31.1.2008 | 20:52
Heimspeki, dýrlingar og fornleifafræði
Ég er farin að skammast mín svo að skrifa svona lítið að ég ákvað að leifa ykkur að fá smá nasasjón af því sem á daga mína hefur drifið. Skólinn er aftur kominn á fullt núna eftir að fyrstu tvær vikurnar af skólanum fóru í fyrirlestra og próf. Ég stóð mig vel og fékk góðar einkunnir fyrir bæði, sem eru góðar fréttir. Síðan skólinn byrjaði höfum við allar verið mjög uppteknar að lesa fyrir tímana okkar. Sandra og Catriona eru einnig í tímum í sambandi við þeirra sérfög, en ég á ennþá eftir að hitta kennarann minn. Í síðustu viku fengum við tíma í skoskri miðaldarheimspeki og var það bara gaman. Eflaust ef það hefði verið meiri tími til þá hefðu virkilega spennandi umræður skapast en eins og þetta var þá var þetta bara flott. Mér finnst alltaf jafn gaman að lesa heimspekilegar eða guðfræðilegar ritgerðir karla (aðallega presta eða munka) frá miðöldum, þær eru svo ótrúlega flóknar en einfaldar í einu, svona ákkúrat eins og heimspeki er.
Í þessari viku vorum við að fjalla um Hagiography eða Skrif um dýrlinga, oft kölluð Lives of the Saints eða Vitas. Mjög skemmtilegt líka, ég fékk að lesa um minn uppáhalds dýrling, St. Columba of Iona (Colum Cille 'the dove of the church', eða eins og ég kalla hann stundum 'the pigeon'). Las verk Adomnáns (Little Adam), sem var munkur og ábóti um hundrað árum eftir að St. Columba lést á eyjunni Iona. Það er svo margt sem er hægt að lesa út úr svona verki, pólitísk áróður klausturs eða valdabarátta milli kirkna og prestakalla, hvernig þeir eru að reyna að brúa bilið milli heiðinnar og kristinnar trúar með því að setja tíma heiðninnar (guði og siði) inn í áætlun guðs og rétt tímatal fyrir siðmenningu er algjör snilld. Það er oft mun meira vit í að lesa þessar bækur og önnur verk eftir munka og presta frá miðöldum heldur en Biblíuna, allavegana er ég komin á þá skoðun eftir að vera búin að stúdera þetta í fjölda ára. Sandra fékk að lesa sér til um St. Ninian, dýrlingur, jafnvel þótt hann hafi aldrei verið til!!! Hún komst svo að ástæðunni, sem var að munkarnir voru bara algjörir kapítalistar og bjuggu til dýrling, samansettan úr kraftaverkum annarra dýrlinga til að geta fengið annað biskupsdæmi og þá hjá Whithorn sem var undir Anglo-Saxon yfirráðum á þeim tíma. Catriona fékk mjög skemmtilegan dýrling að fjalla um St. Margaret (sem var líka drottning). Eitt af því sem einkennir dýrling er að þeir framkvæma kraftaverk. St. Margaret er sögð aðeins hafa framkvæmt eitt kraftaverk og er það beinlínis 'copy' og 'paste' frá öðrum dýrling, meira að segja dýrlingnum mínum St. Columba. Þannig var nú það. En þetta var allavegana mjög áhugavert.
Í næstu viku erum við svo aftur komin í fornleifafræði og það er ekki eins skemmtilegt, en ég er farin að sjá að það sem ég veit er farið að skemma fyrir mér að geta horft á fallegar gamlar byggingar og kastla eins og ég gerði þegar ég var mun mun yngri. En þetta er svona öðruvísi fornleifafræði en að grafa í jörðu með teskeið, þetta er meira arkitektúrinn og annað í þeim dúr. Bækurnar um efnið eru allar mjög svipaðar, þar sem verið er að fjalla um rannsóknir á byggingum og svo verða allri fornleifafræðingarnir rosalega spenntir af því að það er svona veggur þarna og svo næstu þrjár blaðsíðurnar fara í það að fjalla um hvernig veggur þetta er, hversu hár, breiður, úr hvaða efni hann er og bla bla bla. Undarlegir fornleifafræðingar.
Annars verð ég að játa það að Sandra og ég erum að fara yfir um, okkur langar svo að búa til nýja ECMS skrá (Early Christian Monuments of Scotland catalogue) sem Allan Anderson gerði fyrir um hundrað árum síðan og var virkilegt meistaraverk síns tíma, en núna er lítið hægt að gera við það, þar sem skráin er mjög ófullkomin og ýmislegt sem vantar og svo náttúrulega rosalegir vankantar á slíkri skrá sem er ekki uppfærð reglulega. Okkur langar helst að setja þetta upp sem skrá á bókarformi þar sem ýmsar basic upplýsingar um 'monumentið' (sem getur verið allt frá steinkrossum og stórvirkjum til minni hluta eins og nælur og 'torq's' og ýmislegt annað í þeim dúr) og svo myndi cd fylgja sem væri með meiri upplýsingar sem og myndir (í smáatriðum) sem og hugsanlega vídeó af fyrirbærinu þar sem væri hægt að skoða það ítarlega án þess að þurfa að gera sér sérstaka ferð á staðinn, sem er oft rosalega erfitt, þar sem margir þeirra eru virkilega óaðgengilegir fyrir flest fólk. Við erum bókstaflega búnar að byggja þetta upp í hausnum á okkur og helst langar okkur að fara upp að peningafólkinu núna og segja 'Látið okkur fá peningana og við skulum gera þetta' í staðinn fyrir eins og þeir eru að tala um að þetta þurfi að vera 20-30 manna verkefni. Bollocks!! (excuse my french), ef þetta margir kæmu að verkefninu myndi vera allt of mikið um ósamræmi og markmiðið með þessu er einmitt að samræma og búa til heilstæða skrá af hlutunum, og við erum vel í stakk búnar að gera allt þetta.
Ég er svo áhugasöm um þetta að ég ætla einmitt að fara að dúlla mér við að búa til skjámyndir fyrir þetta. Ég er nefnilega tækninördinn sem les New Scientist reglulega og Sandra sem gapir á mig fyrir að finnst blaðið skemmtilegt. Þannig að ég mun sjá um tæknilegu hliðina á meðan hún sér um bóklega og fræðilega hlutann. Allavegana á meðan við erum í þykistuleik með þetta, svo verða einhverjar breytingar hjá okkur þegar raunveruleikinn kemur inn í myndina. Hvenær það verður eða hvort er ekki gott að segja. Gaman samt á meðan.
Athugasemdir
Ég væri ein forvitin sál um margmiðlunarefni á diskformi um þetta.
En ég er nú líka skemmtilega hnýsinn að eðlisfari...
Steingrímur Helgason, 31.1.2008 kl. 22:21
Gunnar Helgi Eysteinsson, 1.2.2008 kl. 23:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.