Afsakið töfina

á að nýtt blogg birtist hérna.  Ég fór bara í frí, kom heim til Íslands í fjórar vikur og þá bara fór ég óvænt í blogg frí á meðan líka.  Alls ekki planað en ég fann bara alltaf eitthvað annað til að gera og svo þegar ég var ekkert að gera var ég svo löt að ég var bara lágrétt á þeim tíma og hvergi lyklaborð nálægt mér.  En nú fer vonandi að verða breyting á þessu öllu saman, ég er komin aftur til Glasgow og törnin að byrja enn á ný.  Byrjaði vikuna á að fara í próf í íslensku.  Hahaha, eflaust ekki margir sem geta sagt það, en svona var það nú.  Hvað hafa margir tekið próf í íslensku (sínu eigin móðurmáli) í Skotlandi áður, það geta nú varla hafa verið margir.  En hver veit, ef mér dettur eitthvað svona skrítið í hug er alveg víst að einhver var á undan mér í því.  Svo original er ég ekki.

Ég gerði ýmislegt af mér þegar ég var heima þessar fjórar vikur.  Fór á fyrirlestur hjá Sagnfræðingafélaginu á Þjóðminjasafninu, sem var rosalega gaman.  Kom mér meira að segja á fyrirlestur hjá Guðspekifélaginu, það er nú saga að segja frá því.  Og að endingu endaði ég líka á ráðstefnu hjá Sögutengdri ferðaþjónustu.  Allt saman alveg rosalega spennandi fyrirlestrar, sumir voru náttúrulega betri en aðrir og sumum hefði alveg mátt sleppa, en alveg þess virði að fara á.  Það kom líka vinkonunum hérna úti meira að segja á óvart hversu óvenjulega nördaleg ég hafði verið á meðan ég var heima.  En ekki nóg með það að fara á fyrirlestra þá var alveg nóg að gera hjá mér.  Kláraði að skrifa nærr 5000 orða ritgerð og skilaði henni, las nokkra kafla í Ancient Laws of Ireland og náði svo að guða geggnum Grágásina á ensku, meira og minna í heilu lagi á nokkrum dögum, þannig að það er ekki svo amalegt það sem mér tókst að áorka heima á þessum stutta tíma.

Þannig að nú er ég komin í mitt venjubundna ferli, skóli, lesa, borða og sofa til skiptis.  Reyndar hefur fækkað verulega þeim tímum sem ég er í skólanum núna og við stelpurnar erum farnar að plana daga til að hittast á til að halda sönsum, því að annars er einungis einn klukkutími á viku sem er skipulagður hittingur hjá okkur en það er í íslensku tímunum einmitt.  Svo er ég spes í forn ensku og forn ískri lögfræði, alls 3 tímar á viku.  Ferlegt!  Gefur manni allt og gott tækifæri til að setjast bara á rassinn og horfa út í loftið, maður þarf að vera harður við sjálfan sig núna.  Sem er ekki auðvelt því að nú skín sólin eins og vitleysingur inn um gluggann minn á daginn og laðar mann út.  Svo náttúrulega þegar út er komið byrjar að rigna því þetta er nú eftir allt saman Skotland.  Reyndar hefur veðrið verið rosalega fínt síðan ég kom út og lítð ringt, en veðurguðirnir reyndu að stríða mér í dag þegar ég fór út en það voru bara nokkrir dropar svo það var fínt.

 Einn af þessum dögum sem við stelpurnar vorum búnar að ákveða er laugardagurinn.  Við ætlum að hittast og horfa saman á Dr. Who (guð, hvað ég er að verða bresk), en því miður verður ekkert úr því þennan laugardag.  Catriona ætlar að skutlast heim til foreldranna í Aberdeen í smá kíkk og svo var einhver svo leiðinlegur að bjóða Söndru í afmæli að hún kemur ekki heldur, þannig að við frestuðum þessu fram á Sunnudag. 

Var einmitt að tala við Söndru á netinu áðan og var hún að forvitnast hver staðan á heimanáminu væri, því ég á eftir að skrifa eina ritgerð og svo er fyrirlesturinn mikli þann 10 júní.  Ég veit ennþá ekkert hvað ég er að skrifa um í ritgerðinni og ennþá síður hvað ég er að gera fyrir fyrirlesturinn.  Ég nefndi við hana hvað ég væri eitthvað svo 'laid-back' í þessum málefnum, væri ekkert að asa mér til um hvað ég ætti að gera og hvenær ég ætti að fara út í það og hún þurfti þá að skjóta á mig að ég væri bara algjörlega lágrétt (horizontal) í þeim efnum.  Ég stóðst þá ekki og sagði við hana að miðað við hvernig mér gengi alltaf hérna að ef ég endurfæddist (að hætti Búddista) þá myndi ég koma aftur sem legubekkur.  Fannst ég bara nokkuð hitta naglann á höfuðið þarna þótt ég segi sjálf frá.

Jæja, ég fór þó í einn tíma sem ég hef svona ansi blendnar tilfinningar til eftir á að hyggja.  Tími sem fjallaði um miðaldar kirkju tónlist.  Hmmm, já, erfitt að orða þetta pennt.  Eiginlega var þetta of nýlega miðaldarlegt til að vekja sérlegan áhuga hjá mér enda vorum við með flest gögn um tónlist frá um 13. öld og ég er svona rétt fyrir og um þann tíma sem minn áhugi er (aðallega er áhugi minn bundinn við 6. - 12. öld).  Söndru fannst þetta alveg hrikalegt enda er hún algjör heiðingi en aftur á móti hefur Catriona einmitt áhuga á þessu og hennar vegna streittumst við Sandra við að halda andliti í gegnum tímann.  Sú sem var að kenna okkur þetta hefur greinilega stúderað þetta í bak og fyrir og var mjög forvitnilegt að heyra það, en málið var að hún vissi svo svakalega mikið um þetta að hún gat ekki gert sig skiljanlega á ensku sem gerði það að verkum að ég vissi ekkert hvað hún var að tala um því að hún var svo tæknileg.  Það eina sem ég veit um tólist er að hvernig á að hlaða henni inn og af iPodinum og slökkva á útvarpinu (og að framlag Íslands í Eurovsion sökkar ferlega feitt).  Svo byrjaði konan allt í einu að syngja!  Herregud segi ég nú bara.  Svo leyfði hún okkur líka að heyra nokkra söngva á disk og þá ætlaði mér alveg ljúka, að heyra svona musteris kirkju tóna orga úr tækinu 'ohohohoooo ohoohohooooo' eins og einhver væri að reyna að kitla þá til dauða, ég þurfti að líta undan og ég held að Catriona hafi vel skilið af hverju.  Eftir að konan hafði lokið máli sínu gátum við borið upp spurningar ef við höfðum einhverjar og það var ein þarna inni sem hafði laumað sér með, er eitthvað að læra í miðaldarsögu, en bara annarri en við og þurfti konan ekki að byrja á þessari fáránlegu spurningu sem fer svo rosalega í taugarnar á okkur þrem.  'Voru þeir virkilega svona fagmennskulegir þegar kom að því að semja tónlist, var þetta svona rosalega skipulagt nám hjá þeim, maður hefði ekki búist við því?' Argh!  Já einmitt, af því að þetta voru menn að semja tónlist fyrir 700 árum síðan þá vissu þeir náttúrulega ekkert hvað þeir voru að gera, þeir bara hnipruðu einhverju niður á blað og báðu til guðs að þetta hljómaði ágætlega.  Hvernig stendur á því að svona manneskja komist í gegnum nám við sögudeildina í Glasgow Háskóla og láti sér detta það í hug að spyrja svona heimskulegrar spurningar.  Enda vorum við alveg rosalega pirraðar yfir þessu þegar við gengum út, það fór góður hálftími í að ná okkur niður eftir þetta.  Af hverju er fólk alltaf tilbúið að segja að fólk sem var uppi á miðöldum var eitthvað mikið einfaldara í hugsunarhætti en við erum í dag, ef fólk virkilega tæki sér tíma og skoðaði málið þá myndi það frekar skammast sín fyrir að vera nútímamaður en að hafa verið upp á miðöldum.  'Don't knock it, till you try it', segi ég bara.

En já annars, er þetta ekki ágætis sálfræði tal í bili.  Ætla að fara að athuga hvort að eldhúsið sé laust og hvort ég fái að elda eða hvort það er ennþá troðfullt af fólki sem ég þekki ekkert til að borða pizzu, yuck!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Steingrímur Helgason

Já, þetta var ágætis útskýríng um blogglega fjarveru þína,  ég var næstum því farinn að hafa áhyggjur af tilveru þinni, drukkið einhvern seið misóhollann, eða fallið í verklegu prófi í fornu nornarkústaflugnámi, literattlý...

Steingrímur Helgason, 19.4.2008 kl. 00:39

2 Smámynd: Lady Elín

Ef ég hefði fallið í verklegu prófi í kústaflugi hefði lítið spurts til mín eftir það, það er satt.  En ég er orðin nokkuð góð á kústinum.  Þeir eru bara ekki gerðir fyrir langflug (ekkert skott fyrir farangur), þannig að ég hef verið að ferðast með Icelandair eins og venjulega.  Þótt ég sé farin að vera góð á kústinum, finnst mér ryksugan betri, kemst hraðar um á henni, en eini gallinn er að hún fer mjög stutt út af snúrunni.

Lady Elín, 19.4.2008 kl. 15:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband