Færsluflokkur: Bloggar
3.10.2007 | 18:55
I'm singing in the rain
Eftir hörmungarsögu síðasta bloggs þá ákvað ég að vera á léttari nótunum i dag. Eftir að ég kom aftur til Glasgow og skólastarfið byrjaði, þá er ég búin að fá hvern tölvupóstinn á fætur öðrum um "welcome parties" frá hinum og þessum deildum innan deilda og annað. Af þremur er ég búin að fara í tvö, hjá Faculty of Arts sem var að bjóða Postgraduates velkomna. Kvöldið eftir var partí hjá History Society fyrir þá sem eru í Sagnfræðideildinni og ég er víst í henni þetta árið. En ég fór ekki í það partí því að ég hafði eiginlegan engan áhuga á því. Tel mig ekki sagnfræðing og hvorki Sandra né Catriona höfðu áhuga á að fara heldur, þannig að ég vildi ekki fara og vera eini keltanördinn innan um alla hina nördana. I like to be special, just not that special.
Svo í gær, var boðið í soirée í Scottish History deildinni minni og auðvitað skelltum við okkur þangað, héldum að við myndum loksins hitta á fólk sem við þekkjum. En nei, það var ekki fyrr en löngu seinna sem liðið (og þá eigum við við kennaraliðið) sem við þekktum. Dauvit Broun og Bronagh Ni Chonaill, Robert O'Maolalaigh og fleiri. Þá byrjaði fjörið og við höfðum um margt að kjafta, þótt að við stelpurnar vorum búnar að hanga saman síðasta klukkutímann. Ég held að þetta hljóti að vera furðulegasta eða eiginlega fáranlegasta partí sem ég hef mætt í. Ekki það að partíið var æði, en það var einn furðufugl sem algjörlega brilleraði þarna. Furðufuglinn heitir Guto Rhys, gaur frá Wales og postgraduate (eða eilífðarstúdent væri réttnefni frekar). Ég hef "þekkt" hann í núna meira en tvö ár, hann var með mér í Old Irish tímum fyrir tveim árum síðan og á síðasta ári, rakst ég óþarflega oft á hann á skólalóðinni líka. Hann er svona einn af þeim sem veit margt en notar það aðallega til að monnta sig af, frekar en áhuga á að deila þekkingu. Þoli ekki svoleiðis karaktera. En þannig að hann svona, já, veit hver ég er, eða gerði það síðustu tvö árin. En greinilega ekki núna. Ég, Catriona og Sandra stóðum saman að pískra þegar við sjáum að hann er mættur. Catriona man líka eftir honum og svo kannaðist Sandra við hann af því að hann hafði verið fenginn í það að sýna henni um skólasvæðið, sem þýddi það að þau höfðu verið að hanga saman ráfandi um skólasvæðið og svo eytt um rúmlega klukkutíma í kaffiteríunni þar sem hann sat á móti henni og þau voru að tala um daginn og veginn. Hann fer umhverfis herbergið og kemur loksins að okkur. Hann snýr sér beint að mér og spyr, "já, mér var sagt að þú talar welsku", kom alveg flatt upp á mig. Ekki það að ég óskaði ekki að það væri rétt en hahahaha, nei! Hann var þá að rugla mér við Söndru, sem er frá Suður Wales og hafði einhvern tímann á skólaferlinum lært welsku. Hann fór þá að tala við mig um hvað ég væri að læra og hefði helst áhuga á og bla bla bla og endalaust stóðu stelpurnar við hliðina á mér og göptu á gaurinn. Hann var ekkert að spyrja um neitt sem hann hafði ekki spurt um áður, en svo kórónaði hann allt þegar hann sneri sér að Söndru. Og fór að spurja út í hvað hún hefði áhuga á að leggja stund á. Hún lét eins og ekkert væri og svaraði honum að hún hefði áhuga á að læra Ogham og rúnir í sambandi við incriptions (áletranir á ýmsum furðulegum stöðum). Þá klingdi í honum að hann hefði verið að tala við einhvern um daginn sem væri að halda þessu ... (einhverju) fram í sambandi við það einmitt. Og ég bara sá á svipnum á Söndru að hún vildi helst sökkva niður um gólfið því að hver heldurðu að hafi verið manneskjan sem hann hafði verið að tala við. Hann kveikti aldrei á perunni. Við ætluðum ekki að trúa þessu, stuttu seinna færði hann sig yfir í næsta hring til að tala við fleiri og við vorum svo fegnar. Þetta var æðislega fáránlegt. Að það skuli ekki renna upp fyrir honum á einhverju tímabilinu hver hún var. Við erum þrjár að læra M.Litt í Scottish Medieval Studies svo útilokunaraðferðin ætti alveg að virka í þetta skipti. Stuttu seinna sluppum við heim á leið og hlógum að þessu alla leið þangað til leiðir okkar skildust.
En aftur að partíunum. Svo er mér boðið í annað partí í næstu viku, langar ekki að fara og ætla ekki að fara. Og svo var að berast eitthvað annað boð inn um tölvupóstlúguna en virkaði ekkert spes þannig að ég pældi ekkert í því. En svakalegur lúxus er það að vera postgraduate hérna núna. Ég er komin með aðgang að postgraduate club, þar sem ég fæ minn eigin lykil til að komast inn í bygginguna sem hýsir tvo bari, kemur ekki á óvart hér í Glasgow. Svo hef ég aðgang að postgraduate study area á tveim stöðum, eitt sem er nýbúið að gera við því að þakið féll inn, en þar þarf líka lykil til að komast inn og til að fá afnot af skápum með lyklum og þar er einnig tölvuaðgangur. Svo er komið nýtt study area, rosalega flott, sá það þegar ég fór í fyrsta partíið og þar er hot spot fyrir tölvuna, les herbergi sem hægt er að taka yfir og almennur lestrarsalur líka og þetta er á tveim hæðum. Á eftir að vita hvernig maður fær aðgang að því, af því að þetta er allt svo glænýtt. Þannig að ég held að það verði gaman að vera svona priviledged student einu sinni. En það er alveg ótrúlegt hvað það er búist við að maður hafi mikinn djammtíma þegar maður er postragd, ég sit hérna sveitt yfir bókunum og er ekki einu sinni komin með bækur fyrir alla kúrsana. Lofar góðu :-|
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.10.2007 | 21:41
Þegar maður er að því kominn að gefast upp ... þá
Síðustu tvær vikurnar hafa verið rosalega erfiðar. Það er ótrúlegt að vita til þess að það er hægt að tegja svona á veseni og halda aftur af því að svara fyrirspurnum sem ætti ekki að taka það langan tíma.
Þetta byrjaði allt áður en ég kom til Glasgow, ég sendi prófessornum mínum tölvupóst og bað um að fá að hitta hann svo við gætum sest niður sem fyrst og rætt saman hvaða fög ég væri að taka í ár og hvað ég þyrfti að hafa í huga. Ég sendi einnig tölvupóst á kennara í ensku deildinni til að forvitnast um kúrs sem er kenndur í þeirri deild. Hún hafði beðið mig í endann á síðasta skólaári að hafa samband við sig þá um hvort það þetta fag, Old Norse / Old Icelandic yrði kennt, því að það færi eftir þátttöku nemenda úr ensku deildinni hvort kúrsinn yrði kenndur. Þannig að ég samviskusamlega hafði samband að fyrra bragði og með góðum tíma.
Daginn eftir að ég kem til Glasgow, mánudaginn 17., setjumst við Dauvit Broun, prófessorinn minn, niður og við förum að velta því fyrir okkur hvað ég sé að fara að gera og komumst svona nokkurn veginn að niðurstöðu. Ég hafði á þessum tíma fengið svör frá ensku deildinni að hún myndi ekki vita hvort kúrsinn yrði kenndur þetta árið fyrr en fólkið í deildinni kæmi saman og ákveddi hvað þau vildu læra. Á þessum tíma vissi ég að önnur stúlka við Scottish Medieval deildina sem ég er í hafði áhuga á að læra Old Norse líka. Á fimmtudaginn fengum við þær fréttir að við fengjum að taka Old Norse en ekki fyrr en á næstu önn, s.s. eftir jól, en þetta voru samt góðar fréttir. En þetta þýddi líka að við þurftum að finna okkur tungumálakúrs fyrir þessa önn. Þar sem ég var búin að taka Old Irish og Middle Welsh, var engin ástæða að taka það aftur, þannig að ég þurfti að finna eitthvað annað. Þess vegna datt mér í hug, Old English, svona til að fullkomna hringinn. Ef ég gerði þetta væri ég með fullt hús af miðaldarmálum Bretlandseyja. Dr. Broun og ég hittumst á þriðjudag aftur, reyndar við öll í introductory class þannig að við töluðum lítið um aðra kúrsa og ákváðum af því að við vorum búin að fá svar um Old Norse að hittast á fimmtudag og vita hvað við myndum gera í málinu. Þannig að á fimmtudag bar ég undir hann að taka Old English sem honum leist mjög vel á, en því miður er vefsíða skólans svo vel upp sett að það finnst ekkert af viti. Þannig að ég hljóp yfir í ensku deildina og reyndi að tala við alla sem ég hitti á en fann enga, dömurnar á skrifstofunni bentu mér að hafa helst samband við ÞESSA ÁKVEÐNU PERSÓNU af því að það væri hún sem væri að kenna Old English. Mjög hjálplegt hélt ég. Ég fór aftur yfir í skosku deildina og bað kennarann minn að hafa samband við þessa persónu til að útskýra svo ekkert færi á milli mála hvað við vorum að leytast eftir fyrir mig. Ég bjóst við fljótu svari, en þetta kennir mér að vera bjartsýn á skipulagshæfni kennara.
Tölvupósturinn er sendur klukkan þrjú á fimmtudegi og ég bjóst við að fá vonandi flótlega svar. Ekkert varð af því, ég komst ekki upp í skólann á föstudag til að tala við neinn og svo kom helgin og ekkert svar barst. Ég dreif mig því mjög snemma (fyrir mig) upp í skóla á mánudagsmorgun til að reyna að hitta á ÞESSA ÁKVEÐNU PERSÓNU SEM ER AÐ KENNA KÚRSINN til að reyna að fá einhverjar mínútur. Ég hef nefnilega lært það á síðustu fjórum árum að það er best að tala við fólkið "face-to-face" því þá kemst það ekki upp með það að fara undan í flæmingi og þykjast ekki skilja mann. Ég hitti á ÞESSA PERSÓNU sem var frekar stuttaraleg við mig og sagði að hún hefði vísað tölvupóstinum á aðra manneskju sem þurfti að gefa leyfi fyrir því að ég tæki kúrsinn. Í fyrsta sinn sem ég heyri að það þurfi, hingað til hefur hver sem er getað tekið hvaða kúrs sem hann vill, jafnvel þótt það sé bara til að sitja inni á honum, svo lengi sem þú hefur borgað skólagjöldin. En allavegana, þá var ég ekki búin að fá svar frá neinum og svo klingir hún út með það að þetta hljóti að vera í fínasta lagi þótt ég mæti og ég ætti bara að skella mér á kúrsinn. Ég var ok með það og spurði hana með hvenær og hvar tíminn væri. "Já, þú getur bara fundið það út á töflunni niðri í gangi" og svo rauk hún í burtu. Ég fór og fann töfluna með tímunum og fann þá út að tíminn er á sama tíma og aðal kúrsinn minn er á þriðjudögum svo þar fór það, ekki get ég mætti á tvo staði á sama tíma. Ég var ekkert smá pirruð út í liðið, af hverju hún gat ekki eytt tveim mínútum í það að segja mér allavegana að það væri önnur manneskja að fara yfir málið fyrir mig svo ég gæti haft beint samband við hana. Af hverju hún gat ekki eytt tveim mínútum í að segja mér nákvæmlega það sama og hún sagði við mig í dag í tölvupósti. Og af hverju hún gat ekki eytt tveim mínútum í að senda mér tölvupóst með upplýsingar um kúrsinn, hvenær og hvar hann væri kenndur. Jú, hahaha, það er af því að það er svo rosalega mikið að gera hjá öllum. Ahahahhaha, já það er eins dæmi. Mér þætti gott að hafa það sem afsökun fyrir að svara ekki kennurum eða skila ritgerðum af því að það er svona rosalega mikið að gera hjá mér. Af hverju er þeirra tími dýrmætari en minn.
Núna stóð ég frammi fyrir því að vita ekkert hvaða kúrs ég var að fara í tungumálum, sem þýddi það að ég vissi ekkert hvaða daga ég myndi þurfa að mæta í skólann sem þýddi það að ég hef núna ekki getað haft samband við kennarann sem ég á að hitta í Dumfries á tveggja vikna fresti um hvaða dagar henta til að ferðast þangað. Því ef ég fer til Dumfries þá er þetta heils dags verkefni út af fyrir sig. Ferðin tekur tvo tíma, fyrsta lestin fer klukkan níu að morgni og ég veit ekkert hvenær ég get hitt á hann yfir daginn þannig að ég veit ekkert hvenær ég kem heim á kvöldin. Er framtíðin ekki björt. Þannig að ég var að því kominn að gefast upp og gefa skít í þetta allt saman. Ég er ekki að borga mörg hundruð þúsund fyrir það að fólk hafi ekki tíma til að svara mér, af því að mín menntun skiptir þau engu máli.
Þetta er sérstaklega vont þar sem margir af kúrsunum eru byrjaðir þar á meðal Old English og fleiri. Eftir að það varð ljóst að ég gæti ekki tekið Old English þá var bara Latínan eftir. Ég hafði þá samband við Dr. Broun, hann var ekki við þegar ég var uppi í skóla, þannig að þegar ég kom heim sendi ég honum enn einn tölvupóstinn og spurði út í Latínuna.
Og þá erum við komin til dagsins í dag. Ég var búin að kíkja á tölvupóstinn minn í gærkvöldi og í morgun og ekkert. Af einhverri ástæðu ákvað ég að kíkja aftur á póstinn um ellefu. Sé þá að ég er búin að fá svar frá honum og byrja að lesa og ég frís. Honum fannst það leitt að þetta skyldi ekki ganga upp með Old English og sagði mér þá að Latínan væri þegar byrjuð og að það væri tími í dag klukkan tólf í Classics department. Þegar ég les þetta er klukkan tíu mínútur yfir ellefu. Ég hleyp til og slekk á tölvunni og er á leiðinni út þegar ég fatta það að ég veit ekkert hvar Classics department er. Þannig að ég kveiki aftur á tölvunni og finn út, Oakfield Avenue, og rýk af stað. Veit nokkurn veginn hvar það er og hringi á leigubíl. Hann skilar mér af rétt hjá skólabókasafninu og ég fer að leita, finn Oakfield Avenue hvergi og bygginginn sem gamla kortið mitt sagði mér að Classics department sé er í viðgerðum. Ég fer inn á bókasafnið og spyr þar í afgreiðslunni og þeir segja mér að Classics department er í aðalbyggingunni, ég efast ekki um það og held þangað af því að varla getur það verið í byggingu sem er búið að rústa fyrir utan útveggina. Þegar ég kem þangað kíki ég á annað kort en það er þá allt annað en var á bókasafninu og ég þarf þá að fara til baka og enda á Accommodation office til að spyrja þau og þau elskulega segja mér hvar Oakfield Avenue er og það meikar miklu meira sens þannig að ég fann þetta fyrir rest þrátt fyrir að vera búin að reika um skólasvæðið í tuttugumínútur. Ég kem inn á skrifstofu þar, kófsveitt og skjálfandi af stressi og þá segir hún mér að það sé enginn tími í dag, heldur er latínan kennd á mánudögum og fimmtudögum. Ég hélt að það myndi líða yfir mig!
Jæja það þýddi ekki að fárast út í það og fékk upplýsingar um námsefnið og bók sem ég á að fjárfesta í og gekk frá því áður en ég hlammaði mér niður í kaffiteríunni og fékk mér að borða og nóg að drekka. Ég var uppgefin, langaði helst bara að fara heim og ekki hugsa neitt um neitt. Var alveg búin að fá upp í kok af óskipulagsleysi og vitleysu og öllu því sem ég er búin að þurfa að standa í síðustu daga og vikur.
En ég er að vona að núna fari hlutirnir að ganga og að þetta fari að komast í réttan farveg því mér líður virkilega illa þegar ég næ ekki að festa svona hluti í farveg sem first. Mér líður illa þegar hlutir eru ókláraðir og vil helst hafa hlutina á sínum stað. Ég er óttalegur sóði en ég er samt skipulögð í óreiðunni og ég geng aldrei út frá því að fólk þurfi ekki að fá svar við spurningum sínum eða fullvissu um að verið sé að vinna í hlutunum og ég er aldrei of sein í að skila einu eða neinu frá mér, hvorki skólabókum, ritgerðum eða leiguspólum. Þess vegna áskil ég mér rétt að vera ógeðslega pirruð út í ÞESSA ÁKVEÐNU PERSÓNU í ófyrirsjáanlega framtíð. Svona hjálp er engin hjálp!
Fyrirgefið langlokuna en þetta bara varð að komast út.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
23.9.2007 | 16:37
Nú er ég öskureið
Íslenskan sem einangrunartæki!
Deili ekki þeim ótta sumra að íslensk þjóð sé eins og barnið í baðvatninu. Sé tungunni hent fari þjóðin. Þegar öllu er á botninn hvolft skiptir mestu hvað er hugsað á Íslandi, um hvað er talað, hvernig fólkið er innréttað. Hvernig manneskjur þetta eru sem hér búa.
Málið er samskiptatæki en getur einnig verið kúgunartæki þar innifalið tæki til að einangra og útiloka.
Ég sé ekki betur en að Írum vegni bærilega þó þeir tali ensku. Óvíða hef ég kynnst meiri þjóðerniskennd en í Úkraínu. Minni hluti Úkraínumanna talar þó úkraínsku, meirihlutinn rússnesku. Í bæjum og þorpum nálægt landamærum eru þorp þar sem eingöngu er notast við tungumál nágrannaríkja.
Almenn rökvísi segir manni að betra sé að tilheyra stórum málhópi en smáum.
Óheppilegt er að eyða lífi sínu innan veggja tungumáls sem fáir botna í. Maður á möguleika að skilja fleiri og fleiri átta sig á tali manns í réttu hlutfalli við stærð málhólfs.
Aðgangur að bókmenntum og listum eykst í réttu hlutfalli við stærð málsvæðis.
Sé maður vís er gott að sem flestir heyri. Sé maður fávís hefur maður gott af að heyra sem flest.
Það rífur skörð í veggina að læra tungumál síðar á æfinni en brýtur þá sjaldnast.
Nú er ég ekki að mæla með því að íslenskunni sé kastað. Jafnvel þó hún sé fremur stirt mál eins og reglan er með tungumál sem eru notuð af fáum. En þegar alið er á þeim ótta að íslenskan glatist þegar fólk af erlendum uppruna er ráðið á barnaheimili ...þegar alið er á sama ótta þegar stungið er upp á því að enska verði einnig notuð í viðskiptum.........þegar alið er á sama ótta þegar færð eru rök fyrir því að tvítyngd væri þjóðin betur á vegi stödd.....
Þá fnnst mér að farið sé að nota íslenskuna sem einangrunartæki.
Eftirmáli: Las það að tvítyngdu fólki væri síður hætt við elliglöpum og Alzheimer. Umhugsunarvert.
(http://baldurkr.blog.is/blog/baldurkr/entry/318889/)
Ég get ekki annað gert en brugðist við svona bloggi, enda er ég öskureið ákkúrat núna. Ég verð að segja að ég er algjörlega ósammála Baldri Kristjánssyni í þessu. Ég efast um að hann hafi fyllilega gert sér grein fyrir hvað hann er að segja með þessari grein og vil ég gjarnan vona að ég hafi verið að misskilja hann stórlega. Hvort sem um ræðir grein til fjörlegrar umræðu eða annað. Mér er ill skiljanlegt að nokkur geti haft slík viðhorf gagnvart þjóð sinni, tungu og menningu.
Það sem ég les út úr þessari grein er að honum finnst óskiljanlegt af hverju við Íslendingar erum að halda í tungu sem svo fáir tala, en er íslenskan þá eitthvað minna gild en önnur tungumál eða bara gagnvart enskunni. Um leið og við förum að tala um það að íslenskan meini okkur aðgang eða auðveldi ekki fyrir samskiptum um viðskipti erum við í vondum málum og mig hryllir við þessari þróun sem virðist vera að spretta upp. Og ég skal segja þér af hverju.
Þú talar um að Írar hafi það bærilegt þótt þeir tali ensku, en hefurðu einhverja hugmynd um af hverju þeir tala ensku en ekki írsku. Hefurðu einhverja hugmynd um hvernig það kom til að þeir skiptu yfir frá írsku yfir til ensku. Og hvað með Skotland, af hverju tala þeir ensku, eða Walesbúar, eða þeir sem eru búsettir á Bretaníuskaganum. Því nú verð ég reið. Hvernig heldurðu að þér myndi líða ef að þú værir barinn og lítilvirtur fyrir það að tala á því móðurmáli sem þú varst alinn upp við. Og hvernig heldurðu að fólk sem alið er upp við slíkar aðstæður fari að lýta móðurmál sitt. Það lítur á það sem eitthvað slæmt, ekki til að vera stolt af. Það hættir að segja börnum sínum sögur sem þau lærðu sem börn sjálf. Þau meina börnum sínum að apa eftir sér orðin, þau segja þeim að þau eigi að læra ensku því að það er engin framtíð í gelísku. Þau sem töluðu gelísku voru álitin heimsk og illaþenkjandi minna en þegn í þjóðfélagi. Er þetta hugsun þín til íslenskunnar að í nálægri framtíð verður það skömm okkar að tala íslensku. Í Wales, þar sem meirihluti byggðar var samblanda af þeim sem voru welskir og töluðu welsku og þeir sem voru af enskum uppruna og töluðu ensku. Stjórnvöld fengu nágranna að njósna um nágranna sína og segja til þeirra ef þeir dirfðust að tala welsku innan veggja heimilis síns. Þessi tungumál voru barin úr fólki á sem ógeðfelldasta hátt og þér finnst skrítið að ég taki svona grein inn á mig með þessum hætti.
Þú talar um að Írar hafi það fínt með ensku en menningarheimurinn hefur það ekki. Forn írska er að mörgu leyti flókið tungumál og vegna þess eru enn mörg skjöl og handrit ennþó óþýdd, þarna er menning að gleymast og ef við náum ekki að mennta fólk í þessu forna tungumáli þá gleymast og týnast ómetanleg menningarverðmæti.
'There is no tracing ancient nations but by language and therefore I'm always sorry when language is lost because languages are the pedigree of nations.' Samuel Johnson 1766)
Írska er í dag viðurkennt tungumál hjá Sameinuðu þjóðunum, og Írland er búið að berjast fyrir því lengi að tungumál þeirra sé viðurkennt sem tungumál. Írska er opinbert tungumál Írlands. Welska er opinbert tungumál Wales. En Skotland er á mörkum þess að tína alfarið tungumáli sínu gelískunni. Í dag eru ekki nema um 62þúsund manns sem tala gelísku sem fyrsta tungumál. Veistu við hvaða mörk tungumál er í útrýmningarhættu. Það er við 50þúsund!!!
Hugsaðu því aðeins áður en þú talar, það er ekki langt bilið á milli ca 330 000 og 50 000. Ég verð að segja það að ég hef virkileg óbeit á fólki sem skilur ekki hvað það er að gera þegar það talar um að leggja tungumál til hliðar af því að það hentar ekki íslensku efnahagskerfi eða viðskiptum eða hvað sem er. Þetta er sama hugsunin og var hjá fólkinu sem sló og barði og þvingaði fólk inn á enskuna í Skotlandi á sínum tíma. Ég var um stund í tölvunarfræði við Háskólann í Reykjavík. Bækurnar voru á ensku og forritunarmálið var og er á ensku en viti menn kennslan fór fram á íslensku. Af hverju? Sumir leggja það ekki fyrir sig að vera tvítyngdir og það er gott, og það er mun skynsamlegra heldur en að úthýsa einu tungumáli í staðinn fyrir annað af því að það hentar einhverri skrifstofublók sem sér ekki haginn í því að halda í eitthvað sem hann hefur ekki not á þegar hann fer til útlanda í viðskiptaferð, guð má vita hvaða tungumál hann notar til að tala við fjölskyldu sína.
Ég hef lagt stund á þó nokkur tungumál (þar á meðal ÍSLENSKU, dönsku, ensku, frönsku, þýsku, gelísku, forn írsku og miðaldar welsku) og ekki geri ég upp á milii neinna þeirra. Öll þessi tungumál eiga sinn rétt á tilveru ekki bara af því að það þjónar nokkrum einstaklingum að tala annað umfram eitt. Það er eitt orðatiltæki til sem mér finnst henta ansi vel núna og er það: OFT VELTIR LÍTIL ÞÚFA ÞUNGU HLASSI og um leið og við förum að tala um að losa okkur við tungumál okkar úr einum eða öðrum geira þá finnst mér hræsnin vera að kollríða samfélaginu. Ef við erum svona tilbúin til að losa okkur við íslenskuna af hverju eru þá þeir sömu sem minnast á þetta í sömu andrá að tala með fyrirlitningu um útlendingana sem eru búnir að koma sér fyrir á Íslandi en eru ekki orðnir altalandi á íslensku eftir fyrstu þrjá mánuðina!
Við eigum að halda í íslenskuna okkar eins lengi og eins fast og við getum og aldrei að gefa hana upp viljandi og í sömu andrá eigum við að vera framarlega í því að temja okkur eins mörg tungumál og við getum, því jú, með aukinni menntun bæði á tungumálum og öðru höldum við mörgum líkamlegum og andlegum sjúkdómum í skefjum.
'A people without a language of it's own is only half a nation'
(Thomas Davis)
Að tilheyra stórum málhópi er hægt að gera á fleiri vegu en að eyða öðrum málhópi því það gerir ekkert fyrir menningu eða menntun. Það minnkar hana heldur til muna og ef hann heldur því fram að Íslendingasögurnar séu alveg eins þegar er búið að þýða þær yfir á ensku hefur hann ekki hugmynd um hvað það fellst í takast á við að þýða bókmenntaverk. Ekki nóg með það að bókmenntir eru rosalega samfélagsbundnar þá eru þær líka rosalega brothættar. Ef Englendingur með enga vitneskju um Ísland, íslenska sögu eða annað tengt íslandi fer og les Íslendingasögurnar þá já í besta falli finnst honum þær skemmtilegar og öðruvísi en hann mun aldrei koma til með að skilja þær fullkomlega því að hann þekkir alls ekkert inn á þjóðfélagið og tímann sem þær gerast á. Heldurðu virkilega að það sé hægt að taka eina sögu og staðsegja hana annars staðar og allt hafi sömu merkingu í því menningarsamfélagi góurinn. Og það er ekki hægt að fara fram á góða þýðingu (og þá þýðingu sem kemst næst því að flytja menningu úr einni tungu yfir í aðra) nema hafa góðan skilning á þeim tungumálum sem verið er að þýða úr og þýða yfir í.
Segðu mér ef þú finnur fyrir sorg þegar eftir 200 ár eða svo að sá síðasti sem hafði íslensku að móðurmáli deyr, hvort þú ert ennþá á sama máli með að íslenskan er einangrunartæki. Þú talar um að ég sé hrædd í sambandi við svona umræðu og ég svara því alfarið játandi. Ég er skíthærdd. Því ég hef séð með eigin augum hvað það getur gert þjóð þegar hún hættir að líta á tungumál sitt með stolti og telur hana standa í vegi fyrir sér á alþjóðavetvangi í staðinn yfir að sjá hana sem verðmæti sem fáir aðrir í heiminum eiga.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
21.9.2007 | 18:31
Hefðir eða vilji, siður eða regla
Það á að vera val hvers og eins einstaklings (eða brúðar og brúðguma) hvernig athöfnin fer fram. Það getur vel verið að þetta er siður sem hafi ekki tíðkast í Svíþjóð, en það þýðir ekki að hann eigi sér minni rétt en annar siður. Ég held að fæstir í dag, tengi brúðkaup við akkúrat það; brúðar-kaup og ég hugsa að fæstar brúðir séu til í að halda því fram að þær séu eign feðra sinna eða svo seinna eiginmanna. Þetta snýst einfaldlega um vilja, óskir og væntumþykju.
Ein vinkona mín, Joanne, er að skipuleggja brúðkaupið sitt á fullu. Byrjaði á því um jólin í fyrra og stendur í stappi við móður sína um brúðarkjóla og sætaskipun. Brúðkaupið er ekki fyrr en í ágúst á næsta ári! En það er ekki það eina sem hún stendur frammi fyrir að velja um. Foreldrar hennar skildu fyrir mörgum árum síðan og bjó hún lengi hjá móður sinni og seinna stjúpföður. Föður sinn hittir hún einu til tvisvar sinnum á ári þar sem hann býr í Danmörku. Hún stendur statt og stöðugt á því við okkur vinkonurnar að það skal vera faðir hennar sem fylgi henni upp altarið, hún á bara svolítið erfitt með að láta móður sína vita og skilja það, því að hún er ákveðin í því að vera sú sem fylgir dóttur sinni að altarinu. Hér gildir ekkert um það hvort foreldrið fylgir brúðinni að altarinu, það er ekkert sem kemur í veg fyrir það að móðir fylgi dóttur að altarinu. Ég spurði hana út í það af hverju hún vildi að faðir sinn fylgdi henni. Ég skal taka það fram að þessi stúlka er frekar hefðbundin og siðprúð. Hún tók það fram að henni fyndist þetta tilheyra en svo kom; "... but he's my dad and I want him there beside me". Ég held að þetta svari af hverju brúðir vilja hafa föður sinn sér við hlið.
Hver er það sem stúlka lítur upp til þegar hún er lítil. Sá á heimilinu sem hún hefur kannski ekki eins mikil samskipti við og við móður sína en sá sem hún virðir og veit að það er ekki af ástæðulausu. Hann er pabbi hennar, þess vegna hlýtur hann að vera besti maður í heimi. Hver myndi ekki vilja hafa hann við hlið sér þegar hún tekur oftar en ekki stærsta skref líf síns; að fara úr foreldrahúsi í sitt eigið og standa á eigin fótum með eiginmanninn sér við hlið.
Ég skil vel að brúðir vilji hafa föður sinn sér við hlið og það gerir hlutverk móður brúðarinnar ekkert síðra, því oftar en ekki eru það þær sem eru stoðin og styrkurinn fyrir dótturina áður en þær leyfa föðurnum að leiða dóttur sína upp að altarinu.
Þessi siður tíðkast ekki á Íslandi heldur, en það kemur ekki í veg fyrir að foreldrar séu ekki innan handar fyrir brúðina, hún veit að hún getur alltaf leitað til þeirra, hún lítur út yfir kirkjuna yfir kirkjubekkina og sér þar foreldra, fjölskyldu og vini og hún veit að hún er ekki ein og hún dregur styrk frá þessari sjón.
Til væntanlegra brúða segi ég þetta, ef þið eruð svo heppin að eiga foreldra og fjölskyldu leyfið þeim að vera stoð ykkar og styrkur á stóra deginum, það eru alls ekki allir svo heppnir.
Svo aftur á móti eru náttúrulega þeir sem eiga hundleiðinlega fjölskyldu og þá segi ég bara ... Las Vegas!
Karlremba að feður fylgi dætrum að altarinu? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
19.9.2007 | 19:06
Elín er ekki sú þolinmóðasta
Ekki misskilja mig, ég er fjandi þolinmóð en öllum eru takmörk sett. Ég fór upp í skóla í dag að skrá mig (Register) eins og ég hef gert síðustu fjögur árin og þetta er svo týpískt fyrir bjúrókrata-skrifinnsku-brjálæðis-æði-þjóðfélag að það er ekki einu sinni fyndið. Ég mæti á staðinn og ég er spurð hvað ég sé að gera þarna og ég svara náttúrulega að ég sé að skrá mig sem postgraduate að byrja í nýju námi við skólann (en samt sem continuing student). Maður ætlaði ekki að skilja mig, ég er búin að vera hérna í fjögur ár, enskan er ekki vandamálið. Hann ætlaði að senda mig hingað og þangað, þangað til hann loksins HLUSTAÐI á mig og bað mig þá að setjast niður og bíða eftir að það losnaði sæti hjá registry fólkinu. Svo kom loksins að mér og ég var spurð um pappíra sem ég HAFÐI ALDREI FENGIÐ og Student Adviser minntist ekkert á að mæta með neitt svoleiðis í Registry. Fyrst átti þetta að vera eitthvað vandamál en svo þegar hún spurði hvort ég væri búin að pre-registrera mig á netinu og sjá Student Adviser þá var allt í ein allt orðið ok og hún merkti mig Registraraða. Þá kom að næsta skrefi að borga þessa himinháu upphæð af skólagjöldum og það er fyndin saga út af fyrir sig.
Venjulega þegar ég fer í banka (heima á Íslandi) og bið um ávísun, fæ ég hana strax í hendurnar, ekkert múkk, jafnvel þó hún sé á erlendan gjaldmiðil upp á mörg hundruð þúsund. Mér er treyst fyrir mínum eigin peningum. Hérna sögðu þau mér í gær að það gæti tekið 3 daga að fá ávísun fyrir skólagjöldunum mínum. Þeir eru ekki í lagi. Nei það þurfa einhverjir karlar út i hinum stóra heimi að samþykkja það að ég fái ávísun útgefna frá bankanum stílaða á Háskólann í Glasgow með peningum úr bankareikningnum mínum sem ég er með í Skotlandi. Ég held bara að það sé ekkert traust í bankamálunum hérna hvorki milli viðskiptavina né starfsfólks bankans.
En þetta leystist því að ég gat borgað skólagjöldin með debet-kortinu mínu. Ekki það að það væri neitt auðvelt, það tók um 15 mínútur að koma því í gegn, konan þurfti að hafa samband við bankann til að fá heimild á svona stórri úttekt, skiljanlegt og ágætt fyrirkomulag svosem, og svo þurfti ég að svara 3 öryggisspurningum í gegnum símann til að konan væri nú viss um að þetta væri örugglega ÉG!!!
Og voilá, ég var líka spurð um þennan blessaða pappír við greiðsluborðið líka, og þau ætluðu nú að þrjóskast við þar líka, þangað til þau skildu loksins að ég var búin að registrera og það hafi ekki verið neitt mál þótt að þessi bleðill væri ekki inni í sögunni. Svo fékk ég kvittun fyrir allri þessari blessaðri upphæð sem ég var að borga og ég fékk OFFICIAL UNIVERSITY RECEIPT, vitiði það að þessi kvittun er svo lítil og vesældarleg að það myndi ekki nokkur stofnun heima taka þessu sem giltum pappír í bókhaldinu sínu. Ég fæ númeraseðil fyrir biðröð sem er stærri en þessi kvittun! Það er ekki í lagi með þau hérna.
En ég var að verða búin og hélt á ég myndi sigla á lignum sjó restina af ferðinni í gegnum salinn. En nei, ég fór að sækja ID kortið mitt og þar tók á móti mér maður af indverskum uppruna og hann þurfti endilega líka að spurja mig um þennan fjandans pappír sem ég hafði ekki fengið en það hafði samt ekki aftrað mér á allri þessari ferð að þessum stað. Þá spyr hann þessara rosalega skemmtilegu spurningu (með Abu hreim); "HOW DO YOU THINK YOU ARE GETTING FROM HERE TO THERE" (hann meinti frá honum til mannsins sem afhenti skírteinin. Ég svaraði "WALK!!!" Auli, ég sýndi honum að ég var búin að borga og ég væri búin að skrá mig og bladi-bla-di-bla og hann ætlaði að vera með svoddan vesen og þurfti að hlaupa út um allt til að gera ekki neitt af viti og á meðan þurfti aumingja maðurinn sem sat við id-kortavélina að hlusta á mig bölva manninum í sand og ösku fyrir að láta svona. Eitthvað minntist hann á "yeah, what are rules for anyway" ég sagði að það kæmi málinu bara ekkert við, ég hefði aldrei fengið þennan pappír, það hefði ekki komið í veg fyrir að ég gæti registrerast og ég gæti varla verið að framvísa einhverju sem ég hefði aldrei fengið!!!!
Svo náttúrulega af því að ég var alls ekki sátt við þennan minni en post-it note kvittun þá fór ég á þrjá aðra staði til að fá eitthvað aðeins meira áþreifanlegra til að senda til LÍN og svona, það tókst loksins og fékk ég kvittun fyrir greiðslu skólagjaldana senda til mín á .pdf skjali, þannig að þetta átti aldrei að vera svona hryllilega erfitt. Einn staður hótaði því meira að segja að það gæti tekið viku til 10 daga að fá svona pappír í hendurnar, ha, eitthvað misfórst þeim, þetta var komið í tölvuna mína þegar ég kom heim í hádeginu. En svona eru Bretar, þurfa alltaf að gera svo mikiði vesen úr hlutunum, og allt þetta bara út af einu andskotans bréfi sem komst aldrei til mín. Það kom þó ekki í veg fyrir að ég kæmist í skólann var það! Þeir eiga að vita það að póstþjónustan hjá þeim er með þeim verstu í heiminum (tala af faglegri og eigin reynslu) og þeir þurfa þá að geta tekið á því þegar þessi þjónusta bregst en ekki vera með kjaft.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.9.2007 | 21:57
Með gin og klaufaveiki í Glasgow
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
16.9.2007 | 19:58
Úrvinda af þreitu í Glasgow
Já, kellan er bara komin til Glasgow fimmta árið í röð. Fæ ekki nóg af staðnum, það er alltaf svo svaka gaman hérna (nema þegar maður er svona aleinn). Vá hvað ég er ekki hrifin af að vakna alltaf svona um fjögur á nóttu til þess að geta farið í skólann. Reyndar þarf ég ekki að vakna á hverjum morgni klukkan fjögur en þessi flugtími er út í hött. Mér er búið að líða frekar ömurlega í dag og allan gærdag eiginlega. Flökurt og ómótt og allt á flegi ferð. Ég er nefnilega vön að fá svona spennu einkenni fyrir flug en venjulega aldrei fyrr en morguninn sem ég á að fljúga en var svo óheppin að einkennin komu fram í gær líka. Kom samt ekki í veg fyrir það að ég færi að sjá vinkonu mína dilla sér í magadanskeppni, sem var nú bara svei mér flott og hún stóð sig líka geðveikt vel. Ég held að ástæðan fyrir því að spennan var svona ágeng á mig núna er sú að ég er búin að vera veik. Var veik alla þar síðustu vikuna og var heima að megninu til að láta mér batna, en greinilega er ég ekki öll orðin góð ennþá. Þannig að ég verð bara að fara vel með mig þangað til.
Flugið fór eitthvað örlítið seint af stað en vorum komin til Glasgow fljótlega upp úr níu. Vá hvað það ringdi, það helli ringdi. Þetta var geðveiki. Það var svo fyndið að líta út um gluggann þar sem við biðum eftir að komast í stæði. Úti fyrir sá ég hreyflana á flugvélinni ennþá á fullu og svo rigning alls staðar í kringum okkur og við þessar aðstæður mynduðust hver á fætur öðrum pinkulitlir hvirfilbylir og maður sá alveg skýstrókana standa af þessum litlu fyrirbærum. Um leið og einn fauk í burtu kom annar í staðinn, rosalega sniðugt að sjá og sem betur fer voru þeir svona litlir. En fyrir vikið og rigninguna fékk ég náttúrulega hundblautar töskur í hendurnar eftir að vera búin að bíða í meira en hálftíma eftir þeim. Dreif mig út í bíl og heim. Þegar ég kom þangað lá mér eitthvað svo á að koma mér og farteskinu inn um dyrnar að ég keyrði næstum um koll og lenti í fanginu á einum nemenda ásamt fjölskyldu hans. Töskurnar fóru á flug og önnur þeirra skall í gólfið með þeim afleiðingum að hún fláði mig næstum lifandi, allavegana ca. 3 cm af skinni aftan af vinstri fætinum á mér fyrir ofan hæl. Ég skarta núna fjórum plástrum þar, af því ég átti ekki almennilegar sáraumbúðir fyrir svona stóra rispu, djö"#$% hvað þetta var sárt. Aumingja maðurinn sá svoleiðis aumur á mér að hann hjálpaði mér upp með farangurinn minn, ég var rosalega hrifin af því, ekki verra sko, þar sem ég var orðin særð ofan á það að vera svo þreytt að ég var að hníga niður.
Þegar ég kom inn í íbúðina tóku á móti mér tvær dömur, Sara (Skotland) og Nicole (Bandaríkin). Ég henti töskunum inn í herbergi og fór fram að tala við þær. Þá fékk ég þær æðislegu fréttir að FRAKKINN ER FLUTTUR ÚT. Og þá meina ég maður af frönsku þjóðerni en ekki flík. Og þá meina ég ekki með að ég sé einhver Frakka-hatari, heldur er ég þreytt á að umgangast (ef hægt er að kalla það það) mann í tvö ár sem segir ekki múkk við mann og dettur ekki einu sinni í hug að láta vita að hann ætlar að halda tuttugumanna partí í eldhúsinu sem við hin fjögur erum um og okkur er ekki boðið. Takk fyrir heimsendingaþjónustu á mat, segi ég bara. Þannig að ég er óskaplega fegin að þurfa kannski ekki að lifa á örbylgjumat bara af því að einhverjum finnst gaman að elda gourmet máltíð fyrir sig og bara sig þannig að það taki upp undir 2-4 klukkutíma og allar fjórar hellurnar og ef vel til tekst ofninn og örbylgjan líka! Kannski loksins fæ ég að elda mínar ofureinföldu tuttugumínútu uppskriftir, sem tekur aldrei nema eina hellu / ca 45 mín í ofni og þá kannski líklega 15 mín í örbylgju.
Skrapp svo í búðir, ekki bara af því að mér finnst það svona gaman heldur af því að það vantaði helling af dóti hérna. Svo þurfti ég náttúrulega að fá mér að borða, fór í St. Enoch's centre og viti menn, það er bara búið að breyta öllu þarna, það er víst verið að fara út í einhverjar framkvæmdir og viti menn ég bara rataði ekki lengur liggur við. Það sem getur breyst á bara tveim mánuðum. Ég entist nú reyndar ekki lengi í verslanarápi því að fæturnir voru að fara að gefa sig og ég var næstum því sofnuð í lyftunni í Marks og Spencer, þannig að ég ákvað að drífa mig bara heim og redda fleiru á morgun. Kínveskur í kvöld og bara afslöppun enda efa ég að ég vaki lengi frameftir.
Fer á morgun að hitta Dr. Dauvit Broun um valið mitt fyrir þetta ár. Jabb, ég veit ekkert hvað ég er að fara út í, veit ekkert hvað er í boði og það sem mig langar að taka veit ég ekki hvort er kennt. Þannig að þetta verður spennandi.
Þetta lítur meira út eins og dagbókarfærsla en blogg en ég vildi allavegana láta vita af mér. Ég hef það fínt, það er hlýtt og þurrt inni hjá mér og ég ætla bara að vera löt í kvöld. Best að taka lífinu með ró.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.9.2007 | 23:09
Hvað kom fyrir?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
6.9.2007 | 12:13
Luciano Pavarotti
Þeir sem þekkja mig vel vita hversu mikið ég held upp á Luciano Pavarotti. Alveg síðan ég var smástelpa. Ég hef lítið vit á tónlist en ég veit hvaða tónlist fær mig til að líða vel og Pavarotti er einn af þeim sem ég get alltaf huggað mig við. Hann er alltaf svo ljúfur og hógvær í tónum sínum. Hann er fastur liður í spilaranum fyrir jól og reyndar eins oft og hægt er. Eitt lag virkilega einkenndi þennan mann og það er Nessun Dorma og er það eitt af mínum uppáhalds lögum sem hann hefur nokkurn tíma sungið. Ég sá þessa upptöku af síðustu opinberu tónleikunum sem hann hélt og þá söng hann einmitt þetta frábæra lag og ég bara varð að setja það hérna inn til minningar um frábærann söngvara.
Ti adoro
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)