegt að segja svona). En þetta var bara svo gaman, já ég veit, það er mjög auðvelt að skemmta mér.
Fyrir átta árum síðan var ég stödd einmitt í Glasgow á hótelherbergi með mömmu og pabba þegar yfir drundi annað eins þrumuveður, þá vorum við á áttundu hæð og ég fór beina leið út í glugga að fylgjast með, enda var þetta mun meira spennandi en það sem var í sjónvarpinu. Ég hefði kannski frekar átt að fylgjast með því, því að á skjánum birtist svo tilkynning frá hótelinu að vegna þess að það væri þrumuveður í gangi að slökkva á sjónvarpinu (sem er bara fyndið því að ef það er slökt en svona tilkynning kemur þá kviknar sjálfkrafa á því, þannig að 'rather mute point') og að maður eigi að halda sig frá gluggum. Nei það var sko ekki hægt að halda mér frá glugganum sama hvað mamma sagði, ég hafði aldrei áður séð alvöru þrumuveður og langað i að sjá allt sem ég gat.
En þetta með þrumuveðrið í dag, ég er alveg viss um að Þór Þrumuguð hafi eitthvað tekið við sér þegar ég setti hálsmenið upp, hann hefur vitað hversu rosalega mig langaði að upplifa alvöru þrumuveður og er ég alveg hæst ánægð með daginn. Og ég fékk að upplifa þetta án þess að blotna sem er ennþá betra, þótt að ég stæði úti, varð bara aðeins blaut í fæturnar en það var bara af því að ég var í lélegum skóm.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.