Fyrirlesturinn mikli og ævintýri á Fernleigh road

Þetta er sannarlega búið að vera undarleg vika.  Fór í próf í Old English á þriðjudag og það kemur í ljós seinna hvernig gekk, þetta var svona ágætt en ennþá þó nokkur atriði sem ég á eftir að vinna úr (aðallega lýsingarorð ... þau hjálpa ekkert!).  En samt sem áður gaman og kennarinn var allt of hjálplegur með orðaforða, þurftum eiginlega ekkert að hugsa fyrir þessu.

Miðvikudagur og fimmtudagur fóru í að við stelpurnar vorum að æfa okkur í fyrirlestrunum okkara uppi á bókasafni.  Bókuðum herbergi handa okkur og vorum að vinna í að fægja og pússa það sem við ætluðum að gera á föstudaginn í "Fyrirlestrinum Mikla".  Verslings Catriona var veik á miðvikudag þannig að það voru bara Sandra og ég sem vorum að puða.  Vandamálið er þegar maður veit of mikið um eitthvað efni að koma því sem skilvirklegast frá sér.  Þannig að við settumst niður og fórum vel yfir allt sem ég vildi tala um og þá gátum við komið þessu loksins frá okkur.  Þannig að restin af miðvikudeginum fór í að skrifa upp fyrirlesturinn og pússa til.  Var að til klukkan tólf um miðnætti en hætti þá, aðallega af því að heilinn fór í verkfall.  Fimmtudagurinn var mun betri, þá þurftum við bara að fínpússa aðeins til og vorum aðallega að spá í "handouts" handa liðinu og tæknilegu hliðinni sem snýr að powerpoint sýningum.  Catriona var búin að vera að basla við veikindi ofan á tölvuvandræði og vonuðum við það besta að það væri komið í lag fyrir föstudaginn.  Drifum okkur svo heim til að leggja loka hönd á verkið.

 Svo rann föstudagurinn upp.  Ég hafði unnið að því að prenta út fyrirlesturinn og "handouts" til klukkan ellefu nærri því, því að prentarinn ákvað að vera með uppsteit.  Tókst að lokum og ég gat hlaupið í sturtu og tekið til inni í herberginu til að gera það sæmilega fínt fyrir gesti.  Fyrirlesturinn átti að byrja klukkan tólf en við, þessar forsjálu dömur, ákváðum að hittast í QM í kaffi og súkkulaði áður en píningin byrjaði.  Ég var mætt vel fyrir ellefu og kom mér bara vel fyrir með blað fyrir framan mig og beið eftir stelpunum.  Catriona mætti svo um ellefu og náði sér í vatnsflösku og smá súkkulaði til að vekja heilasellurnar.  Svo biðum við eftir að Sandra léti sjá sig.  Þá fékk ég símhringingu sem reyndist vera hún og guð minn góður er ég heyrnalaus, þurfti að afhenda Catrionu símann þar sem ég heyrði ekkert hvað hún var að tauta (sem reyndar reyndist vera hún að hlaupa upp University Avenue öskrandi í símann í stressi).   Þá hafði allt sem gat farið úrskeðis farið úrskeðis hjá henni í morgun og þurfti hún að hlaupa upp á bókasafn til að prenta út nokkur blöð fyrir fyrirlesturinn.  Þannig að hún var að biðja okkur um að kaupa yfirstrikunar penna og kaffi handa sér.  Auðvelt að redda því og eftir það fórum við yfir í Scottish Department bygginguna þar sem fyrirlesturinn átti að vera haldinn og biðum eftir henni þar. 

Svo kom hún og það var ennþá um hálftími þangað til að fyrirlesturinn átti að byrja þannig að við gátum róað hana niður.  Claire vinkona var þá líka mætt, hún ætlaði að mæta á fyrirlesturinn okkar og svo ætlaði hún líka einmitt að hitta Dauvit Broun kennara í sambandi við að fara í M.Litt á næsta ári.  (Oh, svo heppin og ég öfunda hana geðveikt).  Ritarinn í deildinni var á fundi og vildi ekkert við okkur tala þannig að við þurftum að bíða eftir að ná tali af Davy til að fá lykilinn að fundarherberginu og svo fórum við á fult í að reyna að koma tölvunni hennar Söndru í gang og þetta úber fansí tól sem þeir eru með til að varpa powerpoint á tjald.  Sem var náttúrulega ekki að virka.  Eitthvað nýtt dót sem enginn kann á ennþá og enginn vildi hjálpa til heldur, svaka gaman.  Svo fengum við myndvarpa í staðinn og það ætlaði að ganga miklu betur fyrr en við sáum það að það vantaði usb kapal milli tækisins og tölvunnar og hann fylgdi ekki með.  Æðislegt!  En þá vorum við svo heppin að deildin á auka laptop og það var verið að koma með hana til að skila, þannig að við ætluðum að vera rosalega tæknileg og vona að sú vél myndi húkkast vel í nýja myndvarpatólið en þá rak ég augun í að það var auka usb kapall með tölvunni þannig að í staðinn fyrir að eyða fleiri mínútum í eitthvað sem engin garantí var fyrir að myndi virka þá skelltum við gamla myndvarpanum í gang og allt gekk eins og í sögu eftir það.  Þegar við vorum þá loksins orðnar tilbúnar þá fékk Sandra að byrja á fyrirlestrinum svo hún væri bara búin og gæti slappað af það sem eftir var af tímanum.  Dauvit Broun og Bronagh Ní Chonaill voru þarna að dæma okkur í bak og fyrir, bæði fyrir innihald og fyrirlesturinn sjálfan.  Svo var Anne búin að bætast í hóp áhorfenda, ásamt Claire.  Sandra stóð sig með prýði þrátt fyrir allt mótlætið.  Ég fékk svo að fara næst og ég sem er eflaust mesta tæknimanneskjan af okkur öllum, lét pappírinn bara duga.  Greinilega greindarmanneskja á ferð heheheheh.  Catriona var svo sú þriðja og síðasta af okkur með fyrirlestur og var aðeins ævintýragjarnari en ég og var með glærur.  Ég held að við höfum allar staðið okkur bara þokkalega vel.  En mest vorum við fegnar að þetta var búið.

Við vorum svo á leiðinni í hádegismat þegar við rákumst á Matthew, eina strákinn sem hefur lifað af Celtic þegar við vorum þarna og við eiginlega rændum honum úti á götu og fórum yfir í klúbbinn okkar og fengum okkur að borða.  Kjöftuðum og skröfuðum eins og við hefðum ekki hist í þrjátíu ár, þetta var svoddan fjör.  Anne yfirgaf okkur svo fyrst þar sem hún var að fara heim að elda mat handa okkur.  Hún er svo æðisleg að hún var búin að bjóða okkur í "Áfallahjálp" heim til sín eftir daginn.  Svo fórum við nú að tígja okkur út og þá yfirgaf Matthew okkur, en bara í nokkra klukkutíma því að hann ætlaði að hitta okkur á Central Station klukkan sjö og koma með okkur til Anne.  Einn strákur með sjö stelpum, varla færi hann að kvarta.  Þannig að við vorum núna orðnar fjórar eftir.  Ég, Sandra, Catriona og Claire.  Fórum í Somerfield og Byres Road og keyptum hellinginn allan af alls konar snakki og kökum og súkkulaði og víni og fórum heim til mín.  Settum okkur niður og opnuðum flöskurnar og svo flæddi áfengið og góðgætið um herbergið næstu klukkutímana.  Horfðum smá á sjónvarp og héldum áfram að kjafta og hlæja eins og vitleysingar.  Komum okkur svo saman um að taka leigubíl niður á Central Station þar sem við vorum með ansi marga pinkla með okkur og lögðum af stað um sex.  Biðum eftir Mattew og Jo þar og rétt um sjöleytið birtist Jo, þannig að við þurftum einungis að bíða í nokkrar mínútur í viðbót eftir Matthew sem var búinn að raka sig og gera sig fínann fyrir kvöld með stelpunum.

Tókum einvers konar minilest til Muirend í Glasgow sem er í suður-hlutanum.  Hef aldrei farið í svona lest áður, sem fólki fannst mjög merkilegt og það fannst mér líka.  En svona er það þegar maður heldur sig bara á litla bletinum sínum.  Komum til Muirhead og fórum úr lestinni og áttum von á að sjá Anne þar, en hún var hvergi sjáanleg.  En svo kom hún hálf hlaupandi niður stigann í áttina að okkur þannig að við vorum mjög fegin að við höfðum ekki klúðrað fyrirmælum hennar.  Svo tók við nokkurra mínútu löng gönguferð til Fernleigh road sem er einhvers staðar í felum í suðurhluta Glasgow.  Húsið hennar er með því einu æðislegasta og glæsilegasta húsi sem ég hef nokkurn tíman augum litið og mjög lítillátann hátt.  Var helst til í að sparka henni og fjölskyldunni út og setjast að þarna bara alveg sjálf.  Rosalega flott allt saman. 

 Við komum okkur fyrir í setustofunni og fórum að spjalla og hláturinn ómaði eflaust langar leiðir.  Hún var fljót að koma með áfengið og snakkið var þegar á borðum.  Við biðum svo andartak eftir Sharon og þegar hún kom, var okkur boðið að setjast í borðstofuna þar sem maturinn var til.  Æðisleg borðstoða verður að segjast og maturinn ekki síðri.  Fengum bæði grænmetist og venjulegt lasagna og brauð og salat með.  Hún var með svona rosalega sniðugt apparat sem heitir víst "housewife trolley" í borðstofunni, hún gat geymt matinn inni í apparatinu og haldið honum heitum þar, algjör snilld.  Eitthvað sem hvaða húsmóðir þarf að eiga.  Alveg æðislega sniðugt. 

Einhvern tímann seinna um kvöldið fórum við svo að spila Scottish Quest sem ég hafði tekið með mér í partíið og ákváðum við að skipta þessu bara í tvö lið, fjórir á móti fjórum.  Við höfðum svo gaman af þessu og í hvert skipti sem (sama hvaða lið) við áttum að velja úr hvaða flokk við fengjum spurningu þá báðum við alltaf um Sögu spurningu því það var það eina sem við vissum að við ættum mesta möguleika á að vita eitthvað úr.  Liðið mitt vann fyrsta spilið og svo vann hitt liðið næsta spil.  En fleiri spil urðu það ekki, því að við vorum orðin of vel í því til að athyglin héldist, reyndar var farið að skorta ansi mikið í athyglina hjá fólki í seinni umferðinni.  Sumar spurningarnar vöktu upp svoleiðis viðbrögð að það var rosalega fyndið.  T.d. "What language is often associated with the Picts?"  Þið hefðum átt að heyra í okkur, þakið ætlaði að rifna af húsinu þegar við fórum að rökræða þessa spurningu.  Algjör snilld.

Ég hafði tekið með mér eiginlega of hálf tóma flösku af Tópas og sá eftir að hafa ekki tekið óáteknu flöskuna, en svo kom í ljós að það var kannski bara betra.  Stelpurnar voru lítið hrifnar af því, þannig að það voru bara ég og Matthew sem smökkuðu almennilega á því.  Matthew var alveg vitlaus í þetta en gerði kannski ekki það gáfulegasta, því að stuttu seinna var kann kominn í whiskeyið og fékk sér tvö stór staup af því og það ofan í allt rauðvínið sem hann var búinn að drekka.  Enda ekki skrítið að hann varð veikur á leiðinni heim í leigubílnum.  Sem gerði það að verkum að við hentum honum heim fljótlega eftir að við höfðum skilið Söndru heim.  Svo skiluðum við Catrionu heim og ég fór síðust.  Þannig að ég var komin heim þegar klukkan var orðin fjögur um nóttu.  Skreið upp í rúm og setti sjónvarpið á og fór að horfa á Carry on Doctor og steinsofnaði svo.  Vaknaði ekki fyrr en klukkan var að ganga eitt í dag.  Og ekki alveg frá því að það voru nokkrir timburmenn hjá mér í rúminu þegar ég vaknaði.

En ég er nú svo hörð af mér að ég skellti bara nokkrum verkjatöflum í mig og fór út í búð að versla.  Ætlaði að reyna að hafa upp á einni góðri mynd í HMV en varð ekki kápan úr því klæðinu, skrapp bara í Marks og Spencer til að kaupa kvöldmáltíð og þegar ég var á leiðinni út, rak ég augun í þessa líka sætu peys og svona fínan bol að ég fór að máta og endaði með einn poka í viðbót áður en ég fór heim.

En það er pottþétt að það verður að endurtaka svona æðisleg kvöld aftur, sérstaklega þar sem þetta var svona eins og ærlegur endurfundur okkar Keltisistanna.  Hafði ekki einu sinni séð Jo frá því í apríl í fyrra þannig að þetta var geggjaður dagur og æðislegt kvöld.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Steingrímur Helgason

Frábært að eiga bloggvennsli sem að er að læra til nornar í Haggislandi, & hefur líka þetta mikið gaman af.

Mikið gaman að lesa þetta...

Steingrímur Helgason, 19.1.2008 kl. 22:53

2 Smámynd: Gunnar Helgi Eysteinsson

Mér líður eins og ég hafi verið að stelast til að lesa dagbók... 

Gunnar Helgi Eysteinsson, 20.1.2008 kl. 00:08

3 Smámynd: Lady Elín

Ef að þetta væri dagbókarfærsla væri þetta ekki eins ritskoðað og þetta raunverulega er   +

Lady Elín, 20.1.2008 kl. 12:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband