Hefðir eða vilji, siður eða regla

Það á að vera val hvers og eins einstaklings (eða brúðar og brúðguma) hvernig athöfnin fer fram.  Það getur vel verið að þetta er siður sem hafi ekki tíðkast í Svíþjóð, en það þýðir ekki að hann eigi sér minni rétt en annar siður.  Ég held að fæstir í dag, tengi brúðkaup við akkúrat það; brúðar-kaup og ég hugsa að fæstar brúðir séu til í að halda því fram að þær séu eign feðra sinna eða svo seinna eiginmanna.  Þetta snýst einfaldlega um vilja, óskir og væntumþykju. 

Ein vinkona mín, Joanne, er að skipuleggja brúðkaupið sitt á fullu.  Byrjaði á því um jólin í fyrra og stendur í stappi við móður sína um brúðarkjóla og sætaskipun.  Brúðkaupið er ekki fyrr en í ágúst á næsta ári!  En það er ekki það eina sem hún stendur frammi fyrir að velja um.  Foreldrar hennar skildu fyrir mörgum árum síðan og bjó hún lengi hjá móður sinni og seinna stjúpföður.  Föður sinn hittir hún einu til tvisvar sinnum á ári þar sem hann býr í Danmörku.  Hún stendur statt og stöðugt á því við okkur vinkonurnar að það skal vera faðir hennar sem fylgi henni upp altarið, hún á bara svolítið erfitt með að láta móður sína vita og skilja það, því að hún er ákveðin í því að vera sú sem fylgir dóttur sinni að altarinu.  Hér gildir ekkert um það hvort foreldrið fylgir brúðinni að altarinu, það er ekkert sem kemur í veg fyrir það að móðir fylgi dóttur að altarinu.  Ég spurði hana út í það af hverju hún vildi að faðir sinn fylgdi henni.  Ég skal taka það fram að þessi stúlka er frekar hefðbundin og siðprúð.  Hún tók það fram að henni fyndist þetta tilheyra en svo kom; "... but he's my dad and I want him there beside me".  Ég held að þetta svari af hverju brúðir vilja hafa föður sinn sér við hlið.

Hver er það sem stúlka lítur upp til þegar hún er lítil.  Sá á heimilinu sem hún hefur kannski ekki eins mikil samskipti við og við móður sína en sá sem hún virðir og veit að það er ekki af ástæðulausu.  Hann er pabbi hennar, þess vegna hlýtur hann að vera besti maður í heimi.  Hver myndi ekki vilja hafa hann við hlið sér þegar hún tekur oftar en ekki stærsta skref líf síns; að fara úr foreldrahúsi í sitt eigið og standa á eigin fótum með eiginmanninn sér við hlið.

Ég skil vel að brúðir vilji hafa föður sinn sér við hlið og það gerir hlutverk móður brúðarinnar ekkert síðra, því oftar en ekki eru það þær sem eru stoðin og styrkurinn fyrir dótturina áður en þær leyfa föðurnum að leiða dóttur sína upp að altarinu. 

Þessi siður tíðkast ekki á Íslandi heldur, en það kemur ekki í veg fyrir að foreldrar séu ekki innan handar fyrir brúðina, hún veit að hún getur alltaf leitað til þeirra, hún lítur út yfir kirkjuna yfir kirkjubekkina og sér þar foreldra, fjölskyldu og vini og hún veit að hún er ekki ein og hún dregur styrk frá þessari sjón. 

Til væntanlegra brúða segi ég þetta, ef þið eruð svo heppin að eiga foreldra og fjölskyldu leyfið þeim að vera stoð ykkar og styrkur á stóra deginum, það eru alls ekki allir svo heppnir. 

Svo aftur á móti eru náttúrulega þeir sem eiga hundleiðinlega fjölskyldu og þá segi ég bara ... Las Vegas!


mbl.is Karlremba að feður fylgi dætrum að altarinu?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mér fynst stundum fólk vera of frekt við tilvonandi brúðhjón... Ef henni langar að vera í skærgrænum kjól og láta Siggu frænku sitja hjá Ola frænda mannsins hennar þá gerir hún það. Og ef hún vill labba ein upp að altarinu þá á hún ekki að spyrja einn né neinn af því..... Ég hef lent í brúðkaupi þar sem brúðinni leið illa í veislunni því að mamman var fúl yfir því að hlutirnir voru ekki eftir hennar höfði....

Bryndis Steinunn (IP-tala skráð) 22.9.2007 kl. 17:57

2 Smámynd: Lady Elín

Nákvæmlega!  Þetta er dagurinn þeirra en ekki foreldranna ... og ekki prestsins!!!

Lady Elín, 22.9.2007 kl. 18:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband