3 dagar

Ákvað að gera eitthvað í þessu bloggleysi hjá mér udanfarið og ákvað að gera skil á 3 síðustu dögunum hjá mér enda viðburðarríkir með meiru.

Föstudagur 25. júlí 2008

 Stelpurnar og ég vorum búnar að mæla okkur mót um hádegi í dag.  Catriona átti fund með Thomas og Davy klukkan ellefu og Sandra ætlaði að hitta á þá þegar Catriona væri búin að funda með þeim.  Ég var mætt fyrir utan 9 University Gardens rétt fyrir tólf og svo kom Sandra.  Klukkan tólf opnaðist hurðin hjá Davy og engin Catriona.  Þá fengum við þá skýringu að hann hafði tafist og þegar hann hafði loksins náð upp í skóla sást hvergi tangur né tetur af Catrionu eða Thomas.  Þannig að Sandra hoppaði inn til hans í nokkrar mínútur á meðan ég beið fyrir utan til að sjá hvort ég sæi Catrionu á vappi einhvers staðar.  Nokkrum mínútum seinna sé ég hana á leiðinni inn í Post-grad klúbbinn þannig að ég stekk af stað og næ í hana og læt hana vita að Davy er að leita að henni.  Við förum þá aftur yfir götuna því að aumingja Sandra vissi náttúrulega ekki að ég hefði yfirgefið hana.  Þegar hún kom út, þá greip Davy Catrionu á smá fund.  Á meðan fórum við Sandra yfir í Post-grad klúbbinn og biðum eftir henni.  Þegar hún kom svo til baka þá sagði hún okkur það sem á hafði gengið og var það enn meiri farsi en sá sem á undan hafði gengið.  Dauvy hringdi til að láta Catrionu og Thomas vita að honum seinkaði og þegar Catriona var látin vita, þá sat hún ein og yfirgefin fyrir utan skrifstofuna hans Davy.  Það var líka hringt í Thomas og hann látinn vita að Davy seinkaði og hann kom alveg að fjöllum um að hann hefði átt að hitta þau í dag.  Þannig að hann þurfti að hlaupa upp í skóla til að hitta Catrionu.  Þar sem hann var nýbúinn að hlaupa upp dágóða brekku þá var hann ekki alveg til í að labba upp á þriðju hæðina í Modern Languages Building í skrifstouna sína og þar sem hún var hvort eð er of lítil fyrir þrjár manneskjur þá ákvað hann að finna herbergi á fyrstu hæðinni.  Hann hringdi svo upp til ritarans til að láta hana vita hvar þau væru ef Davy kæmi að leita að þeim.  Davy aftur á móti fór beint til skrifstofunnar hans Thomas og auðvitað fann hann þau hvergi og datt alls ekki í hug að spyrja ritarann.  Þannig að allir fóru á mis við alla í dag.  Svaka fjör

Eftir hádegismat, skelltum við Catriona okkur í bæinn.  Fórum að leita að hatti handa henni fyrir brúðkaupið á morgun.  Jamm erum á leiðinni í brúðkaup hjá vinkonu okkar og markmiðið er að allir verði með hatt, eins og ekta bresku brúðkaupi hentar!  Eftir að hafa þrætt einar fimm eða sex búðir enduðum við á byrjunarreit og fengum lítinn og fínan hatt sem sómaði sér mjög vel á kollinum á henni.  Nú var bara eftir að sjá hvort að hann passaði ekki við sparidressið líka.  Þannig að Catriona fór heim til að gera klárt til að taka á móti gestum (mér og Söndru) um kvöldið og ég skrapp líka heim í smá stund áður en ég fór yfir til hennar.  Við ákváðum nefnilega að það væri nauðsynlegt fyrir okkur að horfa á sjónvarpið um kvöldið.  BBC1 er að sýna nýja drama þáttaseríu sem heitir Bonekickers og er um fornleifafræðinga!  Eitthvað fyrir okkur.  Jæja, annað kom í ljós.  Stelpurnar voru reyndar búnar að sjá fyrsta þáttinn (þetta var þáttur númer 3) og voru búnar að vara mig við, en það var ekki nóg.  Jeminn eini, þvílík steypa.  Þátturinn var svo vondur að hann var góður.  Við svoleiðis tættum hann í okkur og það versta var að við hugsuðum allar það sama, sorglegt fólk situr límt við skjáinn og heldur að þetta sé fornleifafræði.  Verslings það.  Við höfðum líka orð á því að okkur dauðlangaði að horfa á fornleifafræðinga horfa á þessa þætti bara til að sjá viðbrögðin hjá þeim, því nóg var af þeim hjá okkur.  Við erum líka vissar um það að sá sem skrifaði handritið, veit ekki að Channel 4 og Time team er til og ofan á það að ef það voru fengnir fornleifafræðingar til að aðstoða við gerð þessara þátta - þá eru þeir búnir að breyta um nafn núna!  Til dæmis;  1) það er ekki góð fræði að ef trébútur sem er haldinn vera um 2000 ára gamall (jamm sá trébútur!) og er hálf grafinn í jörðinni ennþá, þá er ekki gott að grípa í hann og toga hann upp úr jörðinni með berum höndum!!!  2) Geo-phys skannar finna ekki bein í jörðinni, það eina sem þeir sjá eru steinar og aðrir harðir hlutir!  3)  Það er ekki hægt að sjá á einni tönn að um Rómverja sé að ræða!!! 4) Möguleikinn á að grafa einungis fimm centimetra niður í jörðina og finna fullt af ómetanlegum og vel varðveittum hlutum ... sáralitlir, ofan á það, sérstaklega ef þeir áttu að hafa lent í eldi, og einnig að það sé hægt að sjá strax hvaðan of úr hverju og hvað hlutirnir eru (1 aldar Keltnesk beltissylgja með keltneska Sólar guðINUM), mjög ósennilegt.   5)  Rómverjar áttu handsprenjur!!! 6) Þeir gátu leiðrétt eina manneskju í þáttunum á hvernig á að bera fram nafnið Boudica en ekki hvernig þeir bera fram nafnið á ættflokknum hennar, Iceni. (Í staðinn fyrir að c-ið í nafninu sé eins og s-hljóð þá er það K-hljóð!).  7)  Líkurnar á að fornleifafræðingar virði að vettugi viðvaranir og stefni sér í brjálaða lífshættu án þess að taka tillit til annarra í kringum sig ... vona ég að séu frekar litlar!  En ég hugsa að þetta sé næg upptalning í bili, ég get haldið áfram og eftir næsta þátt, guð má vita hverju við eigum von á. 

Þegar þátturinn var búinn, tókum við smá breik með Dr. Who og biðum eftir að Claire mætti í partýið okkar.  Hún var á leiðinni frá Dumfries til að gista hjá Catrionu fyrir brúðkaupið.  Það voru einhver vesen með lestargang þannig að hún þurfti að ferðast hluta leiðarinnar með rútu og allt í allt tók ferðalagið hana fjóra og hálfan tíma, sem venjulega tekur á um þrjá.  Þannig að hún var orðin frekar þreytt þegar hún kom.  Við entumst samt að kjafta til nærri tvö, en þá fórum við Sandra heim.

Laugardagur, 26. júlí 2008

Brúðkaupsdagur Joanne og Craig's

Reyndi að vakna klukkan átta en það átti ekki eftir að gerast og ég svaf til klukkan níu.  Reif mig upp og fór að taka mig til, bæði föt og fleira og meira að segja litla ferðatösku því að ég ætlaði að gista hjá Catrionu þegar ég kæmi til baka til Glasgow með stelpunum.  Um klukkan ellefu þá var ég tilbúin og setti upp hattinn og yfirgaf herbergið mitt og steig upp í leigubílinn.  Var komin til þeirra rétt um ellefu og voru þær þá líka tilbúnar, nema að Claire þurfti að stoppa á einum stað í bænum til að redda kambi í hárið, því að hún er ekki hatta konan og hafði gleymt því sem hún var búin að redda heima, en sem betur fer og sem mér finnst ótrúlega flott þá var hægt að redda því á lestarstöðinni því að Accessories er með búð þar!!!  Þannig að við hentumst í bæinn á lestarstöðina og sáum svo að við áttum ekki eftir að borða margt þangað til um kvöldið og fengum okkur eitthvað til að narta í á lestarstöðinni á meðan við biðum eftir Anne.  Hún birtist þegar um tíu mínútur voru þangað til að lestin okkar færi af stað, við vorum mjög ánægðar að sjá hana loksins, enda vorum við búnar að senda henni sms og hringja og allt hvað eina og aldrei fengum við svar.

Lestarferðin tók um 45 mínútur til Greenock og svo tók það okkur ekki nema um fimm mínútur að labba frá stöðinni að kirkjunni þar sem brúðkaupið fór fram.  Athöfnin var æðislega falleg og hátíðleg og brúðurinn var glæsileg og ljómaði alveg frá toppi til táar.  Presturinn var svakalega fínn og hlýr og auðvitað voru allir eða flest allir karlmennirnir í brúðkaupinu í kiltum og brúðarmeyjarnar fjórar litu allar rosalega vel út í sæ-grænum kjólum.  Eftir athöfnina voru myndir teknar á tröppunum á kirkjunni og við bílinn, sem var geðveikt flottur og hefði ég lítið á móti því að eiga einn svoleiðis.  Svo var lagt af stað.  Við fengum aftur á móti far með rútu að hótelinu þar sem veislan fór fram.  Það tók um háftíma - 45 mínútur að keyra þangað og var það niðri við vestur ströndina í Ayrshire og var alveg yndislega fallegt allt í kring.  Við vorum líka rosalega heppin með veður og var stillt allan daginn og sólin gægðist einstöku sinnum í gegnum mistrið sem umlukti okkur, enda var svakalegur hiti og vel yfir 20°c.  Það voru teknar myndir af fjölskyldunni með brúðhjónunum á fullu úti í garði.  Strákarnir í kiltum voru látnir taka Braveheart atriði þar sem hlupu á fullu á móti ljósmyndaranum eins og í fullri árás á Englendinga!  Svo þegar brúðhjónin skáru tertuna, það var mega flott.  Það dugði þeim sko enginn venjulegur hnífur nei nei, þau notuðu sverð!!!  Rosalega flott að sjá!

Veislan var meiriháttar og við fengum meira að segja matseðil til að velja úr, þetta var allt í allt fimm réttir; forréttur (melónusalad (ég) eða tómat og mozzarella salad), súpa (gulróta og kóríander), aðalréttur (kjúklingur fylltur með haggis eða nautakjöt með sinnepssósu (ég), eftirréttur (marens kaka með jarðaberjum eða profiteroles með súkkulaði sósu (ég).  Svo var byrjað að dansa á fullu.  Auðvitað í svona ekta skosku brúðkaupi þá var byrjað á Ceilidh dönsum en því miður á misstum við nú af þeim að miklu leyti, því að það var svo heitt inni að við brugðum á það ráð að hlaupa aðeins út, og gátum ekki hitt á betra augnablik því að við hittum þá einmitt á Joanne þar sem hún var búin að bisast við að gera aðeins við kjólinn sinn.  Þannig að við gátum talað aðeins við hana og fengum mynd af okkur öllum saman með brúðinni!  'The Celtic Department support group '08'!!!  Skruppum út í garð og viðruðum okkur áður en við fórum inn aftur og horfðum á afganginn af Ceilidh dönsunum á meðan við gæddum okkur á brúðartertunni og öðru snakki sem þeir buðu upp á.  Svo byrjaði diskóið og þá birtist George, maðurinn hennar Anne en hann var kominn til að keyra okkur aftur til Glasgow, þannig að við kvöddum brúðina allavegana fundum brúðguman hvergi þó ég efa að hann hafi verið langt í burtu.  Brunuðum svo í bæinn í svarta þoku og vorum komnar til Catriona upp úr tólf eftir um hálftíma - klukkutíma keyrslu í bæinn.  Catriona, Claire og ég vorum nú þrátt fyrir að vera dauðþreyttar ekki tilbúnar til að fara að sofa strax og tóruðum til um tvö þegar allur andi gafst upp og við fórum að sofa.

Sunnudagur 27. júlí 2008

Vöknuðum frekar snemma miðað við allt sem á undan hafði gengið og vorum farnar út rétt upp úr ellefu að hitta Söndru í hádegismat.  Við komum við hjá mér fyrst til að skila dótinu mín svo að ég þyrfti ekki að vera að dandalast með hatt á hausnum allan daginn enda var hitinn ekkert minni í dag en hann var í gær.  Hittum Söndru á Byres Road og enduðum á Tennents bar þar sem við fengum okkur að borða.  Catriona þurfti svo að fara heim þar sem hún átti von á vinkonu sinni í smá heimsókn.  Claire var á leiðinni heim og var ekki langt í að lestin færi og ég og Sandra ákváðum að skella okkur bara í bíó þannig að við vorum samferða Claire hluta af leiðinni í neðanjarðarlestinni.  Við skelltum okkur á Batman: The Dark Knight.  Virkilega góð mynd, var mjög hrifin.  Þegar við komum út af myndinni var klukkan hálf sjö og við þurftum að setja í fullan gír aftur, því að dagurinn var sko ekki búinn.  Við vorum nefnilega líka búnar að mæla okkur mót við Catrionu aftur rétt fyrir átta.  Þannig að við löbbuðum yfir til Söndru sem býr í um hálftíma fjarlægð frá bíóinu og tókum bílinn hennar yfir til mín, parkeruðum fyrir utan og löbbuðum yfir í Botanic gardens til að hitta Catrionu þar sem hún beið eftir okkur á bekk.  Við vorum nefnilega að fara á sýningu á 'The Bard in the Botanic', þar sem var verið að sýna Much Ado About Nothing eftir Shakespear og sýningin byrjaði korter í átta.  Við rétt náðum, ég leigði mér stól en stelpurnar settust á grasið og svo byrjaði sýningin.  Rosalega flott og náttúrulega vorum við mjög heppnar með veðrið sem gerði sýninguna þess mun ánægjulegri.  Við þurftum að flytja okkur um stað fimm sinnum og var sýning sett upp víðs vegar um garðinn og tókst með endemum vel.  Leikararnir stóðu sig með prýði og við vorum rosalega ánægðar með að hafa farið.  Þær skiluðu mér svo heim og Sandra skutlaði Catrionu heim á bílnum.  Frábærir dagar og allt gekk svona líka vel. 

Myndir:  bæði af Orkney ferðinni og svo úr brúðkaupinu er að finna á http://www.gelin.blogspot.com


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er ekki að spyrja að því, alltaf nóg að gera hjá Lafðinni Djö.. að maður skuli ekki geta kíkt á þig í nokkra daga

Hrabban (IP-tala skráð) 1.8.2008 kl. 12:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband