Færsluflokkur: Bloggar

Geggjað gaman

Þetta sama fyribæri hefur verið kostur í póstþjónustunni í Bretlandi.  Hægt að kaupa svokölluð "Smilers" sem eru ferlega skemmtileg frímerki.  Reyndar koma þau sem límmiðar og sem sett af tveimur frímerkjum, en bæði eru þau með merkt bresku póstþjónustunni með tilheyrandi drotningarhaus.  Einungis annað frímerkið er með verðgildi en hitt er með mynd af hverju sem þér dettur í hug að setja þarna inn.  Mér fannst þetta svo ferlega sniðugt að fyrir jólin fyrir nokkrum árum síðan keypti ég mér nokkur eintök og sendi með á jólakortunum heim. 

Það besta var að ég hafði fyrir þann tíma verið að vinna í póstmiðstöð Íslandspósts og þegar bréfin mín fóru þar í gegn voru þó nokkrir sem ráku augun í mig á frímerkjum á bréfum frá Bretlandi.  Ekki verra það, híhíhíhí.

Hérna er dæmi hvernig þau koma út í Bretlandi, vonandi verður það ekki verra hérna heima, hvaða möguleika hægt er að leika sér með.  Og vonandi ekki svo dýrt því að þetta var alls ekkert dýrt í Bretlandinu og bara til gamans gert.  Hrein snilld í sambandi við brúðkaup og annað sem er í gangi, að gera bréf meira persónulegri.

smiler copy

mbl.is Íslandspósti heimilt að gefa út persónuleg frímerki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bollywood II

Jæja, nú er ég búin að gerast svo fræg að fara á Laugaveginn í miðri viku til þess eins að kíkja í eina búð.  Fór í Bollywood búðina sem vinkona mín benti mér á og það lá við að ég færi ekkert út aftur.  Því miður voru þau með engar Bollywood myndir (og þess vegna finnst mér nafnið á búðinni ekki passa sérlega en það er annað mál) en afgreiðslukonan sagði að ef ég hefði áhuga væri eflaust lítið mál að útvega þær og að vonandi yrðu einhverjar myndir til í framtíðinni hjá þeim.  Ég útskýrði það að ég væri svo hrifin af Bollywood myndum að það væri nú eitthvað til að draga mig inn í búð ef búðin færi að bjóða upp á slíkan varning.  Ekki það að það vantaði neitt af varningi þarna inni sem mig langaði ekki í, slefaði yfir silkisjölum og rúmteppum og dúkum og húsgögnum þarna en hafið ekki áhyggjur ég þurkaði allt upp áður en ég fór út.  Kolféll fyrir silkisjali þarna sem var geðveikt fallegt á litinn en því miður á ég einungis penging fyrir nauðsyjum núna þar sem ég er að spara fyrir næsta ár í skóla.  En hver veit nema ég eigi eftir að reka inn nefið ef mér skotnast eitthvað skotsilfur þá veit maður aldrei.  Svo voru þarna upprunaleg auglýsingaplakköt frá Indlandi um Bollywood myndir, djö"#$ mig langaði í.  Fann reyndar ekki neitt spjald úr myndum sem ég hef verið að horfa á eða þá að ég kannaðist við þær.  Hélt að ég hefði kannski rekið augu í plakkat úr myndinni Sholay (sem ég á reyndar eftir að sjá, en dauðlangar til) en hver veit nema ef ég hefði rekið augun í eitthvað þá hefði ég labbað út með það.  Þau eru nefnilega svo flott og í staðinn fyrir að vera svona prentuð á glanspappír voru þau á spónaplötum sem gaf þeim svo geggjað flott útlit.  Allavegana er þetta búð sem ég á eftir að fylgjast vel með og á eflaust eftir að detta inn um dyrnar þarna þegar mér gefst tækifæri til.

Og til að skilja við ykkur á skemmtilegu nótunum þá fann ég fleiri myndbönd á Youtube.  Þetta myndband er úr mynd sem er mér mjög kær.  Þótt hún sé glaðleg og ljúf, þá er hún sorgleg líka.  Myndin heitur Kal ho na ho sem þýðir Morgundagurinn kemur kannski ekki (eða Tomorrow may not come).  Í þessu myndbandi er ein af aðalpersónunum að syngja um einmitt morgundaginn og framtíðina.  Þar fyrst kemur fram hvernig framtíð hann óskar eftir fyrir ástina sína og svo hvernig hann hefði óskað að hann ætti eftir að eiga hlut í hennar framtíð og svo sjáum við hvernig hugsanlega það muni ganga eða ekki.  Ég veit að ég er svolítið búin að eyðileggja fyrir ykkur myndina með því að segja kannski of mikið en þá veit ég líka að fáir af ykkur eiga kannski eftir að sjá myndina svo "what the hell", þetta er of fallegt til að láta það ekki með í þessari færslu.

 


Stundum get ég verið lítill púki... en ég geri ekkert :)

Ég á oft erfitt með mig þegar ég er stödd á stað þar sem ungir gaurar koma inn talandi í gemsann sinn á fullu.  Og í þokkabót þegar þegar tala mjög hátt, eins og til þess að sjá til þess að allir viti um hvað þeir eru að tala og hvað þeir eru að bralla stór viðskipti og við hvaða stórlaxa þeir voru að ræða við.  Eins og ég hafi nokkurn áhuga á því.  Sem lafði gerast engir aðrir merkari en ég á landinu og ekki er ég að ræða við þá.  En það er einmitt á þessum stundum sem mig langar rosalega mikið að fara upp að þeim og segja við þá að þeir þurfa ekki að tala svona hátt í símann að ég heyri ágætlega.  Til þess er leikurinn gerður þessi uppfinning SÍMI, það er svo fólk þurfi ekki að öskra yfir í næsta hús til að ná í félagann.  Það vill bara svo til að fáir hafa ennþá fattað það að þegar þeir eru að spássera um búðir á hæsta tóni með gemsann límdann við eyrað, að fólk heyrir oft meira en það vill.  Og einmitt þessir gaurar sem reyna að gera sig svo mikla með því að útvarpa fyrir einn og alla í kring hversu miklir stórlaxar þeir eru EKKI.  Það sem þeir eru frekar að útvarpa er að þeir eru með skerta heyrn og kunna lítið á mannleg samskipti utan þess að hrópa og kalla. En það er einmitt við þessar aðstæður sem púkinn í mér gerir vart við sig, en ég geri aldrei neitt.  Ég er svo hógvær og lítillát að ég vil ekki láta taka eftir mér eins og þessir gaurar sem þurfa að tilkynna að þeir eru mættir á svæðið. Lafðin þekki hvenær á að halda kjafti og hvenær á að taka til máls.

Töpuð tunga?

'A people without a language of it's own is only half a nation'
(Thomas Davis)
Sem Íslendingar höfum við aldrei þurft að horfa upp á það að tungumál okkar hverfi úr allra minnum. Við höfum aldrei þurft að líða það að það sé litið niður á okkur fyrir það að hafa tungumál sem fáir tala. Við höfum aldrei kynnst því að foreldrar okkar, afar og ömmur leyni fyrir okkur tungumáli sínu af því að það þykir skömm að tala það.
Þetta er það sem Skotar, Írar og Walesbúar þurfa að glíma við í dag og hafa verið að glíma við í þó nokkurn tíma. Í hundruð ár bjuggu þessir grannar okkar við fyrirlitningu frá Englendingum í sambandi við móðurmál þeirra, Gelísku og Welsku. Það undarlegasta við þetta er að þessi útrýming á móðurmáli þeirra fór fram í gegnum 'menntun' þeirra. Englendingar litu á Skota, Íra og Walesbúa sem óæðri kynþátt, ósiðmenntaðan og latan. Þeir þvinguðu enskunni inn, öll menntun fór fram á ensku sama gilti þótt fólk hefði varla neinn skilning á tungumálinu og með ofbeldi þvinguðu þeir fólkið til að hætta að tala móðurmál sitt, í skólum sem og heima hjá sér. Því var haldið fram að það væri tungumál þeirra sem héldi þeim aftur í sambandi við iðntæknivæðinguna á 19.öld. Þetta þurfti fólk að lifa við og þegar börn þeirra uxu úr grasi forðaðist það að tala móðurmál sitt við börnin sín. Þau hættu að sjá tungumál sitt sem eitthvað til að varðveita og kenna áfram.
Í dag eru Skotar og Walesbúar að miklu leyti hunsaðir af Bresku stjórninni, en samt er litið á þau sem hluti af Bretlandi. En þessi LÖND eru svo ólík Englandi og því sem England þarf að það er óskiljanlegt hvernig hægt er að ætla að það sem þjóni Englandi þjóni Wales og Skotlandi líka.
Welsh sem tungumál fékk ekki sama status og Enska fyrr en árið 1998. Írland var í aðeins betri stöðu og árið 1922 varð Írsk Gelíska opinbert tungumál í fyrsta sinn. Enska var svo annað opinbera tungumál þeirra og mátti fólk ráða hvort tungumálið þau notuðu. En Skosk Gelíska var ekki viðurkennt sem tungumál fyrr en um 1960.
Við, Íslendingar, getum talist heppin þar sem tungumál okkar er einstakt og það þekkjum við. Við getum ennþá á mikillar fyrirhafnar lesið skjölin og bækurnar sem eru geymd á Árnastofnun. Við erum öll mjög stollt af íslenskunni okkar, enda heyrist það í hvert sinn sem Íslendingar fara erlendis, þeir eru aldrei feimnir við að láta heyra í sér. Walesbúar voru hræddir við að tala Welsh í sínu eigin heimahúsi af ótta við að einhver kæmist að því og segði til þeirra. Er þetta nokkur leið fyrir fólk að búa og það í dag.
Sem betur fer hefur orðið vakning í málum þessara granna okkar. Þeir berjast fyrir að halda tungumáli sínu lifandi, að reyna að koma í veg fyrir það sem sumir segja að sé víst. Tungumál þeirra MUN deyja út. En á meðan fólk tekur sér tíma og kynnist aðstæðum Gelískunnar og Welskunnar og leggur lið við að varðveita þessi tungumál þá er enn tími til að sporna við útrýmingu þeirra.
Þetta blogg biritst fyrst á blogginu mínu Lost Languages, mánudaginn 16.maí 2005.

Berst ég út um víðan völl

Í þeirri merkingu að viðtal við mig hefur borist hingað til Íslands í tölvupósti frá Þýskalandi, frá þýskri fréttakonu sem var að taka viðtal við Odd Helgason ættfræðing með meiru og mig túlkinn hans (en greinilegt að nafnið mitt ber oftar á góma en mig grunaði að stæði til).

Þessi grein er á þýsku og ég verð að viðurkenna það að ég er ekki fyllilega búin að lesa hana, en hún hljómar vel (jafnvel á minni bjöguðu þýsku Grin).  Vonandi finnst ykkur þetta skemmtileg lesning.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Hef eitthvað alveg rosalega lítið að segja

En ákvað að láta vita af mér.  Það verður að segjast að ég hef það bara nokkuð ágætt eins og er.  Fyrir utan smá "riðuveiki" kast á síðasta mánudag þar sem ég endaði hjá heimilislækni.  Fyrir þá sem ekki vita þá fékk ég fyrir um ellefu - tólf vikum síðan það sem kallast Benign Positional Vertigo, og engin ástæða vituð af hverju.  En þetta þýðir að ég upplifa svimaköst, þar sem það skiptir litlu máli hvort ég eða umhverfið erum bæði still og kjur þá er allt á fleygiferð og ég næ ekki að ná neinum föstum punkti til að einblína á til að kjurra mig.  Þetta var verst fyrstu dagana þá mátti ég varla standa upp, leggjast út af eða annað og hvað þá að ferðast með bíl, þá fór ég í þessar litlu "flugferðir" sem gátu staðið í þó nokkrar mínútur og þegar verst lá við í nokkra klukkutíma eða heila daginn.  En upp á síðkastið eða síðan ég kom heim frá Glasgow hafa þessar litlu flugferðir látið mig í friði, þangað til á mánudaginn.  Svo slæmt að ég fór ekki í vinnuna og þótt ég næði að sofna aftur þá var ég ennþá með svima þegar ég vaknaði, svo að mamma dreif mig upp á heilsugæslu þegar tími losnaði.  Ég var nokkuð á því að það væri ekkert hægt að gera og þetta væri bara ennþá í gangi og lítið við því að gera en mamma þrjóskaðist samt við og hafði sínu fram og sendi mig inn til læknisins.  Hann leit yfir "riðuveiki-ferilsskránna" mína og fór svo að skoða mig í bak og fyrir.  Svo ákvað hann að athuga hvort að þetta væri nú ekki örugglega BPV, þannig að hann tók um hausinn á mér og hreyfði hann í þrjár mjög snöggar hreyfingar og svo átti ég að fókusa, en þetta hafði þau áhrif að mér fannst ég vera farþegi í þvottavél og það lá við að ég kastaði upp á aumingja lækninn.  Hann var ekki aldeilis ánægður með hversu svæsin viðbrögðin voru eftir svona langan tíma og ráðlagði mér að hafa samband við háls-nef-og eyrnalækni sem sérhæfir sig í svona svimatilfellum, þannig að nú þarf ég bara að bíða fram í lok ágúst til að komast til hans.  Það er vona að hann geti einmitt gert svipað og heimilislæknirinn gerði með snöggum hreyfingum til að framkalla svimann, til að stöðva hann fyrir fullt og allt eða til að sporna við því að ég fái fleiri köst.  En þessar snöggu hreyfingar eru meðal þeirra lækninga sem notuð eru við svona stöðusvima eins og það heitir á íslensku.

Það einkennilega er að miðað við að ég hef ekki verið að fá riðuveiki undanfarið þá fékk ég sem sagt þetta á síðasta mánudag og svo annað núna í gær (mánudag), ef ég vissi ekki betur héldi ég að ég væri með mánudagsveiki (nema fyrir þær ástæður að ég hef ekkert verið að drekka yfir helgina).  Ég bara vona endilega að ég fari að koma inn til lendingar og hætti þessum flugferðum.  Ég er að fara í flug í september og hef eiginlega ekki neina löngun í að fá tvær flugferðir á verði einnar þótt það væri góð tilbreyting á íslenskum viðskiptaháttum.


Nördið er mætt

Vá, hvað ég skemmti mér vel í dag.  Það var sko "Kátt í Kjósinni" hjá mér líka.  Ég eins og algjört nörd og kelta-fræðingur ákvað að skellt mér á fyrirlestur boðaðan á Eyrarkoti í Kjósinni.  Fyrirlesari var Þorvaldur Friðriksson fornleifa- og sagnfræðingur og hélt hann um klukkutíma fyrirlestur um keltneska menningu í Hvalfirði.  Mikið óskaplega var þetta gaman.  Ég sagði líka við mömmu að þarna hefði hún bókstaflega fengi nasasjón af því sem ég hef verið að leggja stund á í námi síðustu fjögur árin.  Rosalega gaman.  Ég náttúrulega veit mikið um keltana á Írlandi, Wales og Skotlandi en kannski minnst um þá hérna á Íslandi þótt ég hafi nú lagt á mig lestur um það undanfarið.  Mamma var svo ánægð með þetta og hún sá náttúrulega að ég ljómaði öll af áhuga.  Svo var ég náttúrulega mesta nördið þarna með blokk og penna og skrifaði niður af fullu athugasemdir og glósur eins og ég væri í tíma að læra.  Hann var þokkalega góður fyrirlesari og höfðu hlustendur gaman af því sem hann hafði frá að segja.  Hann kom svo inn á það að það væri bara eiginlega engin stoð fyrir því að ættfræðiáhugi landans væri frá Norðmönnum kominn, hann væri bara hugsanlega alfarið frá keltunum kominn.  Ég gaf mig svo á tal við hann eftir fyrirlesturinn og við vorum að tala saman um fræðina.  Honum leist mjög vel á það sem ég var að læra og sagði að það væri einmitt mikil þörf á fólki með þessa menntun í landið.  Hann var svo með einn doðrant með sér í farteskinu sem ég fékk að líta á.  Þetta var bók sem hann er vonandi að fara að gefa út sem fjallar um írsk örnefni á Íslandi.  Ég átti mjög erfitt með að láta bókina af hendi aftur, vildi bara labba með hana út í bíl og sökkva mér í hana.  Nefndi það að ég hefði nú áhuga á að eignast eintak af bókinni og vonandi þá áður en ég færi út í haust í áframhaldandi nám hjá einmitt manninum sem kenndi mér um keltnesk örnefni.  Ég veit nefnilega að hann hefði rosalegan áhuga á að sjá þessa bók, sérstaklega þar sem hann hefur haft svo mikinn áhuga á því sem ég hef hug á að leggja stund á og það er að breiða út orðið um keltneska menningu og bókmenntir á Íslandi.

Ég sé sæng mína útbreidda núna, ég þarf að fara að flytja út og koma mér fyrir í Skotlandi, leggja stund á fyrst 1 ár í M.Litt og svo 3 ár í doktorsnámi og síðan koma heim og vera einhvers konar menningar(hálf)viti hérna.

! Var að horfa á sjónvarpið, fréttirnar þar og hvað haldiði!! Ykkar einlæg var í sjónvarpinu.  Þetta þýðir að ég er búin að vera í sjónvarpinu núna 3 sinnum samtals í 3 mismunandi þáttum síðan 8. júlí.  Ég bara má ekki fara út úr húsi lengur þá lendi ég í sjónvarpinu.  En það á kannski ekki að koma mér svo á óvart, ég er nú Lafðin, og kannski ekki skrítið að landinn fái ekki nóg af mér Wink


Myndir

Bara lítil færsla frá mér núna.  Var að skella inn myndum á netið, það er hægt að finna linkinn á þær til hægri á aðal síðunni minni G-Elín.  Það eru myndir bæði frá útskriftinni minni og svo þegar stelpurnar og ég fórum út að borða á föstudaginn, svo eru náttúrulega fullt af öðrum myndum þarna inni.  Skemmtið ykkur.

Eitthvað til að kætast yfir

Fyrst að síðustu færslur hafa verið svona leiðinlegar, þá ákvað ég að skella einni góðri mynd inn af mér í útskriftardressinu með skjalið góða. 

Graduation 2007

Tekin í "hallargarðinum" í skólanum.  Við vorum með þeim síðustu að fara, þess vegna er ekkert fólk í kring, fyrr um daginn þegar við komum úr athöfninni voru rúmlega 1000 manns þarna, bæði gestir, útskriftarnemar, kennarar og starfsfólk.  Það var veriðað útskrifa um 340 manns í þessari athöfn. 


Bíræfið fyrirtæki

Jamm ég er ekki búin að fá nóg að pirrast út í Icelandair.  Ofan á allt annað þá er þetta ansí bíræfið fyrirtæki.  Fyrr í dag skrifaði ég bloggfærslu um upplýsingarnar sem við höfðum frá Icelandair og lét fylgja með texta sem ég tók af síðum þeirra bæði á .is og .co.uk um "hjálpina" sem þeir buðu uppá.  Nú var ég að heyra að þeir eru búnir að breyta textanum.  Þeir voru ekki að hafa fyrir því að skrifa nýja frétt með uppfærslu á fyrri upplýsingum heldur, breyttu þeir textanum sem var fyrir.  Það kemur undarlega út að gera þetta svona og alls ekki mjög sniðugt heldur eins og sést hérna fyrir neðan.  Þetta er tekið af Icelandair.co.uk síðunni og segir ýmislegt:

Icelandair flights to and from Glasgow

01.07.2007 00:15

Glasgow Airport is open and Icelandair flights continue to operate. Some flights may be subject to delays. Please note that Icelandair recommends passengers to check in three hours prior to departure to allow for extra security procedures implemented by airport owner BAA since 30th June 2007.
Icelandair thanks its passengers for their patience and understanding.

Þetta finnst mér mjög undarlegt að sjá, sérstaklega þar sem flugvöllurinn opnaði ekki fyrr en um átta en þarna miðað við tímann á fréttinni átti þetta að hafa komið inn á vefinn nærri átta tímum áður en flugvöllurinn opnar.  Ef starfsmenn Icelandair eru skyggnir afhverju voru þeir þá ekki búnir að vara farþega og viðskiptavini sína um þetta löngu áður.

Nokkuð er um sömu sögu á íslensku síðunni:

Flug til Glasgow 1. júlí 2007

30.06.2007 23:47

Í kjölfar atburða sem áttu sér stað í Bretlandi laugardaginn 30. júní 2007, hefur viðbúnaðarástand verið hækkað og öryggisgæsla hert á breskum flugvöllum.

Flug til Glasgow sunnudaginn 1. júlí 2007 fór á tilsettum tíma en lenti á Terminal 2 í stað Terminal 1. Búast má við einhverjum seinkunum á fluginu frá Glasgow til Keflavíkur.

Farþegar eru vinsamlegast beðnir um að fylgjast með komu og brottfarartímum á vefsíðu Icelandair og á textavarpi Ríkissjónvarpsins.

Afsakið en mér finnst þetta óafsakanlegt af fyrirtæki að reyna að hylja það að þeir hafi ekki vitað "#$$ hvað var að gerast og breiða yfir það að hafa ekki veitt viðskiptavinum sínum betri upplýsingar en þetta.  Ég held að sem viðskiptavinur að fólk sem ferðast með flugfélagi vill vita að það getur stólað á einhvern til að veita upplýsingar sama hversu litlar þær eru.

Ég er einnig á því að ef að samskipti milli fyrirtækja og samstarfsaðila ganga ekki eftir sem best þegar eitthvað svona kemur upp á, þá eiga þeir sem staddir voru á flugvellinum að sinna skyldum sínum fyrir Icelandair að gera ekki neitt fyrr en þeir voru búnir að ná sambandi við Icelandair í London eða Íslandi um hvað skyldi gera fyrir farþegana og hvað þyrfti að gera til að greiða þeim leið heim.  Ég veit það að um 30 manns á vegum Icelandair voru skildir eftir í Glasgow og það er eflaust út af því að þeir hafa ekki haft hugmynd um hvert átti að leita eins og við.  Þetta eru forkastanleg vinnubrögð.  Flugfélagið mætir bara á staðinn og fer á loft varla klukkutíma seinna án þess að taka tillit til þess að það er öngþveiti fyrir utan og enginn veit neitt, hvorki hvert á að fara eða við hvern á að tala í sambandi við ákveðin flug.

Ég er bara ekki sátt við svona, flugfélög eru ekki bara strætó sem hægt er að hoppa inn og út af.  Það tekur þó nokkuð á af hálfu farþegans að standa í því að ferðast með þeim, það minnst væri að þeir sýndu einhverja tillitsemi og háttsemi þegar eitthvað bjátar á.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband