20.11.2008 | 16:37
Enginn bloggleiði bara leti
og ef það nægir ekki til að afsaka hversu sjaldan ég skrifa hérna þá er ágætt að kenna Facebook um. Það er eins og alltaf nóg að gera hérna í Glasgow og mun seint lygna. Bestu fréttirnar eru þær að eftir 13 daga mun ég útskrifast með M.Litt í Medieval Scottish Studies og þá komin með tvo mastera undir handlegginn. Nú er það doktorsnámið sem á hug minn allann. Er á kafi í forn írskum bókmenntum eins og venjulega, er að skoða texta sem er kallaður Bórama (borið fram Bórava) og fjallar um reikningsskil milli tveggja konungsríkja. Deilan er nokkuð langrækin og liggur við að hún slái Íslendingasögunum við, þar sem þessi byrjar ca. 1. öld eftir Krist og stendur í um 6-700 ár. Þetta er löng og ströng frásögn og af ýmsu að taka og ég á enn eftir að ákveða hvað ég mun helga næstu tvö og hált árið í að skoða ítarlega.
Næst besta fréttin er svo að Jólamarkaðurinn fer að koma, byrjar núna á föstudaginn. Þá er gaman að vera í Glasgow. Ég og Catriona erum búnar að mæla okkur mót á morgun til að byrja gleðitímann. Ég er búin að skipuleggja þetta allt saman. Byrja á að fá sér grillað svínakjöt með kokteilsósu, salati og kartöflugratíni að hætti Þjóðverja. Mulled wine til að fagna eða fanga jólaandann, hehehe og svo í eftirrétt súkkulaði húðaður banani á stöng!!! Veislumatur!!!! Svo fer maður á rölt um básana og skoðar flottar ... og ljótar vörur sem verið er að reyna að pranga upp á mann, svo finnur maður alltaf einhvern einn bás sem maður liggur á næstu vikurnar, svoleiðis að fólkið er farið að þekkja mann og bjóða manni alls konar góð kjör!!! Þeir þekkja sko að margæfð verslunarkona er á ferðinni þarna. Ég þarf að fara að bjóða út hæfni mína sem persónulegur verslunar-leiðsögustjóri hérna í Glasgow, er komin með þó nokkuð mörg meðmæli, þau síðustu í dag frá Catrionu.
Þriðja besta fréttin er svo að ég kem heim á klakann 7. desember!! Kem heim með mömmu og pabba sem eru að fljúga út til að vera við útskriftarathöfnina. Og bara af því að það er ég og ég er svo merkileg dama, ef þið eruð forvitin um útskriftina þá verður hægt að horfa á hana beint (eða eftir þennan merkilega atburð) á vefsíðu skólans University of Glasgow. Annars er ekki svo gaman að segja frá því að Icelandair eru ömurlega leiðinlegir við okkur. Ekki nóg með það að þeir hættu að fljúga frá Janúar til Mars þá hættu þeir að fljúga í Desember líka, ég held þeir séu að reyna að fara á hausinn! Og áður en einhver heldur því fram að ég sé siðspillt dekurdrós, þá eru fleiri á sama máli og ég að þetta er fáránleg ákvörðun. Þar á meðal ræðismaður Íslendinga í Skotland! Af hverju ekki að reyna að fá Skotana til að koma í verslunarferðir til Íslands fyrir jól, sérstaklega þar sem Íslendingar hafa verið gestir Skota síðan .. hvað 1980 í verslunarferðum og þá sérstaklega fyrir jól. Eftir allt sem er í gangi heima og hvernig það hefur haft áhrif á samskipti Íslands og Bretlands (þekki það þó ekki nógu vel, ég er í Skotlandi en ekki Englandi) þá skynja ég allt annað viðmót hérn en maður hefur heyrt um. Og ef einhver er viðskotaillur hérna í Skotlandi þá er viðkomandi oftast frá Englandi eða það sem maður kallar Láglendingur. Glasgow er oft kölluð höfuðborg hálandana (fyrir utan Iverness) en það stemmir aðallega vegna þess að ítök gelískunnar eru furðanlega sterk hérna miðað við að vera jafn stór borg og Glasgow er og hefur alltaf verið. En vegna þessara ákvörðunar Icelandair þá þurfum við að fljúga í gegnum London. Og það kom ekki til greina að ég léti mömmu og pabba fara þá ferð ein svo ég skelli mér snemma heim í ár.
Fjórðu bestu fréttirnar og eiga samt eiginlega vel við fyrstu fréttina er að Sandra kemur frá Wales til að vera við útskriftina. 'The Three M.Litt Girls' aftur saman. Held að við séum endalaust búin að vera að hafa truflandi áhrif á fólk sem er að hitta okkur núna og það vantar alltaf eina í klíkuna. Hún kemur næsta laugardag og þá ætlum við að skemmta okkur og hafa gaman heima hjá Catrionu. En þetta þýðir líka að ég er ekki fyrst í röðinni til að vera slegin á hausinn með púðanum af skólastjóranum í útskriftinni. Bara gaman.
Jæja, raunveruleikinn kallar, þarf að reyna að lesa meira í dag svo ég geti réttlætt það að fara út á morgun að leika mér.
Athugasemdir
mmm... jólamarkaðurinn og mulled wine.
hrabban (IP-tala skráð) 21.11.2008 kl. 10:42
Jólamarkaðurinn, ohhhhhhhhhhhhhh ég sakna Glasgow....... Saknar Glasgow ekki mín í alvöru?
Hlakka til að fá þig heim, kanski þú kíkir á bellydance sýningu þann 14 og sérð hversu góður tribal kennari ég er :)
síjú og gangi þér vel að lesa hummm ahhh uhhhh æjjj þetta sem þú varst að tala um áðan :)
Bryndís Steinunn (IP-tala skráð) 23.11.2008 kl. 22:30
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.