Vaknaði við sekkjapípur og fór út að versla með fjarstýringu í veskinu!

Það ætti kannski ekki að koma manni neitt sérlega á óvart að vakna við sekkjapípuleik þegar maður býr í Glasgow en guð minn góður.  Þar sem ég bý á stúdentagarði þá leigja þeir út herbergi hérna á sumrin þegar fáir eru.  Í gær um þrjú birtist heil rúta full af fólki sem var að tjékka sig inn hingað.  Stuttu síðar þegar fólkið er rétt svo búið að henda búnaðinum inn til sín, birtist það hérna fyrir utan gluggann minn og gaulið byrjar.  Ekki misskilja mig, vinir mínir vita, að ég virkilega elska sekkjapíputónlist en það eru samt takmörk.  Þetta var nefnilega ekki tónlist sem hljómaði heldur var þetta 17 sekkjapípur og 10 trommur af ýmsum stærðum og gerðum að æfa sig og þá er ekki gaman að vera nálægt.  Sem betur fer var vinkona mín Catriona búin að bjóða mér í mat annars hefði ég fá hús átt að vernda en ég þurfti að þola þennan líka gígantíska hávaða fyrir utan hjá mér í einn og hálfan klukkutíma þar sem ég þurfti að ganga frá ýmsu áður en ég komst út.  Hafði verið að reyna að læra, hehehe, það er ekki fræðilegur möguleiki þegar sekkjapípur eru annars vegar og of nálægt.  Ég var orðin hálf heyrnarlaus og komin með stærðarinnar hausverk þegar ég loksins slapp út. 

Fór til Catrionu fyrr en áætlað, ég sendi henni txt til að biðjast vægðar og fá að koma fyrr vegna þess að ég var að ærast, hún skildi mig full vel og bað mig velkomna hvenær sem var.  Ég var mjög fegin þegar ég var komin á leiðarenda þrátt fyrir að inni í hausnum á mér ómuðu sekkjapíputónleikarnir enn.  Heather vinkona Catrionu eldaði handa okkur fajitas sem tókst þvílíka svona vel og við borðuðum á okkur gat sem við fylltum upp í með eftirrétti.  Horfðum svo á síðasta þátt (sem betur fer) af Bonekickers og guð minn góður er það nú þvæla, það er bara ekki einu sinni hægt að hafa orð á því hvað þetta eru lélegir þættir.  Mæli sko alls ekki með þeim, nema til þess eins að ánetjast þessum kjánahrollum sem maður fékk yfir hversu gassalegir þessir þættir eru.  Efast ekki um það að þeir sem stóðu fyrir að skrifa handritið að þessum þáttum séu fyrir löngu búnir að skipta um nafn.  Þegar þátturinn var búinn þá héldum við bara áfram að hafa gaman og skrafa um daginn og veginn.  Heather er nefnilega að fara að flytja til Englandi, fékk vinnu þar sem kennari og þetta var svona kveðjukvöld.  Fór svo ekki frá þeim fyrr en upp úr tólf og þá með sjónvarp með mér sem Catriona var búin að vera að geyma fyrir mig.  Það var komin svona vel tími á að ég tæki það til baka og stakk því fjarstýringunni í veskið mitt og burðaðist með tækið heim.

Mér tókst ekki að fara upp í rúm fyrr en rétt um tvö um nóttina samt og ætlaði aldrei að takast að sofna, held það hafi eiginlega ekki tekist fyrr en um fjögur bara.  Svo rétt fyrir átta þá var hringt á dyrabjöllunni, var það þá ekki Royal Mail með sendingu frá Amazon til mín, auðvitað ef ég fæ sendinguna til mín á laugardegi þarf það að vera á svona skemmtilegum tíma.  Ef á öðrum degi þá fæ ég bara tilkynningu um að ég geti sótt pakkann sjálf!  Týpískt.  Náði að sofna aftur eftir að vera búin að kvitta fyrir pakkanum og þá náði ég að sofa til hálf tíu þegar ég var vakin aftur.  Í þetta skipti af heilli sekkjapípusveit. GAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAA, það kom ekki til greina að reyna að sofna aftur og þeir héldu áfram í um klukkutíma áður en þeir fóru af stað.  Í dag var nefnilega Glasgow International Piping Festival.  Ég var svo ekki ánægð, en ég sá að ég gat ekki gert margt af viti í svona umhverfi og ég vissi að það var annar hópur af sekkjapípusveit hérna líka þannig að ég flúði áður en þeir byrjuðu.  Skellti mér niður í bæ í nokkrum erindum og keypti inn mat áður en ég kom heim aftur.  Þar sem ég var svona illa sofin og frekar slöpp þá skreið ég aftur upp í rúm og kúrði í nokkrar mínútur. 

Svo voru tvær rútur að koma til baka núna fyrir stuttu, ekki erfitt að geta til þess hvað var í þeim.  Það heyrist allavegana vel núna hvað þetta var, enda eru þeir að þeyta pípurnar á fullu hérna fyrir utan og ég sem bjóst við að þeir væru búnir að koma þessu úr systeminu sínu í dag.  En það var einmitt núna sem ég fattaði líka að ég hafði farið með fjarstýringuna í bæinn í verslunarerindunum mínum án þess að gera mér grein fyrir því.  Ég gleymdi símanum heima en tók fjarstýringuna með!  Þetta er eins og lélegur brandari um 21.aldar prófessorinn sem var svo viðutan, en ég hef alveg afsökun á þessum sofanadaháttum í mér.  Mig langar bara að vita hvort ég eigi eftir að þurfa að þola fleiri sekkjapíputónleika á komandi klukkutímum og hvað þá með morgundaginn. 

 

Sekkjapípusveitin að æfingu í gær!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Steingrímur Helgason

Mikið ert þú heppin kona að hafa fína ~múzzígkanta~ fyrir utan 'garðinn' þinn!

Steingrímur Helgason, 16.8.2008 kl. 23:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband